Hugvísindaþing 2023

Texti

Hugvísindaþing 2023 verður haldið í Háskóla Íslands dagana 10. og 11. mars. Á Hugvísindaþingi er borið fram það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Meðal þess sem fjallað verður um í ár er María mey, Grýla, stafrænar skemmtanir, Austurland, rímur, ríkisvaldið, táknmál og önnur mál, listir, loftslagsbreytingar, kennsla, þýðingar og bókmenntagagnrýni.

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið í Hátíðasal í Aðalbyggingu föstudaginn 10. mars kl. 12. Í kjölfarið flytur Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki, hátíðarfyrirlestur. 

Málstofur fara fram í Árnagarði, Lögbergi og Odda og dagskráin er birt hér að neðan. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Nánari upplýsingar veitir Margrét Guðmundsdóttir (mgu@hi.is). Óskir um táknmálstúlkun þurfa að berast á netfangið rannsve@hi.is fyrir 8. mars.

Mynd
Image

Titill
Hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings 2023

Texti

Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki, heldur hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings að þessu sinni. Vilhjálmur varð nýlega sjötugur og lauk þá löngu og farsælu starfi við Hugvísindasvið. Hann byrjaði ferilinn sem stundakennari fyrir 40 árum og varð prófessor árið 1996. Jafnframt stýrði hann Siðfræðistofnun Háskóla Íslands frá 1997. 

Vilhjálmur hefur fjölbreytta reynslu af kennslu, rannsóknum, ritstjórn og stjórnunarstörfum og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hefur einkum fengist við efni á sviði siðfræði, tilvistarheimspeki, heimspeki samfélags og stjórnmála. Viðfangsefnin hafa verið margvísleg, oft á mörkum ólíkra fræðigreina og með áherslu á þýðingu þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu.

Vilhjálmur nefnir erindi sitt Samtalið sem siðferðilegt hugtak. Nánari upplýsingar.

Mynd
Image
Vilhjálmur Árnason

Málstofur á Hugvísindaþingi 2023

Bíbí í Berlín – Bjargey Kristjánsdóttir  (1927–1999) – ritaði sjálfsævisögu sína undir lok ævi sinnar sem gefin var út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar síðasta ár af Háskólaútgáfunni en Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði, sá um útgáfuna. Í þessari málstofu munu fyrirlesarar skoða ýmsar hliðar arfleifðar Bíbíar og rökræða mikilvægi efnisins – heimildanna – sem hún skildi eftir sig fyrir íslensk hug- og félagsvísindi. 

Í Árnagarði 311 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Yfirskrift málstofunnar er regnhlífarheiti fyrir erindi fræðimanna sem fjalla um rannsóknir ýmiss efnis á sviði sagnfræði og fornleifafræði en þær eiga það þó allar sameiginlegt að fjalla um málefni sem tengjast Austurlandi á ýmsum tímabilum. 

Í Odda 202 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Markmið málstofunnar er að kynna rannsóknir á þætti kristinnar trúar í ýmsum menningarafurðum íslenskra miðalda, sem almennt eru ekki talin tengjast henni.

Í Árnagarði 311 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður saga og staða bókmenntagagnrýni á Íslandi til umfjöllunar.

Í Árnagarði 311 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofu.

Á málstofunni verða kynntar yfirstandandi rannsóknir á sögu kennslubóka í íslensku og á notkun kennslubóka í samtímanum.

Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofu.

Í málstofunni verður fjallað um tvær yfirstandandi rannsóknir sem beinast að því að skoða málhugmyndafræði, stefnur er varða íslenskt táknmál (ÍTM) og móðurmál innflytjenda sem og framkvæmd þeirra í skólakerfinu og utan þess.

Málstofan verður túlkuð á íslenskt táknmál.

Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofu.

Í þessari málstofu verða kynntar rannsóknir á viðhorfum nemenda til þýskunáms og á kennslufræði erlendra tungumála með tilliti til námsgagna og menningarmiðlunar. Einnig verður sjónum beint að tungumálakennslu með aðstoð leiklistar.

Í Árnagarði 310 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um nokkra franska rithöfunda og málefni sem eru í deiglunni í bókmenntaumræðunni.

