Rannsóknir og doktorsnám: stefna 2013-2018

Sviðsþing Hugvísindasviðs samþykkti nýja stefnu fyrir sviðið þann 13. desember 2013. Ein af meginstoðum stefnunnar eru rannsóknir og doktorsnám og er hlutverk Hugvísindastofnunar að fylgja stefnunni eftir. Kaflinn um rannsóknir og doktorsnám er hér að neðan.

 

Rannsóknir og doktorsnám

Doktorsnemum í hugvísindum hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum. Á vormisseri 2014 munu deildir kortleggja feril og stöðu doktorsnema sinna og meta rækilega forsendur þess að taka við nýjum nemum í doktorsnám. Brýnt er að hlúa að doktorsnáminu, huga að fjármögnun þess og námsaðstæðum doktorsnema. Þótt meginvinna doktorsnema beinist að doktorsritgerð þurfa kennarar og stjórnendur í greinum og námbrautum að styðja við almenna akademíska þjálfun þeirra. Er þá átt við þátttöku doktorsnema í rannsóknahópum eða vinnu þeirra með einstökum kennurum að afmörkuðum rannsóknaverkum, en fremur lítið hefur til þessa verið um beina samvinnu af slíku tagi á sviðinu. Einnig er mikilvægt að doktorsnemar fái tækifæri til að kenna, ef ekki heil námskeið þá a.m.k. hluta af námskeiðum sem eru í umsjá fastra kennara, og eins geta þeir tekið að sér leiðbeiningu lokaverkefna í BA-námi. Jafnframt þarf að kanna hvort doktorsnemar geti komið að starfsemi rannsóknastofnana sviðsins í meira mæli en þeir hafa gert til þessa.

 

Doktorsnemar leika mikilvægt hlutverk við uppbyggingu og endurnýjun rannsóknarumhverfis. Líta ber á þá sem hluta af starfsliði greina og deilda og þeir verða kynntir sem slíkir á vef sviðsins. Hið sama á að sjálfsögðu við um nýdoktora. Tryggja þarf að nýdoktorar séu viðurkenndir sem tímabundnir akademískir starfsmenn deilda og huga þarf vel að skilgreiningu starfsskyldna þeirra hverju sinni sem og að því hvort og hvernig þeir geta komið að kennslu og leiðbeiningu lokaverkefna. Þegar Vigdísarstofnun og Hús íslenskra fræða hafa risið af grunni verður leitast við að útvega doktorsnemum og nýdoktorum vinnuaðstöðu sem næst kennurum í hlutaðeigandi fræðageira.  

 

Rannsóknaþjónusta sviðsins (á vegum  Hugvísindastofnunar)  hefur eflst á undanförnum árum og umsvif hennar aukist, m.a. með fjölgun umsókna í rannsóknasjóði og fjölgun alþjóðlegra ráðstefna sem kennarar og stofnanir sviðsins standa fyrir. Ekki stendur til að fjölga starfsfólki á skrifstofu vegna aukins álags, heldur verður reynt að kaupa viðbótarþjónustu þegar mest þarf á að halda. Akademískir starfsmenn Hugvísindasviðs hafa flestir verið ötulir við að birta rannsóknaverk sín á ritrýndum vettvangi, ýmist á íslensku eða erlendum málum (einkum ensku). Birtingar í alþjóðlegu samhengi eru mikilvægar og stuðningur við birtingar á kröfuhörðum erlendum vettvangi verður aukinn, m.a. með „meðlagsstyrkjum“ þar sem þeirra er krafist og stuðningi við frágang handrita. En Hugvísindasvið gegnir einnig og mun áfram gegna mjög mikilvægu hlutverki sem vettvangur metnaðarfullrar fræðimennsku á íslensku. 

