Hugvísindaþing 2025

Text

Hugvísindaþing 2025 verður haldið í Háskóla Íslands dagana 7. og 8. mars. Á Hugvísindaþingi er borið fram það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. 

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið 7. mars. Í kjölfarið flytur Guðrún Nordal, boðsfyrirlesari þingsins, hátíðarfyrirlestur.

Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Image
Image

Málstofur á Hugvísindaþingi 2025

Á málstofunni verður sjónum beint að stöðu óhlutbundinnar eða abstrakt myndlistar í samhengi íslenskrar lista- og menningarsögu. Erindi málstofunnar fjalla með margvíslegum hætti um birtingarform abstrakt myndlistar á Íslandi frá árunum í kringum seinni heimsstyrjöld, tengslum hennar við alþjóðlegan myndlistarheim og túlkun abstrakt myndlistar í innlendri listumfjöllun. Tengsl hugmyndafræðilegs og fagurfræðilegs grundvallar óhlutbundinnar listar við stjórnmál, efnahag, vísindi og trúarbrögð um miðja 20. öld verða skoðuð og sjónum beint að þróun abstraktsjónar í íslenskri myndlist á seinni hluta 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar. Í því samhengi verður meðal annars fjallað um þá möguleika sem óhlutbundið myndmál býður upp á til samtals við efnislegan, líkamlegan og andlegan veruleika mannsins og umhverfis hans.

Nánar um málstofuna.

Á þessari málstofu verða austfirskar bókmenntir fyrri og síðari alda í brennidepli. Horft verður til Austfirðingafjórðungsins eins og hann var skilgreindur á fyrri öldum eða frá Langanesi að Jökulsá á Sólheimasandi. Hvað vitum við um einkamál skáldanna? Hvernig var samspil skáldskapar og landslags? Hvers konar skrifaramenning þreifst á Austfjörðum? Og hvernig breiddust kvæði út?

Í málstofunni verður sagt frá völdum niðurstöðum úr rannsóknarverkefninu Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma sem styrkt er af Rannís 2023–2025.

Fornleifafræðingar við Háskóla Íslands hafa tileinkað sér þær byltingarkenndu tækninýjungar sem fram hafa komið í vísindum á undanförnum árum. Í málstofunni munu þeir kynna hvernig sumar þeirra hafa nýst við fornleifarannsóknir þeirra, jafnt í námi sem starfi. Kynnt verða tækin XRF og FORS sem eru notuð til þess að greina litunarefni í handritum og klæðum en einnig efni til skreytinga á miðaldagripum. Þá verður sagt frá því hvernig fjölgeislamælar nýtast við leit að fornminjum á hafsbotni og hverju LIDAR myndtökur úr lofti geta skilað við rannsóknir á rústum. Enn fremur verður sagt frá framþróun í greiningum á lípíðum úr ólíkum efnivið og loks farið yfir nýstárlegar aðferðir við sértækar greiningar á leðri.

Revolutionary Technological Innovations in Archaeology

Archaeologists at the University of Iceland have adopted some of the technological innovations that have occurred in science in recent years. In this session, some of these innovations will be presented, and a discussion will be given on how they have been used in ongoing research. Equipment such as XRF and FORS are used to analyse dyes in manuscripts and clothing will be presented; how x-ray detectors are used when archaeological remains are searched and examined under the seabed; and the benefits of using aerial photography with LIDAR while examining and investigating archaeological ruins. Besides this, analysis of lipids in artefacts will be described and even scientific methods for analysing leather.

 

The project Explaining Individual Lifespan Change, funded by the European Research Council, studies how Icelandic politicians change their linguistic behavior over time. In this session, we review three aspects of political language. First, we look at how political identity in general has been found to be linked with use of linguistic variants. Second, we examine how Icelandic political parties as a whole evolve over time with a special focus on the Icelandic economic crisis of 2008. Third, we study how particular individuals in the political landscape evolve over time, some of which behave more or less like their respective political party, while others carve out a more individualized path.

Færa má rök fyrir því að tímabilið á milli 1850 og fram til dagsins í dag í íslenskri menningarsögu hafi verið tímabil einkaskjala. Upp úr miðri 19. öld varð dagbókarskrif æ algengari meðal venjulegra Íslendinga. Þó að þeir séu aðallega karlkyns, koma þessir dagbókarritarar frá fjölbreyttum bakgrunni, sem tákna ýmsa aldurshópa, þjóðfélagsstéttir og efnahagslega stöðu. Þessar dagbækur spanna tímabil frá nokkurra vikna skrifum upp í nokkra áratugi að lengd. Allar eiga það sammerkt að þær bjóða upp á innsýn í mismunandi lífsreynslu dagbókaritara og fólks sem þeir áttu samskipti við. Sama má segja um aðrar gerðir sjálfsbókmennta, einkum sjálfsævisögur, sem eru bæði til í útgefnu formi og handritum; hvort tveggja í umtalsverðu magni. Þessi útbreiðsla sjálfsbókmennta var hluti af víðtækari „ritbyltingu“ meðal venjulegs fólks, sem í auknum mæli leitaðist við að fást við listina að skrifa og safna textum. Þessi hreyfing endurspeglaði ekki aðeins vaxandi áhuga á sjálfstjáningu heldur einnig löngun til að varðveita persónulega og samfélagslega sögu, bregðast við félagslegum breytingum og halda fram einstaklingsbundinni hugsun um sjálfan sig með hinu ritaða orði.