Í Árnagarði 310 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni munu höfundar ræða femínísk skrif, ævintýrasögur og vinsælar bandarískar skáldsögur frá lokum 19. aldar í samhengi rannsókna á tengslum Bandaríkjanna og Norðurlanda.

Í Árnagarði 310 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Málbreytingar eru margs konar og sama gildir um nýjungarnar sem þær skapa. Í málstofunni verður litið á nokkrar nýjungar sem sprottið hafa upp í íslenskri málsögu eða forsögu hennar, allt frá elsta tíma til nútímans.

Í Odda 106 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um guðsmyndarsmíði frá ólíkum sjónarhólum og dæmi tekin úr bæði sögu og samtíð.

Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Þessi málstofa er um Grýlu og tengsl hennar við börn – bæði börn í hópi áheyrenda og hennar eigin börn – og um mótun Grýlukvæða- og Grýluþuluhefðar sem jólabókmenntir fyrir börn.

Í Árnagarði 101 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-14:45. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður hugað að dæmum úr samtímabókmenntum um hetjur í fjölbreyttu samhengi.

Í Árnagarði 310 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-14:45. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Lög og réttarhöld fyrri tíma eru sígilt rannsóknarefni sagnfræðinga og bókmenntafræðinga. Oft býr að baki hreinræktaður sögulegur áhugi en kveikja slíkra rannsókna geta þó allt eins verið þær hugmyndir um glæpi, réttlæti og dómstóla sem ríkjandi eru í samtímanum. 

Í Árnagarði 304 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður sjónum beint að kennslu og tileinkun íslensku sem annars máls. Skoðaðir verða þættir á borð við málfræði og orðaforða og tileinkun þeirra samkvæmt mismunandi erfiðleikastigum með hliðsjón af Evrópska tungumálarammanum. Svo verða rædd íslenskunámskeið fyrir leikskólastarfsfólk á grundvelli samstarfs Menntafléttunnar og Íslenskuþorpsins.

Málstofan verður túlkuð á íslenskt táknmál.

Í Lögbergi 201 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-16:45. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Málstofan hverfist um þróun þverfaglegra, framvirkra og skapandi leiða til þekkingarmiðlunar um þann margþætta umhverfisvanda sem mannkynið og lífríki Jarðar standa frammi fyrir.

Í Árnagarði 301 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í vinnustofunni verður sjónum beint að baráttu ýmissa jaðarhópa í sunnanverðri Suður-Ameríku og leit þeirra eftir samfélagslegri viðurkenningu gerð skil. Málstofan verður á spænsku.

Í Árnagarði 303 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verða ræddar mismunandi aðferðir í kennslu íslensku sem annars máls utan kennslustofu og með stuðningi tækni.

Í Lögbergi 201 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-14:45. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Þessi málstofa snýst um krókana og kimana í heimsbókmenntum frá sjónarhóli smáþjóða.

Í Árnagarði 310 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður fjallað um vald og getu ríkisins og stofnana þess út frá sögulegum sjónarhornum.

Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður leitast við að varpa ljósi á breytileika og þróun í íslensku máli.

Í Árnagarði 201 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

María guðsmóðir er án efa áhrifamesta kona sögunnar, bæði sem söguleg persóna og ímynd. Í þessari þverfræðilegu málstofu guðfræðinga og fornleifafræðinga verða ýmsir þættir þessarar áhrifamiklu sögu skoðaðir, þar sem kastljósinu er einkum beint að birtingarmynd Maríu á Íslandi.

Í Odda 106 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um ýmsar hliðar málvísinda sem hefðu verið óhugsandi áður en nútímatækni kom til sögunnar.

Í Árnagarði 201 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Hér verða kynnt rannsóknarverkefni sem unnin eru í samvinnu við listasöfn (Listasafn Reykjavíkur og Hönnunarsafn Íslands), bandaríska listfræðitímaritið October og Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Í Árnagarði 422 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í þessari málstofu verða margvíslegar glænýjar rannsóknir á íslenskri setningafræði kynntar, bæði í nútímamáli og eldra máli. Erindin eru mjög fjölbreytt; helstu viðfangsefni eru tengingin SEM AÐ, leppsetningar, samband setningafræði nafnliða og hljómfalls, setningafornöfn, andlagsstökk og þyngdaráhrif nafnliða, nýjar sagnir og rökliðagerð þeirra og forsendur málbreytinga í forníslensku. 

