Ritið 2016

1. hefti - Loftslagsbreytingar

Í fyrsta hefti Ritsins 2016 er þemað frásagnir af loftslagsbreytingum; sögurnar sem við segjum af mögulegum lausnum vandans og hugmyndafræðin sem mótar frásagnirnar. Ritstjóri er Guðni Elísson.
Í fyrstu þemagreininni af þremur setur Guðrún Elsa Bragadóttir olíuleit á Drekasvæðinu í samhengi við rökvísi kapítalisma og nýfrjálshyggju, kröfuna um endalausan efnahagsvöxt og athafnasemi. 
Andófið gegn neysluhyggju og kapítalisma er einnig ráðandi í greiningu Magnúsar Arnar Sigurðssonar, „„Ýttu á hnappinn. Bjargaðu hnettinum.“ Frásagnir, nýfrjálshyggja og villandi framsetning loftslagsbreytinga“. Magnús einblínir á stórsögu nýfrjálshyggjunnar í nokkrum bandarískum auglýsingum sem allar eiga það sameiginlegt að kalla eftir tæknilegum lausnum á loftslagsvandanum. 
Þriðja greinin í þemahlutanum er eftir prófessor Sólveigu Önnu Bóasdóttur og ber nafnið „Trú og loftslagsbreytingar. Yfirlýsingar trúarleiðtoga og kirknasamtaka í aðdraganda COP21“. Sólveig Anna fjallar um nýlegar áskoranir kristinna trúarsamtaka sem settar voru fram í aðdraganda COP21 í París 2015, m.a. ýmis konar skrif á vegum Lútherska heimssambandsins, umburðarbréf Frans páfa Laudato si´(Lof sé þér) sem birt var í maí 2015 og yfirlýsingu kaþólskra biskupa frá öllum heimsálfum frá 26. október 2015. 
 
Að auki eru í heftinu ljóð eftir tíu skáld um loftslagsbreytingar. Skáldin eru Alda Björk Valdimarsdóttir, Anton Helgi Jónsson, Gerður Kristný, Guðrún Hannesdóttir, Kári Tulinius, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón, Steinunn Sigurðardóttir og bandarísku skáldkonurnar Teresa Cader og Natasja Trethewey, en ljóð þeirra tveggja síðastnefndu birtast í þýðingu ritstjórans, og snúast um áhrif veðurfarsöfga á mannlega tilveru.
 
Grein Gunnars Theodórs Eggertssonar, „Raunsæisdýr og náttúruvísindaskáldskapur: Dýrasagan í eftirmálum darwinismans“, er ekki hluti af þema heftisins en greinin er byggð á kafla í doktorsritgerð og fjallar um raunsæislegu dýrasöguna sem hófst til vegs og virðingar í vestrænum samfélögum á síðari hluta nítjándu aldar, en slíkar sögur gera reynsluheim dýrsins að meginviðfangsefni. 
 
Hin greinin sem er utan þema heftisins er eftir Kristjönu Kristinsdóttur og ber nafnið „Lénsreikningur reikningsárið 1647–1648“ og snýst um endurskoðun lénsreikninga í rentukammeri fyrir umrædd ár og uppgjör konunglegs fógeta. 
 

2. hefti - Klám

 
Þrjár þemagreinar um klám eru í heftinu. Þorsteinn Vilhjálmsson skrifar um forngríska kynlífsbókahöfundinn Fílænis og viðtökusögu hennar, en út frá henni skoðar hann breytileg siðgæðismörk kynferðislegrar framsetningar – hvað það er sem þykir óásættanlegt á hverjum tíma og hvers vegna. Sólveig Anna Bóasdóttir guðfræðingur fjallar um hugtakið hlutgervingu, meðal annars í femínískri gagnrýni á klám, og notast við skrif heimspekinga og femínískra fræðimanna. Gunnar Theodór Eggertsson er bókmennta- og kvikmyndafræðingur, sem hefur sérhæft sig í dýrasiðfræði, og hann fjallar um dýraklám í heftinu. Hann beinir sjónum sínum að siðferðislegum hliðum þess að manneskjur stundi kynlíf með dýrum áður en hann fjallar um dýraklám sérstaklega.
Þá eru í þessu Riti tvær þýddar greinar eftir Lindu Williams og Eugenie Brinkema. Þær eru báðar merkilegar greiningar á klámkvikmyndum en mjög ólíkar; Linda Williams hefur verið leiðandi í rannsóknum á klámmyndum síðan hennar frægasta verk, Hard Core. Power, Pleasure and the „Frenzy of the Visible”, kom fyrst út árið 1989 og greinin sem við birtum í heftinu, Líkamar kvikmyndanna. Kyn, grein og ofgnótt, er mikilvæg greining á klámi í samhengi annarra kvikmyndagreina sem njóta lítillar virðingar í samfélaginu en hafa sterk líkamleg áhrif á áhorfendur. Grein Eugenie Brinkema, Grófir drættir, er tiltölulega nýleg og óvenjuleg að því leyti að Brinkema greinir í smáatriðum formlega eiginleika mjög ofbeldisfullrar klámmyndar og minnir þannig á mikilvægi þess í rannsóknum á klámi að horfa ekki framhjá óþægilegustu birtingarmyndum þess.
 
Að auki birtast í heftinu þrjár ritrýndar greinar utan þema. Í þeirri fyrstu glímir Hjalti Hugason við spurningar sem vakna af því tilefni að brátt hefur hálf öld liðið síðan Marteinn Lúther hóf siðbótarstarf sitt: Hvenær varð íslenska þjóðin lútersk? Er hún það enn? Ef ekki, hvenær hætti hún að vera það? Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallar um sjálfsævisögu Bjarna Bernharðs, Hin hálu þrep, sem hún telur hafa nokkra sérstöðu, meðal annars vegna þeirrar áhrifaríku reynslu sem lýst er í frásögninni og hinna ólíku tjáningarhátta sem höfundur beitir. Í þriðju og síðustu greininni, sem Birna G. Konráðsdóttir þýddi, fjalla Markus Meckl og Stéphanie Barillé um rannsókn sína á vellíðan og hamingju innflytjenda sem búa á Akureyri.
Ritstjórar eru Guðrún Elsa Bragadóttir og Kristín Svava Tómasdóttir.
 
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is