Hér stíga á stokk þrír vísindamenn sem koma að þessum menningararfi frá ólíkum hliðum. Róbert fjallar um hina heimspekilegu hlið sjálfstjáningar, Sigurður Gylfi ræðir nokkra jaðarsetta einstaklinga sem tjáðu sig um líf sitt og tilveru og Davíð beinir sjónum sínum að einum einstaklingi sem sannarlega batt bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir. Þessir þrír höfundar ætla að ræða um sjálfsbókmenntir út frá þeirra sérþekkingu sem er heimspeki, menningarfræði og sagnfræði.

Rithöfundurinn Auður Haralds féll frá á síðasta ári. Fyrsta verk hennar, ævisögulega skáldsagan Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, sem kom út í lok áttunda áratugarins, vakti mikla athygli og umtal enda stíll og efnistök harla ólík því sem margir íslenskir lesendur áttu að venjast. Fleiri skáldsögur fylgdu í kjölfarið, ýmist ætlaðar börnum og unglingum eða fullorðnum. Í málstofunni verður fjallað um feril Auðar frá ýmsum hliðum; fjallað verður um ævi hennar og einstök verk en einnig auglýsingatextagerð sem hún fékkst við um árabil.

Í þessari málstofu verða hugmyndir um heilsu og sjúkdóma teknar til gagnrýnnar skoðunar, bæði til þess að greina hugtakanotkun í heilbrigðisvísindum, sem og stöðu fólks sem þarf að huga að heilsu sinni, veikindum og sjúkdómum. Með hjálp læknahugvísinda, lífsiðfræði og gagnrýnnar fötlunarfræði verður varpað ljósi á hugmyndir sem teknar eru sem gefnar í samfélaginu. Þetta á til að mynda við um hvernig þreyta umlykur flestar okkar athafnir í hversdagslífinu en að það sé ekki fyrr en þegar við upplifum langvinna þreytu sem við veitum henni athygli sem fyrirbæri.

Nýjar hugmyndir koma fram með sífellt meiri hraða í heilbrigðisvísindum til þess að bæta líf fólks. Því er einnig mikilvægt að spyrja, til dæmis, hvernig meðfærabærar arfgerðir (e. actionable genotypes) í einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu tengjast heilsu og sjúkdómum, meðferð og forvörnum. Í því samhengi verður hugtakið „sjúklingur-í-bið“ (e. patient-in-waiting) rætt í tengslum við áhættu-þátta-lækningar (e. risk-factor-medicine). Markmiðið er að sýna fram á mikilvægi upplifana einstaklingsins sem og einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu, bæði hvað varðar kortlagningu á mælanlegum þáttum sem og í huglægum upplifunum fólks á líkama sínum.

Málstofan fjallar um bréfaskriftir, varðveislu bréfa, bréf sem heimildir og útgáfu þeirra. Fyrr á árum, fyrir símann, tölvurnar og alnetið, voru sendibréf ein helsta samskiptaleiðin milli fólks sem dvaldist hvert fjarri öðru. Aðeins brot af öllum þessum bréfum er varðveitt enda var þeim ekki alltaf haldið vel til haga eða jafnvel brennd að ævilokum. Í málstofunni verður fjallað um siðfræði rannsókna á einkaheimildum og rædd tvö dæmi um söfn einkabréfa, efni þeirra og tjáningarform.

Í málstofunni verður fjallað um tengsl Íslands og Grænlands og þau viðhorf sem hafa birst í því samhengi á 20. öld og til samtímans.

Í þessari málstofu verður fjallað um föst orðasambönd. Sjónir beinast einkum að því hvernig verkmenning, atvinnuhættir og iðn (fyrri tíma) endurspeglast í orðasamböndum í þeim tungumálum sem hér eru í brennidepli: íslenska, danska, franska, spænska og þýska. Athyglin beinist annars vegar að orðasamböndum sem eru algild, það er, þau sem koma fyrir í mörgum tungumálum heims, og hins vegar þeim sem eru sértæk, það er að segja, þau sem eru bundin við eitt tungumál eða afmarkað málsvæði.