Í Lögbergi 103 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Efni málstofunnar er sjónræn og stafræn menning á nýju árþúsundi með sérstakri áherslu á leikjamenningu og leikjafræði.

Í Odda 106 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Allnokkur umræða hefur verið á síðustu misserum um ritmálsstaðal íslensks nútímamáls og hvort þarf að endurnýja hann. Í þessari málstofu er rætt um stöðlun stafsetningar frá ýmsum hliðum en stafsetning er sá hluti ritmálsstaðalsins sem byggist á stjórnvaldsfyrirmælum og er þar með skýrastur en þó ekki óumdeildur.

Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Fjallað verður um þætti úr sögu fornaldarheimspeki.

Í Árnagarði 303 laugardaginn 11. mars kl. 15:00-16:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

The topic of this session is translated hagiography in medieval Iceland.

Í Odda 206 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni eru vinnuvísindin skoðuð í hugmyndasögulegu ljósi sem og áhrif þeirra á þróun velferðarsamfélagsins á síðustu öld.

Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um Íslandsleiðangra Pauls Gaimard á fjórða áratug 19. aldar.

Í Árnagarði 101 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í málstofunni eru sex erindi sem fjalla um rímur frá ýmsum sjónarhornum.

Í Árnagarði 304 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-14:30. Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í þessari málstofu beinum við sjónum okkar að orðapörum og föstum orðasamböndum í spænsku, þýsku og dönsku út frá ýmsum sjónarhornum og gerum þannig ákveðnu sviði fastra orðasambanda skil.

 Í Árnagarði 303 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00. Nánari upplýsingar um málstofuna.

English below

Hugvísindaþing verður haldið 10. og 11. mars 2023.

Þingið verður haldið í húsakynnum Háskóla Íslands. Stefnt er að streymi frá að minnsta kosti sumum málstofum en þingið verður ekki tekið upp. Fyrirlestrar verða því ekki aðgengilegir að þingi loknu. 

Þingkall

Kallað er eftir tillögum að fullskipuðum málstofum á sviði hugvísinda. Hvatt er til þverfaglegra málstofa innan hugvísinda eða í samstarfi við aðrar fræðigreinar. Frestur til að skila inn tillögum er til 13. janúar 2023.

Neðst í þingkallinu er vísað á vefform til að skila inn tillögum.

Málstofur verða að jafnaði með þremur eða fjórum fyrirlestrum (30 mínútur hver með umræðum), en heimilt er að senda inn tillögur að styttri eða lengri málstofum. Fyrirlesarar geta þó ekki verið fleiri en sjö.

Hugvísindafólki hvaðanæva að er heimilt að senda inn tillögu að málstofu, þar á meðal nýrannsakendum og doktorsnemum á sviði hugvísinda sem eru sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttaka annarra nemenda þarf að vera í samráði við leiðbeinanda eða stjórnanda rannsóknarverkefnis sem ber að ráðfæra sig við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar.

Skipuleggjendur málstofa (málstofustjórar) þurfa að senda tillögur sínar með því að nota vefform hér neðst á síðunni.

Nánar um skipulag þingsins:

 • Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur sé 20 mínútur og tæpar 10 mínútur til umræðna.
 • Aðeins er leyfilegt að vera fyrsti höfundur að einum fyrirlestri. Nánari upplýsingar um heimild til að vera meðhöfundur veitir verkefnisstjóri Hugvísindastofnunar, mgu@hi.is.
 • Fyrirlestrar á þinginu eru að jafnaði á íslensku, en fyrirlesarar með annað móðurmál eru velkomnir.
 • Þó að stefnt sé að streymi að einhverju marki að minnsta kosti er ekki gert ráð fyrir rafrænni þátttöku fyrirlesara. Óskir um undanþágur frá því verða teknar til athugunar. Tæknilegar lausnir á rafrænni þátttöku yrðu í höndum málstofustjóra.
 • Lýsing á málstofum birtist á síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.
 • Málstofustjórar safna einnig saman útdráttum í samvinnu við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar og annað starfsfólk þingsins og miðla upplýsingum eftir þörfum til fyrirlesara.
 • Lokafrestur til að skila útdráttum er 10. febrúar. Æskileg lengd er 80-200 orð.