 

Á Hugvísindasviði fer fram margvísleg og vaxandi þverþjóðleg og þverfræðileg starfsemi sem mun setja sterkan svip á sviðið á komandi árum. Sumar af stofnunum sviðsins hafa eflt mjög alþjóðlegt samstarf í kennslu, og má þar sérstaklega nefna Konfúsíusarstofnunina Norðurljós, sem er hlekkur í mikilli keðju hliðstæðra stofnana um allan heim, og alþjóðlega jafnréttisskólann, sem verður senn gerður að sérstakri námsbraut á Hugvísindasviði en hann er nú orðinn einn af skólum Sameinuðu þjóðanna og verður í nánu samstarfi við þrjá aðra skóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Rekstur jafnréttisskólans byggir á umtalsverðu þverfaglegu samstarfi innanlands og á alþjóðlegu samstarfi við sérfræðinga og stofnanir. Hið sama á við um RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum, EDDU – öndvegissetur og Siðfræðistofnun. Og er þá enn ógetið sex grunnstofnana sviðsins á vettvangi rannsókna – Bókmennta- og listfræðastofnunar, Guðfræðistofnunar, Heimspekistofnunar, Málvísindastofnunar, Sagnfræðistofnunar og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum – og einstakra stofa sem heyra undir þær eða beint undir Hugvísindastofnun. Sumar stofurnar eru í virku sambandi við erlenda fræðimenn og þær skapa einnig tengsl á milli fræðimanna úr tveimur eða fleiri grunnstofnunum, en þær síðarnefndu geta einnig verið vettvangur þverfræðilegs samstarfs, eins og sjá má á hinu stóra Lúthersverkefni sem Guðfræðistofnun hefur skipulagt. Með tilurð alþjóðlegs tungumálaseturs á Hugvísindasviði, Vigdísarstofnunar, sem einnig mun starfa undir merkjum UNESCO, munu skapast ýmis tækifæri í kennslu jafnt sem rannsóknum. Auk þess má geta að nýr samningur Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum mun efla samstarf þessara aðila, en Árnastofnun hefur m.a. tekið virkan þátt í markvissri eflingu miðaldafræða, sem Hugvísindasvið gerði að forgangsverkefni fyrir fjórum árum og verður áfram í brennidepli, ekki síst á vegum Miðaldastofu. Nú er einnig unnið að nýjum samstarfsamningum við bæði Þjóðminjasafnið og Þjóðskjalasafnið og stefnt að því að ganga frá þeim á vormisseri 2014.

 

Það er því deginum ljósara að stofnanaflóra Hugvísindasviðs er ríkuleg sem og tengsl þess út á við. Þetta kallar á gott skipulag allra aðila, svo að kröftum sé ekki dreift um of. Fyrst og fremst er þessi flóra þó birtingarmynd mikilla möguleika sem eflt geta bæði rannsóknir og kennslustarf á sviðinu. Rannsóknavinna auðgar kennslu en kennslan getur einnig verið hvati rannsókna, eins og sjá má af nýlegum dæmum á vettvangi kennslu erlendra mála og kennslu íslensku sem annars máls. En sú sköpun sem felst í rannsóknum er ekki aðeins tengd kennslu heldur á hún einnig landamæri að margvíslegri annarri sköpun, svo sem í miðlun, ritstjórn, þýðingum, ritlist og annarri listsköpun en einnig margvíslegri starfsþjálfun. Þess er að vænta að á Hugvísindasviði verði mikilvæg athafnasemi á öllum þessum landamærum á komandi árum. 

 

Á næstu árum mun það þverfræðilega umhverfi sem hefur verið að mótast á Hugvísindasviði skapa viðspyrnu til sóknar eftir alþjóðlegum styrkjum og til aukins samstarfs við innlenda sem erlenda aðila. Stefnt skal að því að árangur af þeim hræringum skili sér m.a. í bættum aðbúnaði og rannsóknakostum í meistara- og doktorsnámi sem og auknu svigrúmi til ráðningar nýdoktora.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is