Eitt af mörgum orðasamböndum úr flokki þeirra sem kallast algild er hamra járnið meðan það er heitt sem fellur undir járnsmíði og er yfirfærð merking þess ‚þurfa að notfæra sér hagstæðar aðstæður‘. Á spænsku er sagt al hierro candente, batirlo de repente, á þýsku das Eisen muss man schmieden solange es heiß ist, á dönsku er smede mens jernet er varmt og í frönsku il faut battre le fer tant qu'il est chaud. Annað dæmi um þannig orðtak er vera vatn á myllu einhvers ‚e-ð er gagnlegt‘, á þýsku Wasser auf seine Mühle sein, á spænsku llevar agua para su molino (veita vatni á eigin myllu) ‚e-ð hentar e-um‘, á frönsku apporter de l'eau à son moulin og dönsku som vand på mølle ‚e-ð hentar e-um‘. Orðasambönd sem flokkast sem sértæk eða svæðisbundin eru til dæmis draga ýsur ‚dotta‘ í íslensku, cortar el bacalao (slægja þorskinn) ‚taka af skarið‘ í spænsku og kleine Brötchen backen (baka rúnstykki) ‚vera hógvær‘ á þýsku. Á dönsku er maður en lille fisk ‚vasaþjófur‘ og á frönsku toujours pêche qui en prend un poisson ‚sá fiskar sem fær fisk‘.

Í málstofunni verða kynnt nokkur rannsóknarverkefni innan námsbrauta í dönsku og sænsku við Mála- og menningardeild. Rannsóknarviðfangsefnin spanna nokkuð breitt svið innan bókmennta, listfræði og þýðingarfræða. Meðal þess sem fjallað verður um eru verk eftir Jeannette Ehlers og Julie Edel Hardenberg í ljósi nýlendusögu Dana og notkun þessara listamanna á hári, hvernig megi lesa verk Solvej Balle, Um rúmmálsreikning I-V, sem viðbrögð við loftslagsbreytingum og út frá kenningum um jarðneskar tengingar (dan. ordiske relationer) og vistrýni. Einnig verður fjallað um rómantík, táknfræði og súrrealisma í ljóðum Piu Tafdrup og hvernig líta megi á ljóðskáldið sem spámann sem sér út fyrir mörk skynseminnar og að lokum hvernig gervigreind er byrjuð að móta bókmenntir og þýðingar á þeim. Í því samhengi verður meðal annars fjallað um tilraunir til að hugsa gervigreind sem verkfæri sem megi nýta í tungumálakennslu á háskólastigi.

Erindi í málstofunni verða á dönsku og sænsku.

Í málstofunni verða nýjar rannsóknir kynntar um hvítleika og sambandið milli hvítleika og sýnileika kannað. Síðustu árin hafa gagnrýnin fræði um hvítleika (e. critical whiteness studies) vaxið fram sem framlenging af rannsóknum um kynþátt (e. critical race studies) almennt. Þessi fræði leitast við að skilja hvernig hugmyndir um hvíta sjálfsvitund hafa þróast gegnum tímann. Ein mikilvæg afurð þessara rannsókna er að hvítleiki sé í vestrænni sögu talinn vera allsráðandi en í senn ósýnileg viðmið um það "eðlilega". Markmið málstofunnar er að gera hvítleika sýnilegan. Nálgunin verður þverfræðileg, með innleggjum úr mannfræði, frönskum bókmenntum, enskum bókmenntum og afnýlendufræðum.

Málstofan verður haldin á ensku.

Í þessari málstofu verður fjallað um þróun stöðumats í íslensku sem öðru máli sem byggist á Evrópska tungumálarammanum.

Í þessari málstofu verður sagt frá rannsóknum á sviði íslensku sem annars máls og einblínt á stuðning, námsefni og kennsluaðferðir svo og fallatileinkun.

Í málstofunni verður fjallað um íslenskar kvikmyndir frá ýmsum hliðum – rætt verður m.a. um það hvort nýbylgju megi finna í íslenskri kvikmyndasögu, hvernig gagnlegt sé að skilja þjóðarbíóshugtakið þegar um örþjóð er að ræða og óstýrilátan kvenleika í hinni sígildu gamanmynd Stella í orlofi.

Á sextándu og sautjándu öld skapaðist sú hefð meðal betri borgara á Ítalíu og í Frakklandi að efna til hálf-opinberra menningarviðburða í heimahúsum. Starfsemi af þessu tagi, sem jafnan var kennd við vettvang sinn, stásstofuna, breiddist hratt út um alla Evrópu og víðar á næstu áratugum. Á þessari málstofu verður hugað að íslenskum heimilum í Reykjavík og á Eyrarbakka sem þjónuðu líku hlutverki og hið evrópska „salon“ á nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.