Að venju er einnig hægt að senda tillögur að stökum fyrirlestrum, en óvíst að hægt sé að raða þeim saman eftir efni. 

Málstofur verða metnar af starfsmönnum Hugvísindastofnunar sem leggja tillögu að dagskrá fyrir stjórn stofnunarinnar. Ef fleiri sækja um málstofur en pláss er fyrir verður litið til þess hvernig málstofurnar dreifast á fagsvið hugvísinda þar sem gætt verður að því að sem fjölbreyttust flóra hugvísinda komist að. Fyrirlestrar sem greina frá niðurstöðum rannsóknaverkefna sem ekki hafa fengið umfjöllun áður, hvort sem þau eru unnin af einyrkjum eða hópum, njóta alla jafna forgangs. Svör frá Hugvísindastofnun munu berast eigi síðar en í lok janúar.

Margrét Guðmundsdóttir veitir nánari upplýsingar um þingið, mgu@hi.is.

Smellið hér til að opna vefform fyrir tillögu að málstofu.

 

Call for sessions – Annual Humanities Conference, March 10-11, 2023

The conference will be held in the facilities of the University of Iceland.

Some of the sessions will be live-streamed, but the conference will not be recorded. Lectures will therefore not be accessible after the conference.

Call for sessions

Hugvísindaþing (The Annual Humanities Conference) welcomes proposals for fully organized sessions in the field of Humanities. We particularly encourage proposals for interdisciplinary sessions within the field of Humanities, or for sessions in cooperation with other fields. Deadline for session proposals is January 13, 2023.

Please find the online submission form below.

Typically, sessions consist of three to four papers (each lasting 30 minutes including 10 minutes of discussion); proposals for longer or shorter sessions, however, are welcome as well. The largest possible number of speakers is seven.

We warmly welcome proposals by junior researchers and doctoral students in the field of Humanities. Graduate students can take part only with the consent of their project supervisor. In this case, the supervisor must consult with the project manager of Hugvísindastofnun.

Session organizers (chairs) must submit their proposals by using our online submission form (below).

Organization and program

 • Every paper is supposed to last 20 minutes followed by 10 minutes of discussion.
 • Each participant can only be the first author of one paper. Further information on co-authoring is provided by the project manager of Hugvísindastofnun, mgu@hi.is.
 • Papers are usually in Icelandic, but presentations in other languages are welcome.
 • Speakers are not supposed to give their papers exclusively online, although few sessions may be streamed. Requests for exemptions may be considered; technical solutions would be in the hands of the session organizers.
 • All information on the sessions as well as all paper abstracts will be published on the conference website.
 • Session organizers are responsible for collecting abstracts in cooperation with the project manager of Hugvísindastofnun as well as sharing all relevant information with the speakers.
 • Deadline for submitting abstracts is February 10, 2023. Abstracts should be 80-200 words.

Single presentations are also accepted and will be allocated into sessions by organizers. These sessions are often without a special theme.

 

Proposed sessions will be carefully evaluated by the staff of Hugvísindastofnun, who also suggest a preliminary program to its directors.

Submission proposals presenting results of current research projects, that have not yet been discussed, will be given preference, no matter if they are individual or group projects. All proposals will be answered before the end of January.

For further information please contact Margrét Guðmundsdóttir, mgu@hi.is

Klick here to open the online submission form (the form is in Icelandic, please contact Margrét Guðmundsdóttir for assistance if needed)

 

Hugvísindaþing er haldið í húsakynnum Háskóla Íslands.

Þingið hefst að jafnaði með hátíðarfyrirlestri en síðan halda gestir í málstofur sem gjarna eru um 40 talsins og dreifast á tvo daga.

Málstofur eru oftast skipaðar þremur eða fjórum fyrirlesurum og heldur hver þeirra um 20 mínútna fyrirlestur auk þess sem tæpar 10 mínútur gefast til umræðna.

Lýsing á málstofum birtist á sérstakri síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.

Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Upplýsingar um Hugvísindaþing 2007 til 2016 má finna á vefsíðunni hugvis.hi.is á vefsafn.is en upplýsingar um þingin 2017 til 2021 á vefsafn.is: