Hugvísindaþing

Texti

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar sem var fyrst haldin árið 1996. Þar er fram borið það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi.

Nánari upplýsingar

 

Hugvísindaþing verður haldið 11. og 12. mars 2022.

Mynd
Image
Erla Hulda Halldórsdóttir

Hugvísindaþing er fyrirhugað 11. og 12. mars 2022.

Stefnt er að hefðbundnu þingi en ef sóttvarnareglur koma í veg fyrir það verður málstofum hugsanlega dreift á fleiri daga. Þingið verður rafrænt ef þörf krefur.  

Þingkall

Kallað er eftir tillögum að fullskipuðum málstofum á sviði hugvísinda. Hvatt er til þverfaglegra málstofa innan hugvísinda eða í samstarfi við aðrar fræðigreinar. Frestur til að skila inn tillögum er til 14. janúar 2022.

Senda þarf eldri tillögur að nýju. Neðst í þingkallinu er vísað á vefform til að skila inn tillögum.

Málstofur verða að jafnaði með þremur eða fjórum fyrirlestrum (30 mínútur hver með umræðum), en heimilt er að senda inn tillögur að styttri eða lengri málstofum. Fyrirlesarar geta þó ekki verið fleiri en sjö.

Hugvísindafólki hvaðanæva að er heimilt að senda inn tillögu að málstofu, þar á meðal nýrannsakendum og doktorsnemum á sviði hugvísinda sem eru sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttaka annarra nemenda þarf að vera í samráði við leiðbeinanda eða stjórnanda rannsóknarverkefnis sem ber að ráðfæra sig við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar.

Skipuleggjendur málstofa (málstofustjórar) þurfa að senda tillögur sínar með því að nota vefform hér neðst á síðunni (væntanlegt).

Nánar um skipulag þingsins:

  • Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur sé 20 mínútur og tæpar 10 mínútur til umræðna.
  • Aðeins er leyfilegt að vera fyrsti höfundur að einum fyrirlestri. Nánari upplýsingar um heimild til að vera meðhöfundur veitir verkefnisstjóri Hugvísindastofnunar, mgu@hi.is.
  • Fyrirlestrar á þinginu eru að jafnaði á íslensku, en fyrirlesarar með annað móðurmál eru velkomnir.
  • Ekki er gert ráð fyrir rafrænni þátttöku fyrirlesara verði þingið hefðbundið en óskir um undanþágur frá því verða teknar til athugunar. Gætt verður að jafnræði. Tæknilegar lausnir yrðu í höndum málstofustjóra.
  • Lýsing á málstofum birtist á sérstakri síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.
  • Málstofustjórar safna einnig saman útdráttum í samvinnu við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar og annað starfsfólk þingsins, sem og myndum (einni fyrir hverja málstofu) til birtingar á síðu þingsins og miðla upplýsingum eftir þörfum til fyrirlesara.
  • Lokafrestur til að skila útdráttum er 11. febrúar. Æskileg lengd er 80-200 orð.

Málstofur verða metnar af starfsmönnum Hugvísindastofnunar sem leggja tillögu að dagskrá fyrir stjórn stofnunarinnar. Ef fleiri sækja um málstofur en pláss er fyrir verður litið til þess hvernig málstofurnar dreifast á fagsvið hugvísinda þar sem gætt verður að því að sem fjölbreyttust flóra hugvísinda komist að. Fyrirlestrar sem greina frá niðurstöðum rannsóknaverkefna sem ekki hafa fengið umfjöllun áður, hvort sem þau eru unnin af einyrkjum eða hópum, njóta alla jafna forgangs. Svör frá Hugvísindastofnun munu berast eigi síðar en í lok janúar.

Margrét Guðmundsdóttir veitir nánari upplýsingar um þingið, mgu@hi.is.

Smellið hér til að opna vefform fyrir tillögu að málstofu.

Hugvísindaþing er haldið í húsakynnum Háskóla Íslands.

Þingið hefst að jafnaði með hátíðarfyrirlestri en síðan halda gestir í málstofur sem gjarna eru um 40 talsins og dreifast á tvo daga.

Málstofur eru oftast skipaðar þremur eða fjórum fyrirlesurum og heldur hver þeirra um 20 mínútna fyrirlestur auk þess sem tæpar 10 mínútur gefast til umræðna.

Lýsing á málstofum birtist á sérstakri síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.

Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Nánari upplýsingar um fyrri Hugvísindaþing má finna í gegnum vefsafn.is. Þar eru upplýsingar um þingin 2007-2016 á vefsíðunni hugvis.hi.is en frá og með 2017 á hugvisindathing.hi.is.