Í þessari fjölbreyttu málstofu verður rýnt í málhugmyndafræði í sambandi við íslenskt táknmál. Svo verður sjónum beint að viðhorfum nemenda í íslensku sem öðru máli gagnvart kennurum sínum eftir því hvort þeir séu móðurmálshafar eða annarsmálshafar íslensku. Loks verður fjallað um að rækta menntoramenningu í ljósi síaukins fjölbreytileika innan háskólasamfélagsins.

Í málstofunni verður fjallað um íslenskukennslu í grunnskólum og framhaldsskólum í sögu og samtíð. Fyrirlesarar eru kennarar og rannsakendur við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið og fást við rannsóknir á kennslu bókmennta og málfræði í íslensku skólakerfi. Í fyrirlestrum verða kynntar niðurstöður úr rannsókn um sögu kennslubóka í íslensku og tengsl hennar við íslenska bókmenntasögu, fjallað verður um nútímaljóð og dægurlagatexta í íslenskukennslu framhaldsskólum, um kennslu málfræði á grunn- og framhaldsskólastigi í takt við samfélagslegar hræringar og um kennslu miðaldabókmennta í grunnskólum og framhaldsskólum.

Breska hljómsveitin Jethro Tull, með skoska listamanninn Ian Anderson í fararbroddi, hefur haft mikil áhrif á tónlistarsögu veraldarinnar síðustu áratugi, einkum á sviði rokk-, popp- og þjóðlagatónlistar. Á þessari þverfaglegu málstofu munu fyrirlesarar beina sjónum sínum að ólíkum flötum þessa áhrifaþáttar listasögunnar. Farið er yfir sögulegan og menningarlegan bakgrunn hljómsveitarinnar, með áherslu á forsprakka hennar, lykilverk kynnt með völdum tóndæmum, markverðir textar reifaðir og áhrifasagan rakin. Auk þessa verður hugmyndafræðilegt samhengi verkanna kannað út frá trúarlegum og trúarbragðafræðilegum áherslum Andersons í textum hans og tónlist.

Í erindum málstofunnar verður fjallað vítt og breitt um kennsluþróun í hugvísindum. Rætt verður um blandaða kennslu, skapandi og listræna miðlun og verkefnaskil sem og kennsluþróun með gervigreind. Einnig verður rætt um breytingar í námsbraut í sagnfræði og reynslu kennara sviðsins af Inspera prófakerfinu.

Í tilefni af Kvennaárinu 2025 verður blásið til málstofu þar sem fjallað verður um ólíkar konur með ýmis hlutverk í höfuðstaðnum Reykjavík á nítjándu öld og í byrjun tuttugustu aldar.  Erindi flytja fjórar fræðikonur sem fjalla um Þorbjörgu Sveinsdóttur, embættisljósmóður, kvenskörung og baráttukonu, almennt um embættisljósmæður í Reykjavík, sem gengu í heimahús og tóku á móti börnum. Embættisljósmæður tilheyrðu elstu lærðu kvennastétt á Íslandi. Þá verður fjallað um þær eigur sem konur áttu í kaupstaðnum. Að lokum verður sagt frá tíðaranda í bænum og tískunni sem ruddi sér óðfluga til rúms með tilheyrandi áhrifum á íslenska þjóðbúninginn.

Læknahugvísindi er þverfaglegt rannsóknasvið sem tengir saman þekkingu og innsæi tveggja fræðigreina, þ.e. læknisfræða og hugvísinda. Þeim er meðal annars ætlað að dýpka skilning á frásögnum af veikindum, vanlíðan og lækningum, auka skilning heilbrigðisstétta á hugrænni líðan sjúklinga og aðstæðum þeirra og auka þar með samlíðun heilbrigðisstarfsfólks með skjólstæðingum sínum. Innan læknahugvísinda hefur gefist vel að nýta bókmenntir um sjúklinga, lækna, veikindi og sársauka sem umræðu- og þekkingargrundvöll því þær veita aðgang að tilfinningalífi fólks og þjáningu og varpa gjarnan ljósi á samskipti þess við heilbrigðisstéttina. Í málstofunni verður fjallað um bókmenntir af þessu tagi; ekki síst verður sjónum beint að fíkn, sjálfsfeigðarsögum, sorg og missi.

Í málstofunni verður fjallað um þýðingar og viðtökur á verkum sex erlendra rithöfunda á Íslandi. Rebekka Þráinsdóttir stiklar á stóru um sögu rússneska ljóðskáldsins Osips Mandelstams á Íslandi en hann öðlaðist mikla frægð í bókmenntaheiminum á tímum kalda stríðsins í kjölfar útgáfu endurminninga eiginkonu hans. Ásdís Rósa Magnúsdóttir gerir grein fyrir íslenskum þýðingum á skáldsögum Alberts Camus, Útlendingnum, Pestinni og Fallinu, og rýnir í viðtökur þeirra á 6. og 7. áratugi síðustu aldar. Í erindi sínu fjallar Irma Erlingsdóttir um viðtökur á verkum fransk-marokkóska rithöfundarins og blaðamannsins Leïlu Slimani en hún þýddi nýverið bók hennar Kynlíf, nauðung og lygar í Marokkó. Guðrún Kristinsdóttir gerir grein fyrir helstu þýðingum og uppsetningum á leikritum Samuel Becketts og Eugène Ionesco í íslenskum leikhúsum og viðtökur þeirra. Að lokum mun Ingibjörg Þórisdóttir rýna í gagnrýni á þýðingu Matthíasar Jochumssonar á leikritinu Othello eftir William Shakespeare.

