Ritið 2012

1. hefti - Menningarsaga

Í þessu fyrsta hefti ársins er rýnt í menningarsöguna út frá ólíkum

sjónarhornum hugvísindanna.  Í fyrstu greininni er komið inn á það viðkvæma þjóðernispólitíska samhengi sem þátttaka Íslands í bókasýningunni í Frankfurt var sett í með upphafningu fornsagnaarfsins og óbeislaðrar náttúrunnar og vísunum til velvildar Þjóðverja gagnvart hvorutveggja. Ann-Sofie Nielsen Gremaud bendir á að þótt bókasýningin geti tvímælalaust átt þátt í því að móta ímynd Íslands um stundarsakir þá orki sú áhersla sem lögð var tvímælis. Ólafur Rastrick hugar einnig að sjálfsmynd þjóðarinnar en út frá öðru sjónarhorni. Í samanburði við evrópska menningarsögu virtist hin íslenska full af eyðum sem krafa var gerð um að fylla í kjölfar fullveldis þjóðarinnar 1918. Metnaður Íslendinga var að vera menningarþjóð á meðal menningarþjóða en svo virtist sem lágkúrulegar afurðir erlendrar alþýðumenningar hefðu afvegaleitt hana. Ein helsta táknmynd smekkleysunnar var postulínshundurinn sem stillt hafði verið upp á kommóðum fjölda sveitaheimila. Í þriðju þemagreininni leiðir Þröstur Helgason svo getum að því að þjóðernisleg íhaldssemi hafi verið ástæða þess að módernismi átti ekki upp á pallborðið á Íslandi fyrr en eftir lýðveldisstofnun árið 1944.

Myndaþáttur heftisins er eftir Einar Fal Ingólfsson og heitir „Söguslóðir – Úr Njáls sögu“. Hann kallast skemmtilega á við þema heftisins, ekki síst grein Ann-Sofie. Myndirnar fimm, sem eru hluti af stærra verki, sýna forvitnilegt samspil samtíma og (bókmennta)sögulegrar fortíðar.

Í heftinu eru birtar þrjár greinar utan þema. Henry Alexander Henryson fjallar um skynsemina í náttúrunni og náttúrulega skynsemi. Daisy Neijmann varpar nýju ljósi á þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um blaðamanninn Pál Jónsson út frá sjónarhorni minnisrannsókna. Og Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um skáldsögu Jakobínu Sigurðardóttur, Lifandi vatnið –––, út frá kenningum um fjölradda frásagnir.

Ritstjórar eru Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason.
PANTA BÓK

2. hefti – Kirkja í krísu

Óhætt er að fullyrða að krísur hafi skekið íslensku þjóðkirkjuna á undanförnum árum. Sömu sögu er að segja af mismunandi kirkjudeildum víðs vegar um heiminn, ekki síst kaþólsku kirkjunni. Vandi kirkjunnar er einmitt þema þessa heftis – krísan sem hún stendur frammi fyrir – í fortíð, nútíð og framtíð. Fjórir höfundar sem allir eru guðfræðingar fjalla um efnið frá ólíkum sjónarhornum og greina orsakir jafnt sem afleiðingar þeirra krísa sem um er fjallað. Sameiginlegt stef þemagreinanna er að krísa sé ekkert nýtt í kirkjulegu samhengi, allra síst í hinu evangelísk-lútherska kirkjudeildarsamhengi sem íslenska þjóðkirkjan tilheyrir. Uppgjör Marteins Lúthers við rómversk-kaþólsku kirkjuna á 16. öld var knúið áfram af hugmyndum um endurmat, iðrun og siðbót sem hann taldi nauðsynlegt að færi fram í hverri samtíð, samanber hið þekkta slagorð mótmælendahreyfingarinnar á 17. öld: Ecclesia semper reformanda est! Hin evangelísk-lútherska kirkja er sjálf afurð stórpólítískrar kirkjukrísu og því auðvelt að draga þá ályktun að krísa sé stöðugt viðfangsefni kirkjunnar, einstaklinga, safnaða og kirkjustjórna. 

Í fyrstu þemagreininni fjallar Hjalti Hugason fjallar um á hvern hátt evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi brást við nútímanum um aldamótin 1900 og fram yfir miðja 20. öld. Á þessu tímabili mætti kirkjan tveimur krísum, annars vegar þeirri heimsmynd sem fylgdi nútímanum og nefna má náttúruvísindalega raunhyggju og hins vegar krísunni við upphaf kalda stríðsins. Við upphaf 21. aldar þykir Hjalta sem íslenska þjóðkirkjan standi á  þröskuldi nýrrar krísu. Fjölhyggja og einstaklingshyggja hafa rutt sér til rúms og í því ljósi þurfi þjóðkirkjan að spyrja hvort sú þjóðlega söguhyggja sem hefur verið ríkjandi innan hennar frá því um miðja síðustu öld sé gott veganesti inn í hina nýju öld eða hvort hún sé líklegri til að verða kirkjunni fjötur um fót og einangra hana.

Grein Sigurjóns Árna Eyjólfssonar dregur upp mynd af íslensku þjóðkirkjunni nú um stundir og kirkjuskilningi þekktra samtímaguðfræðinga. Viss samhljómur er á milli greinar Sigurjóns Árna og greinar Hjalta enda tekur sá síðari sér það verkefni fyrir hendur að bera kirkjuskilning Hjalta saman við kirkjuskilning Gunnars Kristjánssonar, sem leggur áherslu á að þjóð og kirkja eigi samleið í gegnum menninguna sem jafnframt móti hvort tveggja.

Sólveig Anna Bóasdóttir ritar þriðju þemagreinina og fjallar um kirkjuna í víðum skilningi hugtaksins, sem hina alþjóðlegu kirkjustofnun, einstakar kirkjur og íslensku þjóðkirkjuna sérstaklega. Hún telur að kirkjan, hvar sem hún starfar í heiminum, standi frammi fyrir afgerandi vali nú um stundir sem snýst um hvort hún treystir sér í róttæka endurskoðun á gagnkynhneigðarhyggju kristinnar hefðar eða ekki.

Fjórða þemagreinin beinir sjónum að tveimur helstu krísum íslenskrar kirkjusögu frá einveldi til lýðveldis. Pétur Pétursson metur það svo að helstu kreppur innan kristindómsins eigi sér tvenns konar upptök: Annars vegar í spennu milli ólíkra túlkana á Kristi og boðskap hans og hins vegar í mismunandi skilningi á því hvernig trúin eigi að tengjast umheiminum og samfélaginu.

Í heftinu eru birtar fjórar greinar utan þema. Benedikt Hjartarson fjallar um yfirlýsingar evrópsku framúrstefnunnar og galdratrú í rússneskum fútúrisma og symbólisma. Björn Ægir Norðfjörð veltir upp kostum þess og göllum að skilgreina kvikmynd á borð við The King of Kings sem Jesúmynd. Heiða Jóhannsdóttir beinir sjónum að fyrstu bresku fræðslumyndunum sem ætlað var að stuðla að forvörnum gegn kynsjúkdómum. Og Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson fara ofan í saumana á útrásardraumum Hallgríms og draga fram á hvaða hátt þeir beinast að íslensku listalífi og greinast frá algengari yfirlýsingum stjórnmálamanna og fjármálagreifa um efnahagsvöxt.

Í þetta sinn er birt þýdd grein eftir kaþólska guðfræðinginn Elizabeth A. Johnson sem ber heitið „Glötun og endurheimt sköpunarverksins í kristinni hefð“ og er sú unnin upp úr fyrirlestri sem hún hélt á ráðstefnu guðfræðinga um náttúru- og umhverfismál skömmu fyrir árið 2000. Guðfræðingar hafa um hríð beint sjónum að náttúrunni og eyðingu hennar og telja sig hafa ýmislegt fram að færa inn í þann málaflokk. Gegn hefðbundinni, mannmiðlægri kristinni guðfræði boðar Johnson það sem kalla má lífhyggjuguðfræði og siðfræði. Lífhyggjan leggur áherslu á að náttúran og lifandi verur aðrar en maðurinn hafi líka sjálfstætt gildi. Johnson telur að efla þurfi velferð dýra og lífríkisins í heild. Þessa skoðun, að allt lífríkið hafi sjálfstætt gildi, má að hennar mati rökstyðja út frá kristinni sköpunartrú: Ekki aðeins allir menn, heldur allt líf er skapað af Guði. Allt líf er gott í sjálfu sér, ekki bara líf mannsins.

Ritstjórar eru Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason.
PANTA BÓK

3. hefti - Hugræn fræði

Allar greinarnar tengjast að þessu sinni þemanu, hugrænum fræðum, eða falla undir það. Auk inngangs ritstjóra eru þær sjö að tölu, á sviði bókmenntafræði, málvísinda, sálfræði, málaralistar og heimspeki.

Árni Kristjánsson sálfræðingur, fjallar um þekkingarfræði Kants í samtímakenningum um sjónskynjun; Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, íslenskufræðingur, stiklar á hugmyndum um líkamsmótun vitsmunanna og segir frá hugrænni bókmenntafræði; Bergsveinn Birgisson, miðaldafræðingur, leiðir lesendur inn í heim líkingafræða og fjallar um eina vísu Egils Skalla-Grímssonar í ljósi lífssögu hans en Bjarni Sigurbjörnsson listmálari nýtir sér kenningar Merleau-Pontys um skynjun og líkamnaða vitund til að greina ákveðnar umbreytingar í myndlist 20. aldar. Bjarni er líka listamaður heftisins; fjögur verka hans fylgja grein hans og hið fimmta prýðir forsíðu Ritsins.

Jörgen L. Pind, sálfræðingur skrifar hins vegar ítarlegan söguþátt um Edgar Rubin, menningarumhverfið sem hann spratt úr og skynheildastefnuna; málfræðingurinn Matthew Whelpton vekur í grein sinni – sem Þórhallur Eyþórsson þýðir – athygli á svokölluðum útkomusetningum (e. resultatives) og forvitnilegum einkennum þeirra sem menn hafa lítt sinnt og Sif Ríkharðsdóttir, bókmenntafræðingur, lýsir jafnt hugmyndum miðalda sem seinni alda um tilfinningar og tekur dæmi af Niflungaljóði til að sýna hvað hafa beri í huga þegar könnuð eru skáldverk frá fyrri tímaskeiðum. Rúsínan í pylsuendanum er þýðing Jóhanns Axels Andersen og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur á grein eftir sálfræðinginn og rithöfundinn Keith Oatley „Að skrifaoglesa: Framtíð hugrænna fræða“ en Oatley vakti hrifningu margra fyrr í haust með fyrirlestrum sínum við Háskóla Íslands.

Gestaritstjórar þessa heftis eru Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Þórhallur Eyþórsson, en aðalritstjórar Ritsins eru Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason.

PANTA BÓK

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is