Bókmenntagagnrýni: skiptir hún máli?

Í Árnagarði 311 föstudaginn 10. mars kl. 15:15-17:00.

Í málstofunni verður saga og staða bókmenntagagnrýni á Íslandi til umfjöllunar. Meðal annars verður spurt um hvaða áhrif breytt fjölmiðlaumhverfi og tilkoma netmiðla hafa haft á bókmenntagagnrýni og rýnt í sögu og þróun ritdóma, sem og ólíkar aðferðir og nálganir þeirra sem sinna þessu starfi. Grundvallarspurningin snýst e.t.v. um hvort gagnrýnin skipti máli og þá á hvaða hátt?

Fyrirlestrar

Fyrir aldarfjórðungi stóðu Samtök gagnrýnenda fyrir málþingi um gagnrýni. Einn málshefjanda var Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, sem fullyrti að líta þyrfti til annarra sólkerfa til að finna vitræna umræðu um list. Í fyrirlestrinum verður spáð í þessa mælskufræðilegu fullyrðingu – og aðrar slíkar sem ætíð koma upp þegar rætt er um bókmennta- og listgagnrýni. Um leið verður litið yfir sviðið í fjóra áratugi, yfir það tímabil sem fyrirlesari hefur fengist við bókmenntagagnrýni.

Forsendur og einkenni bókmennta- og listgagnrýni hafa haldist nokkuð stöðugar gegnum aldirnar þótt þær mótist ætíð af fagurfræðilegum áherslum á hverjum tíma. Í fyrirlestrinum verður fjallað um möguleg áhrif vistrýninnar á áherslur bókmennta- og listgagnrýni í samtíð og framtíð. Einnig verður spurt hvaða áhrif það hafi á fagurfræði og hugmyndir okkar um gildi listarinnar að vegna yfirvofandi loftslagsbreytinga, fjöldaútdauða tegunda og annarra vistfræðilegra áfalla virðist heimur okkar eins og við þekkjum hann þegar tekinn að líða undir lok.

Í fyrirlestrinum er markmiðið að varpa ljósi á stöðu bókmenntagagnrýni á Íslandi; skoðað verður hvernig „landslagið“ í bókmenntagagnrýni á Íslandi er - en miklar breytingar hafa orðið á bókmenntagagnrýni á Íslandi síðastliðinn áratug eða svo.

Aðaláhersla verður lögð á að skoða hvað hefur breyst í áðurnefndu „landslagi“ og hvers vegna. Þáttur Egils Helgasonar í ríkissjónvarpinu - Kiljan - verður skoðaður sérstaklega í þessu samhengi, enda hefur þátturinn mun meiri áhrif á hvað Íslendingar lesa en nokkur annar miðill eða aðrir þættir - til dæmis í útvarpi eða í hlaðvarpi.

Fjallað verður um - og útskýrt - hvers vegna Kiljan hreinlega gnæfir yfir öllu sem heitir bókmenntagagnrýni hér á landi; er þá ekki verið að fella dóm um hvað sé góð bókmenntagagnrýni - heldur skoðað hvers vegna þátturinn Kiljan nýtur svo mikilla vinsælda sem raun ber vitni.

Sölvi flytur erindi um tiltölulega nýtilkomna reynslu sína af bókmenntagagnrýni og veltir fyrir sér viðtökum, og viðtökum við viðtökum, margvíslegum birtingarmyndum bókmenntagagnrýni í samtímanum, mismunandi aðferðum og vinnubrögðum þar að baki og hvort einhver munur sé á rýni, gagnrýni, skoðun og dómi.