Nýyrði gegna mikilvægu hlutverki í mótun orðræðu þar sem þau geta kynnt nýjar hugmyndir eða þekkingu. Með nýjum orðum má styrkja, skýra eða jafnvel breyta umræðunni, meðal annars með því að opna nýjar leiðir til að hugsa um málefni eða tjá sig. Þessi þróun hefur bein áhrif á hvernig við hugsum saman sem samfélag.

Í þessari málstofu verður fjallað um hlutverk nýyrða í tengslum við annars vegar umhverfismál og hins vegar kórónuveirufaraldurinn. Meðal umhverfisorða má nefna orðið hamfarahlýnun sem endurspeglar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar fyrir náttúruna og jarðarbúa og orðið grænþvottur (e. greenwashing) sem vekur fólk til umhugsunar um siðferðileg álitamál í markaðssetningu og aðgerðum fyrirtækja. Þessi orð hafa stuðlað að dýpri skilningi á umhverfisáhrifum og þeim áskorunum sem fylgja loftslagsbreytingum.

Á tímum kórónuveirufaraldursins komu mörg ný orð inn í tungumálið, svo sem fjarlægðarmörk og örvunarbólusetning. Þessi orð gegndu lykilhlutverki við að skapa sameiginlegan skilning á því hvernig samfélög ættu að bregðast við faraldrinum. Þau hjálpuðu til við að móta og samræma viðbrögð samfélagsins á þessum erfiðu tímum. Jafnframt komu fram óformleg orð sem fólk notaði í daglegu tali til þess að lýsa nýjum aðstæðum, eins og ýmis orð með forskeytinu fjar- og kóviti.

Á málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir á sambandi orðmyndunar og merkingar í íslensku. Þessar rannsóknir eru í mótun og niðurstöður þeirra hafa ekki birst enn sem komið er. Fjallað verður um smækkunarviðskeyti og smækkunarliði (e. diminutives) og þessar einingar ræddar út frá merkingu, virkni og lauslegum samanburði við skandínavísk mál. Einnig verður fjallað um þá tegund orðmyndunar þegar sögn er dregin af nafnorði án aðskeytis eða innskeytis (e. conversion) og þá sérstaklega um einn undirflokk hennar með dæmum frá undanförnum árum og þau skoðuð í samhengi við nýja samskiptahætti Internets og samfélagsmiðla. Þriðja erindið á málstofunni fjallar um samspil forskeyta og agna, sbr. að marggefa út og að endurútgefa.

Síkvik og fjölmenningarleg samfélög Rómönsku-Ameríku ala síendurtekið af sér samfélagshópa sem í fyrstu eru staðsettir á jaðrinum. Má þar nefna baráttuhópa frumbyggja, kvenna, umhverfissinna, LGBTQ+, trans-fólks og marga fleiri. Sumir hverfa með tímanum, aðrir aðlagast öðrum hópum á sama tíma og enn aðrir eflast og öðlast viðurkenningu – verða hluti meginstraumsins.

Í málstofunni verður sjónum beint að birtingarmyndum þessa óróa í bókmenntum og kvikmyndum álfunnar nú við upphaf XXI aldar. Stuðst verður við texta- og orðræðugreiningu og varpað ljósi á það hvernig skilja megi tilurð og virkni ólíkra hreyfinga aðgerðarsinna sem ákall um uppstokkun og breytingar samfélaga þar sem feðraveldi, trúarkenningar og arðrán náttúruauðlinda hefur ráðið um aldir.

The theme of this stream is the retellings and transformations of old and new stories and genres, considered from a variety of exciting angles.

This session in English presents topics involving revisitations of valorized past, foregrounding in interesting ways the importance of revaluations of cultural icons.

Until recently, Icelandic academics and researchers of Romani Studies alike believed Iceland to be a Roma-less territory with a rather homogeneous and isolated population in which Roma people were unseen until the late twentieth century. Despite this lack of actual contact, an image of the “Gypsies” (“sígaunar” and “tatarar”) has still been present in Iceland, and – similar to everywhere in the Western world – has been shaped by literature, art and folk narratives portraying the Gypsies/Roma between two interrelated extremes: an exotic one and a marginal one.

The participants in the session will present the final results of the project inquiry into the presence and reception of Roma/Gypsies in Iceland as well as groups and individuals believed to be “Gypsies” in different historical periods from the early twentieth century until today. We will provide an overview of the research questions, outcomes and methodologies in the broader context of Romani Studies and the history of the Nordic region, demonstrating that Romani presence in Iceland is part of the connected histories of Roma as a transnational ethnic community.

The panel will be in Icelandic and English.

Væntanlegt.

Í þessari málstofu verða tekin fyrir ýmis álitamál sem upp koma í samfélagsumræðunni eða í samskiptum á milli fólks og þau greind frá heimspekilegu sjónarhorni. Meðal umræðuefna verða afneitun á loftslagsbreytingum, blóðmerahald, sjálfbærnimenntun, fólk á flótta, ástarsambönd, fyrirgefning og femínísk friðarstefna.

Á þessari málstofu verður fjallað um kristnihald frá fjórum hliðum sem allar tengjast þó á vissan hátt. Dr. Sigurvin Lárus Jónsson leitar aftur í frumsöfnuðina, rekur dæmi af því sem kann að vera merki um ofbeldi innan raða þeirra og greinir þau tilvik. Dr. Skúli S. Ólafsson veltir fyrir sér hugtökunum forysta og stjórnun“ í samhengi þeirra breytinga sem urðu 2022 þegar yfirstjórn Þjóðkirkjunnar var skipt upp í tvö svið, rekstur og kennimannlega þjónustu. Dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir hefur rannsakað breytingar sem hafa orðið varðandi tíðni skírna á Íslandi og setur þær í samband við trúarlega og menningarlega strauma. Dr. Sigríður Guðmarsdóttir ræðir drög að nýrri handbók Þjóðkirkjunnar þar sem forskrift er gefin að því hvernig helgihaldi skuli háttað. Hún skoðar sérstaklega umhverfismál í því sambandi. Hér verður því litið til ólíkra þátta þessa viðamikla hugtaks sem kristnihaldið er, allt frá fornöld og svo fram til ókominna tíma þegar helgihaldið tekur á sig nýja mynd með nýrri handbók.

Í þessari málstofu verða til umfjöllunar textar sem tengjast stríðum og nýlendustefnu. Kannað verður sjórnarhorn á atburði úr fortíð og litið á endursköpun á minningum í skáldskap sem á einhvern hátt markast af ófriði og heimsvaldastefnu. Einkum verður litið til skáldsagna og smásagna í ljósi rannsókna á íslenskum stríðsminningum og norrænum nýlendum.

Í þessari málstofu koma fram niðurstöður, gögn og tilgátur úr rannsóknarverkefnum sem fást við heimsmynd íslenskra miðaldabókmennta. Fremur en að einblína á heimsfræði Snorra Eddu og eddukvæða, munu fyrirlesarar leitast við að draga fram minni áberandi – og stundum ógreinilega – þætti sem benda til margslunginnar og fjölbreytilegrar sýnar miðaldamanna á veruleikann. Leitað verður að bókmenntalegum einkennum sem flétta inn í frásagnirnar hugmyndum um verufræðilegt hlutverk karla og kvenna, um tengsl þeirra við umhverfið, og um stöðu þeirra í heiminum. Margvíslegum aðferðum sem styðja hver aðra verður beitt til að draga fram meðal annars hlutverk tákna, ljóða og hins yfirskilvitlega (e. fantastic) í mótun bókmenntalegrar heimsmyndar og tengsl hennar við trúarlegar iðkaðir og menningarlegar hefðir. Fyrirlestrarnir byggja á rannsóknarverkefnunum Kvennaspor: Afhjúpun og ljómun kvenna í sagnalandslagi Íslands, sem styrkt er af Rannís, og Bókmenntir og trúarlif leikmanna á miðöldum, sem styrkt er af sjóðnum Ritmenning íslenskra miðalda sem er í umsjón Snorrastofu í Reykholti. Enn fremur tengjast þeir doktorsverkefni Brooklyn. Samspil rannsóknarstarfs fyrirlesaranna og iðkun þeirra sem myndlistakvenna kemur líka til skjalanna. Brooklyn og Emily flytja fyrirlestra sína á ensku en Marie á íslensku.

This session will present conclusions, data, and hypotheses from research projects exploring the worldviews conveyed by Icelandic medieval literature. Going beyond the well-known mythical cosmogony depicted in the Eddas, the papers will explore more subtle – and sometimes uncertain – elements that reveal the complexity and the plurality of the medieval vision(s) of the real. They will look at literary features that weave into the narratives’ fabric ideas about the ontological role of men and women, their relationships with the environment, and their place in the world that lives in these texts. These will be examined through complementary approaches that highlight, among others, the role of symbols, poetry, and the fantastic in the literary shaping of such worldviews, in relation with religious and cultural traditions and practices. The papers presented in this session build on the ongoing research projects Kvennaspor: Unearthing and Foregrounding Women in Icelandic Saga Landscapes, funded by Rannís, and Secular Literature and Lay Religion in Medieval Iceland, funded by the project Literary culture of the Icelandic Middle Ages managed by Snorrastofa, and on Brooklyn’s doctoral research project. The interactions between the speakers’ research work and their practice as visual artists will also come into play. Brooklyn and Emily will deliver their papers in English and Marie will speak Icelandic.

Í málstofunni Tregahornið: Frásagnir af dauða og missi verður fjallað um ýmiss konar leiðir til þess að miðla óumflýjanlegum veruleika dauðans í samfélagi okkar og menningu, og varpað fram spurningum um það hvort í sorgarúrvinnslu og trega frammi fyrir andláti ættingja og ástvina felist sátt við forgengileikann eða aðferð til þess að vekja okkur til vitundar um stöðu mannsins í tilverunni.

Endursögn goðsagna hefur alltaf í för með sér hugmyndafræðilega endurtúlkun sem stuðlar að því að gömlu sögurnar halda mikilvægi sínu. Goðsagnir eru almennt taldar hefðbundnar og þjóðlegar, en halda á sama tíma vissri dulúð og tvíræðni sem gerir þær sveigjanlegri og ‏þess vegna hentugri til hugmyndafræðilegrar og pólitískrar notkunar en margar aðrar tegundir frásagna. Þema málstofunnar er femínísk endurtúlkun og endurvinnsla goðsagna á ólíkum tímum og í mismunandi samfélagslegu samhengi, allt frá Eddukvæðum miðalda til vistskáldskapar 21. aldar. Rýnt verður í skáldskap og aðrar menningarafurðir, bæði frá sjónarhorni fræðimanna og rithöfunda sem sótt hafa innblástur til fornra goðsagna. Hvernig hafa goðsöguleg viðfangsefni verið endurtúlkuð í samhengi við femínískar stefnur, bæði hérlendis og erlendis? Og að hve miklu leyti geta Eddukvæðin virkað sem „leiðarvísir félagslegra aðgerða“ (sbr. Bronisław Malinowski) þegar kemur að málefnum kynjanna?

Í málstofunni verða flutt erindi um efni á sviði norrænnar rúnafræði, bragfræði, hljóðkerfisfræði, textafræði og þýðinga. Erindin ættu að höfða til allra sem hafa áhuga á málsögu, textafræði og þýðingum.

Þrívíddarskönnun er notuð í margvíslegum verkefnum til að safna gögnum, til stafrænnar varðveislu, til miðlunar og í nýsköpun af ýmsu tagi. Í þessari málstofu kynnumst við nokkrum verkefnum sem nýta sér þessa tækni, og tæki í eigu Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista, og skoðum notagildi þrívíddarskönnunar. Við kynnumst vinnu við þrívíddarskönnun torfbæja og líkamsleifa, notkun skannaðra muna í tölvuleikjum og aðferðum við að skanna í þrívídd með snjallsímanum.

English below

Hugvísindaþing verður haldið 7. og 8. mars 2025.

Þingið verður haldið í húsakynnum Háskóla Íslands. Stefnt er að streymi frá að minnsta kosti sumum málstofum en þingið verður ekki tekið upp. Fyrirlestrar verða því ekki aðgengilegir að þingi loknu. 

Þingkall

Kallað er eftir tillögum að fullskipuðum málstofum á sviði hugvísinda. Hvatt er til þverfaglegra málstofa innan hugvísinda eða í samstarfi við aðrar fræðigreinar. Frestur til að skila inn tillögum er til 10. janúar 2025.

Neðst í þingkallinu er vísað á vefform til að skila inn tillögum.

Málstofur verða að jafnaði með þremur eða fjórum fyrirlestrum (30 mínútur hver með umræðum), en heimilt er að senda inn tillögur að styttri eða lengri málstofum. Fyrirlesarar geta þó ekki verið fleiri en sjö.

Hugvísindafólki hvaðanæva að er heimilt að senda inn tillögu að málstofu, þar á meðal nýrannsakendum og doktorsnemum á sviði hugvísinda sem eru sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttaka annarra nemenda þarf að vera í samráði við leiðbeinanda eða stjórnanda rannsóknarverkefnis sem ber að ráðfæra sig við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar.

Skipuleggjendur málstofa þurfa að senda tillögur sínar með því að nota vefform hér neðst á síðunni.

Nánar um skipulag þingsins:

  • Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur sé 20 mínútur og tæpar 10 mínútur til umræðna.
  • Aðeins er leyfilegt að vera fyrsti höfundur að einum fyrirlestri. Nánari upplýsingar um heimild til að vera meðhöfundur veitir verkefnisstjóri þingsins, Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is.
  • Fyrirlestrar á þinginu eru að jafnaði á íslensku, en fyrirlesarar með annað móðurmál eru velkomnir.
  • Ekki er gert ráð fyrir rafrænni þátttöku fyrirlesara. Óskir um undanþágur frá því verða teknar til athugunar. Tæknilegar lausnir á rafrænni þátttöku yrðu í höndum skipuleggjenda málstofanna.
  • Lýsing á málstofum birtist á síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.
  • Málstofum verður skipað niður með það að leiðarljósi að sem fæstir óheppilegir árekstrar verði.
  • Skipuleggjendur málstofa safna einnig saman útdráttum í samvinnu við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar og annað starfsfólk þingsins og miðla upplýsingum eftir þörfum til fyrirlesara.
  • Lokafrestur til að skila útdráttum er 7. febrúar. Æskileg lengd er 80-200 orð.

Að venju er einnig hægt að senda tillögur að stökum fyrirlestrum, en óvíst að hægt sé að raða þeim saman eftir efni. 

Málstofur verða metnar af starfsmönnum Hugvísindastofnunar sem leggja tillögu að dagskrá fyrir stjórn stofnunarinnar. Ef fleiri sækja um málstofur en pláss er fyrir verður litið til þess hvernig málstofurnar dreifast á fagsvið hugvísinda þar sem gætt verður að því að sem fjölbreyttust flóra hugvísinda komist að. Fyrirlestrar sem greina frá niðurstöðum rannsóknaverkefna sem ekki hafa fengið umfjöllun áður, hvort sem þau eru unnin af einyrkjum eða hópum, njóta alla jafna forgangs. Svör frá Hugvísindastofnun munu berast eigi síðar en í lok janúar.

Dagbjört Guðmundsdóttir veitir nánari upplýsingar um þingið, dagu@hi.is.

Smellið hér til að opna vefform fyrir tillögu að málstofu.

 

Call for sessions – Annual Humanities Conference, March 7-8, 2025

The conference will be held in the facilities of the University of Iceland.

Some of the sessions may be live-streamed, but the conference will not be recorded. Lectures will therefore not be accessible after the conference.

Call for sessions

Hugvísindaþing (The Annual Humanities Conference) welcomes proposals for fully organized sessions in the field of Humanities. We particularly encourage proposals for interdisciplinary sessions within the field of Humanities, or for sessions in cooperation with other fields. Deadline for session proposals is January 10, 2025.

Please find the online submission form below.

Typically, sessions consist of three to four papers (each lasting 30 minutes including 10 minutes of discussion); proposals for longer or shorter sessions, however, are welcome as well. The largest possible number of speakers is seven.

We warmly welcome proposals by junior researchers and doctoral students in the field of Humanities. Graduate students can take part only with the consent of their project supervisor. In this case, the supervisor must consult with the project manager, Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is.

Session organizers must submit their proposals by using our online submission form (below).

Organization and program

  • Every paper is supposed to last 20 minutes followed by 10 minutes of discussion.
  • Each participant can only be the first author of one paper. Further information on co-authoring is provided by the project manager of Hugvísindastofnun, dagu@hi.is.
  • Papers are usually in Icelandic, but presentations in other languages are welcome.
  • Speakers are not supposed to give their papers exclusively online, although few sessions may be streamed. Requests for exemptions may be considered; technical solutions would be in the hands of the session organizers.
  • All information on the sessions as well as all paper abstracts will be published on the conference website.
  • Session organizers are responsible for collecting abstracts in cooperation with the project manager of Hugvísindastofnun as well as sharing all relevant information with the speakers.
  • Deadline for submitting abstracts is February 7, 2025. Abstracts should be 80-200 words.

Single presentations are also accepted and will be allocated into sessions by organizers. These sessions are often without a special theme.

 

Proposed sessions will be carefully evaluated by the staff of Hugvísindastofnun, who also suggest a preliminary program to its directors.

Submission proposals presenting results of current research projects, that have not yet been discussed, will be given preference, no matter if they are individual or group projects. All proposals will be answered before the end of January.

For further information please contact Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is

Click here to open the online submission form (the form is in Icelandic, please contact Dagbjört Guðmundsdóttir for assistance if needed)

 

Hugvísindaþing er haldið í húsakynnum Háskóla Íslands.

Þingið hefst að jafnaði með hátíðarfyrirlestri en síðan halda gestir í málstofur sem gjarna eru um 40 talsins og dreifast á tvo daga.

Málstofur eru oftast skipaðar þremur eða fjórum fyrirlesurum og heldur hver þeirra um 20 mínútna fyrirlestur auk þess sem tæpar 10 mínútur gefast til umræðna.

Lýsing á málstofum birtist á sérstakri síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.

Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Upplýsingar um Hugvísindaþing 2007 til 2016 má finna á vefsíðunni hugvis.hi.is á vefsafn.is en upplýsingar um þingin 2017 til 2021 á vefsafn.is: