Ritið 2013

1. hefti - Minni og gleymska

Markmiðið í fyrsta hefti ársins 2013 er að varpa ljósi á hlutverk minnis og gleymsku á mismunandi sviðum. Orðræðan um minni og gleymsku er orðin gríðarlega mikilvæg. Eftir stríðsátök 20. aldarinnar, á tímum upplýsingatækninnar og fólksflutninga þurfum við að muna. En það vekur líka spurningu um hvað við kærum okkur um að muna og af hverju og hverju við kjósum helst að gleyma. Hvað verður um minni þjóðar eftir stríð, áföll eða kreppu; hvers konar úrvinnsla á fortíðinni á sér stað eða á sér ekki stað? Hvert er samband þjóðar við fortíð sína: lærir hún af henni, eða vill hún sælu algleymis svo sagan geti endurtekið sig? Þessar spurningar sýna að rannsóknir á minni og gleymsku eiga brýnt erindi við okkur í dag.

Í heftinu eru að finna sjö þemagreinar og fjalla þær m.a. um menningarlegt minni, minnismenningu Íslendinga, félagslegt minni og hlutverk bókmennta í þjóðarminni. Marion Lerner fjallar um vörður og ferðatexta, Kristín Loftsdóttir skoðar viðtökur á endurútgáfu Negrastrákanna og Jón Karl Helgason skrifar um varðveislu minninga þjóðaskálda. Irma Erlingsdóttir ræðir hið svokallaða blóðhneyksli í Frakklandi og Róbert H. Haraldsson fjallar um falskar eða tilbúnar minningar, Úlfar Bragason og Sverrir Jakobsson fjalla í sínum greinum um söguvitund og samspil minninga og sagnaritunar á miðöldum. Auk þeirra eru kafli um minnisvarða og helfararminni á fjölmiðlaöld eftir Andreas Huyssen í þýðingu Gunnþórunnar Guðmundsdóttur og myndaþáttur um minnismerki á Íslandi eftir Ketil Kristinsson. Loks spyr Eyja Margrét Brynjarsdóttir hvort heimspeki sé kvenfjandsamleg í grein sem fellur utan þema.

Gestaritstjórar þessa heftis eru Gunnþórunn Guðmundsdóttir og Daisy Neijmann, en aðalritstjórar Ritsins eru Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þröstur Helgason.

PANTA BÓK

2. Módernismi

Þema annars heftis Ritsins 2013 er módernismi. Fjórar greinar takast á við þemað með ólíkum hætti. Ástráður Eysteinsson spyr hvernig hægt sé að segja sögu módernismans í grein sem nefnist „Frásagnarkreppur módernismans. Tilraun um bókmenntir og fuglaskoðendur“. Í greininni er spurt um einkenni og sögulega afmörkun módernismans, ekki síst með tilliti til tímabila og afstöðu hans til samfélagsorðræðu og bókmenntahefðar, sérstaklega raunsæislegrar tjáningar og frásagna. Benedikt Hjartarson fjallar um kvikmynd Hans Richter, Vormittagsspuk eða Reimleika að morgni frá 1928, og tengsl hennar við spíritisma og aðra strauma nútímadulspeki í grein sinni „Svipmyndir að handan. Um miðla, fagurfræði og launhelgar nútímans“. Margrét Elísabet Ólafsdóttir heldur sig einnig á þriðja áratugnum í grein um viðtökur expressjónískra málverka Finns Jónssonar í ljósi skrifa Alexanders Jóhannessonar um „Nýjar listastefnur“. Og í fjórðu þemagrein heftisins beinir Svavar Steinarr Guðmundsson svo sjónum að hræringum í íslenskri sagnagerð á sjöunda áratugnum í grein um hugsanleg áhrif bræðingsverks sem Elías Mar skráði eftir Þórði Sigtryggssyni, Mennt er máttur. Tilraunir um dramb og hroka, á Tómas Jónsson: Metsölubók eftir Guðberg Bergsson.

Tvær þýðingar tengjast þema heftisins. Báðar fjalla um landfræðilegar rannsóknir á módernisma sem sótt hafa í sig veðrið á síðustu árum. „Landfræði módernismans í hnattrænum heimi“ eftir Andreas Huyssen er góður inngangur að þessum rannsóknum en Susan Stanford Friedman skoðar módernisma út frá stað eða staðsetningu í grein sem nefnist „Menningarleg hliðskipun og þverþjóðlegt leslandslag. Áleiðis í átt að rannsóknum á staðarmódernisma“.

Þáttur sex nýrra ljóða eftir Matthías Johannessen með heitinu „Við tjaldskör tímans“ tengist einnig þemanu en Matthías er eitt af þeim skáldum sem tekið hafa þátt í að móta íslenskan módernisma í ljóðlist.

Tvær greinar í heftinu standa utan þema. Gunnþórunn Guðmundsdóttir fjallar um mótun endurminninga og sjálfs í minningabókum Sigurðar Pálssonar, Minnisbók og Bernskubók. Og Björn Þór Vilhjálmsson fjallar um þýsku kvikmyndina  Das Vachsfigurenkabinett, eða Vaxmyndasýninguna, eftir Paul Leni frá 1924 í ljósi hugmynda um varðveislu og minni.
Ritstjórar: Eyja M. Brynjarsdóttir og Þröstur Helgason
PANTA BÓK

3. Vald

Þema þriðja heftis ársins er vald og undir því birtast þrjár frumsamdar greinar. Þar ríður á vaðið Vilhelm Vilhelmsson með greinina „Skin og skuggar mannlífsins. Nokkur orð um andóf, vald og íslenska sagnritun“ og skoðar andófshugtakið eins og það kemur fram í sagnfræðirannsóknum. Í greininni „Tyrkjaránið og Guðríður Símonardóttir sem blæti“ fjallar Dagný Kristjánsdóttur um hvernig Guðríði Símonardóttur, sem sneri aftur til Íslands eftir að hafa verið hneppt í ánauð í Tyrkjaráninu 1627, var lýst í munnmælum og þjóðsögum sem fagurri og hættulegri. Þá fjallar Nanna Hlín Halldórsdóttir um valdakenningu Michels Foucault í „Getur leikurinn verið jafn? Um jafnrétti út frá valdagreiningu Foucault“ og færir rök fyrir því að jafnrétti þurfi að skoða út frá hugmyndum um valdatengsl.

Í heftinu eru tvær þýðingar úr ensku sem falla báðar undir valdsþemað. Sú fyrri, „Kúgun: rasísk og önnur“ eftir bandaríska heimspekinginn Sally Haslanger, er greining á kúgun út frá misskiptingu valds. Seinni þýðingin er „Samkynhneigð og nauðgun karla í norrænum lögum og bókmenntum miðalda“ eftir norsku fræðikonuna Kari Ellen Gade.
Heftið hefur að geyma þrjár ritrýndar greinar utan þema. Í „Það er gífurleg áskorun að þurfa að vera jafnvígur á að skrifa fræðigreinar á tveimur tungumálum“ segja þær Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir frá rannsókn sinni á viðhorfum íslenskra fræðimanna til þess að skrifa og birta greinar á ensku. Grein Bergljótar Kristjánsdóttur, „Að segja frá ævintýrum“, hefur að geyma greiningu á sögu Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar, „Ungfrú Harrington og ég“, út frá hugarkenningu hugrænna fræða og sagan er þar túlkuð sem leynilögreglusaga. Þorsteinn Helgason rekur svo hvernig Tyrkjaránið þróaðist sem minning í hugum landsmanna í grein sinni „Tyrkjaránið sem minning“. 
Endahnútinn á þetta hefti Ritsins bindur Ármann Jakobsson í umræðugreininni „Judy Garland er löngu dauð“ með tilgátu um hvers vegna „hinseginhátíð“ sé í vanda.

Ritstjórar: Eyja M. Brynjarsdóttir og Þröstur Helgason
PANTA BÓK

 

 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is