Hugvísindaþing 2024

Texti

Hugvísindaþing 2024 verður haldið í Háskóla Íslands dagana 8. og 9. mars. Á Hugvísindaþingi er borið fram það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Meðal þess sem fjallað verður um í ár er femínísk siðfræði í Barbie, goð og hetjur, strumpa- og skordýramál, sögulegar rætur kynþáttahyggju, brennivínslandið Ísland, smásögur, sjálfstæðiskonur 20. aldar, áskoranir listar og tækni, kennsluþróun í hugvísindum, máltækni, söfn og fjarlestur.

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið í fyrirlestrasal Eddu föstudaginn 8. mars kl. 12. Í kjölfarið flytur Carolyne Larrington, boðsfyrirlesari þingsins, hátíðarfyrirlestur.

Málstofur fara fram í Árnagarði, Lögbergi, Odda og Veröld. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Nánari upplýsingar veitir Dagbjört Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri þingsins (dagu@hi.is). Óskir um táknmálstúlkun þurfa að berast á netfangið rannsve@hi.is fyrir 6. mars. 

Mynd
Image

Titill
Hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings 2024

Texti

Carolyne Larrington, prófessor emerita í evrópskum miðaldabókmenntum við Oxford-háskóla og emeritus rannsóknarfélagi við St. John's College í Oxford, heldur hátíðarfyrirlestur. Sérsvið hennar er norrænar og evrópskar miðaldabókmenntir, sem og nútímaaðlaganir á miðaldaefni.

Carolyne nefnir erindi sitt Old Norse Myth in Anglophone Popular Culture: Óðinn, Þórr, Loki and His Children.

Nánar um fyrirlesturinn.

Mynd
Image
Carolyne Larrington

Málstofur á Hugvísindaþingi 2024

Á málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir á orðmyndun, bæði frá samtímalegu og sögulegu sjónarhorni. Þessar rannsóknir eru í mótun og niðurstöður þeirra hafa ekki birst enn sem komið er. Fjallað verður um aðskeytislausa orðmyndun (e. conversion), um virk mynstur í nýjum samsetningum, um orðmyndun á Nýyrðavefnum og um samsettar, forskeyttar og forliðaðar sagnir í eldra máli.

Í Odda 202 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Nýlega kom Andkristur eftir Friedrich Nietzsche út í íslenskri þýðingu Pálínu S. Sigurðardóttur. Hvaða erindi á þetta meira en aldagamla rit við samtímann? Hvernig hefur þetta rit haft áhrif á hugmyndir um Jesú, Pál Postula og Kristni?

Í Árnagarði 304 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45. Nánar um málstofuna.

Á málstofu um áskoranir listar og tækni er kafað í hvernig tæknibreytingar samtímans hafa umbreytt sköpun og skilningi á myndlist. Fyrirlesarar frá Íslandi og Bandaríkjunum taka til greiningar farsælt og umdeilt samband listar og tækni og kanna þær áskoranir og möguleika sem verða til þegar þessi svið mætast. Málstofunni er ætlað að gera listamönnum, listfræðingum og listáhugamönnum kleift að tengjast og skiptast á þekkingu á nýjum rannsóknum þessu sviði.

Í Árnagarði 303 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Konum eflist sífellt ásmegin í flestum kimum menningar og lista. Kvikmyndagerð er þar engin undantekning – ekki heldur í Rómönsku-Ameríku. Konur láta nú til sín taka sem aldrei fyrr. Í málstofunni verður sjónum beint að því hvaða og hvernig ljósi þær bregða á umhverfi sitt – ekki hvað síst á líf annarra kvenna. Spurt verður hvort þær segi aðra eða öðruvísi sögu, hvort þær beiti annarri frásagnartæknitækni og hvort birtingarmyndir þeirra kvenna sem varpað er á skjáinn bregði upp nýrri mynd eða staðfesti þær fyrri og stuðli þannig að áframhaldandi klisjusmíð um konur sem fórnarlömb og án atgervis.

Í Árnagarði 303 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um fræðsluljóðið Kirkjuvit barna frá ýmsum sjónarhornum og því meðal annars velt upp hvort það sé eftir Hallgrím Pétursson eða Jón Magnússon.

Í Árnagarði 101 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45. Nánar um málstofuna.

Við lifum á tímum femínískra umbrota, endurskoðunar kynjaímynda og kröfugerða um bæði aukið jafnrétti og fyrirgefningar fyrir yfirsjónir. Í þeim efnum úir og grúir af siðferðilegum álitamálum, oft verður umræðan tilfinningaþrungin og við verðum ráðvillt og óviss um eigin stöðu. Einkennist nútímasamfélag af slaufunarmenningu? Hvenær er hægt að fyrirgefa og ber okkur einhvern tímann skylda til að fyrirgefa? Væri líf okkar ekki miklu betra ef við gætum verið eins og Barbie? Í þessari málstofu sigla þátttakendur í verkefninu „Flæðandi siðfræði: Femínísk heimspeki og MeToo“ um í öldurótinu og segja frá rannsóknum sínum.

Í Árnagarði 311 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Fjarkönnun, fjarrýni og fjarlestur eru þrjár mögulegar íslenskar þýðingar á enska hugtakinu 'distant reading' en það á við um rannsóknir þar sem stuðst er við tölfræðilegar upplýsingar við kortlagningu á bókmenntasögu. Í þessari málstofu nýta þátttakendur gagnagrunn Landskerfis bókasafna til að varpa ljósi á hlutdeild íslenskra blaðamanna í íslenskri bókaútgáfu, fyrirferð þýddra glæpasagna í skáldsagnaflórunni og uppruna þýddra barnabókmennta á ólíkum tímum.

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Nokkrir vísindamenn sem fylgdust með fyrirlestrarröðinni Eru söfn einhvers virði? munu ræða saman um hvað hafi áunnist með þeim fyrirlestrum sem fluttir voru í Þjóðminjasafninu á haustmánuðum 2023 og hvernig best sé að bregðast við þeirri stöðu sem safnaheimurinn virðist standa frammi fyrir nú um stundir. Samræðan í þessari málstofu hefst í kjölfar fyrirlestrar Sigurðar Gylfa Magnússonar sem verður nokkurs konar inngangur að umræðunni. Lögð verður áhersla á þátttöku málstofugesta.

Í Veröld 007 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Þessi málstofa fjallar um ferðasögur kvenna sem heimsóttu Ísland á nítjándu og tuttugustu öld. Þrátt fyrir nokkuð víðfeðmar rannsóknir á Íslandsferðum erlendra ferðalanga og fjölda fræðilegra umfjallana um þetta efni, þá hafa ferðir erlendra kvenna til Íslands, raddir og reynsluheimur þessara kvenna varðandi Ísland fengið undarlega litla athygli í slíkum umfjöllunum hingað til. Í málstofunni munu fyrirlesarar kynna nokkrar konur frá nítjándu og tuttugustu öld sem ferðuðust til Íslands og skrifuðu ferðasögur eða skráðu á einn eða annan máta þessar ferðir og reynslu sína af Íslandi. 

Í Odda 202 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45. Nánar um málstofuna.

Í  málstofunni verður athyglinni beint að því hvernig menning, staðhættir og saga endurspeglast í orðasamböndum í dönsku, spænsku og þýsku. Sjónarhornið er tvíþætt. Annars vegar er fjallað um algild orðasambönd sem koma fyrir í mörgum tungumálum og eiga sér sameiginlegan uppruna. Hins vegar verður sjónunum beint að föstum orðasamböndum sem koma einungis fyrir í einu tungumáli og tengjast sérstaklega sögu og menningu viðkomandi málsvæðis og sem kalla mætti sértæk orðasambönd.

Í Árnagarði 303 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um nokkur frönsk leikrit og íslenskar þýðingar þeirra. Erindin eru hluti af stærri rannsókn um áhrif franskra sviðslista á íslenskt leikhúslíf og ber yfirskriftina „Franska bylgjan í íslensku leikhúsi“ (Rannís-217857-051).

Í Árnagarði 310 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45. Nánar um málstofuna.

Í íslenskri söguritun má finna dæmi þess að einstök sagnfræðiverk hafi náð að greipast svo í söguvitund almennings og fræðafólks að þau hafi orðið að viðmiði um það efni sem þau fjalla um. Staða þeirra hafi orðið svo sterk að síðari tíma umfjallanir um efnið hafi ósjálfrátt eða meðvitað dregið dám af þeim. Af slíku getur leitt að sjónarhorn á fræðileg viðfangsefni þrengist svo að þau festist í kvíum þar sem ein nálgun verður allsráðandi og aðrar útilokaðar. Í þessari málstofu munu þátttakendur fjalla um ríkjandi nálganir á viðfangsefni sín, ræða hver þróunin hefur verið í fræðilegri umfjöllun um þau og benda á nálganir á þau sem vert væri að taka til frekari skoðunar.

Í Lögbergi 103 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður fjallað um frásagnaminni og frásagnamynstur af ýmsum toga sem birtast í íslenskum fornsögum, rímum og sagnadönsum. 

Í Árnagarði 303 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45. Nánar um málstofuna.

Málstofan er þverfagleg og sýnir ýmsar birtingarmyndir hug- og félagsvísindalegra rannsókna á umhverfismálum og tengdum viðfangsefnum. Hnattrænar loftslagsbreytingar eru þar í fyrirrúmi en einnig verður fjallað um ýmis staðbundnari viðfangsefni samtímans svo sem hvalveiðar og ferðamennsku. Fyrirlesarar starfa allir hjá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, þeir hafa aðsetur í ólíkum hlutum landsins og mörg erindanna tengjast sérstaklega þeim byggðarlögum þar sem einstök setur eru staðsett.

Í Árnagarði 301 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Í þessari þverfaglegu ráðstefnu nálgast fræðimenn á sviði heimspeki, bókmenntafræði og guðfræði holt og hæðir úr ýmsum áttum. 

Í Árnagarði 310 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45. Nánar um málstofuna.

Á málstofunni verður rannsóknarinnviðurinn CLARIN kynntur og sagt verður frá því hvernig hann nýtist í þágu rannsókna á sviði hug- og félagsvísinda og innan máltækni. Ísland fékk fulla aðild að CLARIN ERIC árið 2020 og Árnastofnun, leiðandi aðili í landshópi CLARIN á Íslandi, hefur rekið fullgilda CLARIN-þjónustumiðstöð síðan snemma árs 2023.

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður fjallað um áfengisneyslu á Íslandi frá 18. öld til 20. aldar, á hvern hátt hún birtist, viðbrögð við henni og orðræðu og ímyndir henni tengda. Hvaða augum var neysla áfengra drykkja litin, hver voru helstu þátttakendur í umræðunni og hvert leiddi hún? Í málstofunni verður einnig fjallað um viðbrögð stjónvalda og félagasamtaka við áfengisneyslu, af hverju þau einkenndust og hverjir voru helstu áhrifaþættir í því samhengi.

Í Árnagarði 201 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Erindin í þessari málstofu varpa ljósi á það hvaða þættir liggja að baki hvata til náms svo og brottfalls úr námi hjá nemendum í íslensku sem öðru máli á bæði BA-stigi og í diplómanáminu.

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-11:30. Nánar um málstofu.

Eitt af því áhugaverðasta í íslenskum samtímabókmenntum um þessar mundir er endurkoma smásögunnar. Á seinni hluta síðustu aldar virtist sem smásagnagerð væri að geispa golunni á Íslandi; það var nær ómögulegt fyrir nýja höfunda að fá smásagnasöfn útgefin og reyndar var bæði smásögunni og ljóðum spáð dauða. Hvoru tveggja reyndist fásinna. Á undanförnum árum hefur komið út fjöldi nýrra og spennandi smásagnasafna. Það sem meira er, innan smásögunnar má sjá merkilega nýsköpun og einkar nýstárleg efnistök, ekki síst í meðförum ungra höfunda. Í málstofunni verða flutt erindi um íslenska smásagnagerð í samtímanum og einnig litið aftur til miðbik tuttugustu aldar.

Í Árnagarði 311 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-16:15. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður sjónum beint að ríkulegum og fjölbreyttum hugmyndaheimi Jóns Ólafssonar (1850–1916) og hvernig hann miðlaði hugmyndum bæði í ræðu og riti. Rætt verður um Jón og frjálslyndisstefnuna sem hann fjallaði um sem skipulega hugmyndafræði og kenndi sig við einna fyrstur Íslendinga. Verður því meðal annars haldið fram að hann hafi gegnt lykilhlutverki í að móta hugmyndir um inntak frelsis á landshöfðingjatímabilinu. Einnig verður látið reyna á þá kenningu að smásaga Jóns „Hefndin“, sem kom út í samnefndu kveri árið 1867, sé fyrsta íslenska glæpasagan. Loks verður fjallað um vikuritið Reykjavík sem Jón ritstýrði á tímabilinu 1903–1907 í samhengi við byltingu á sviðum samskipta- og prenttækni. Velt verður vöngum yfir því hvort Reykjavík sé fjölmiðill en líka hvernig beri að túlka ritstýrðan prentgrip sem samanstendur af fjölbreyttu og ólíku efni varðandi framsetningu, inntak, form og tilgang.

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-11:30. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður rætt um kennsluþróun á sviði hugvísinda. Fjallað verður um alþjóðlegar kennslustofur og stuðning við kennara á Íslandi, nýjar leiðir í kennsluháttum sem tengjast breyttum tímum og nýrri tækni.

Í Árnagarði 304 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður rætt um nýlegar rannsóknir á íslensku táknmáli (ÍTM) og málsamfélagi þess. Rannsóknirnar spanna fjölbreytt svið og leiða í ljós nýjan sannleik, t.d. um uppruna ÍTM og þróun. Túlkun á milli ÍTM og íslensku er mikilvægur hlekkur í samskiptum tveggja menningarheima og verður hér fjallað um hver áhrif undirbúnings táknmálstúlkunar eru á gæði hennar. Þá verður rætt um hugræna úrvinnslu og inntak litaorða í ÍTM, um skráningu á setningafræðilegum fyrirbærum og orðaröð í íslensku táknmáli.

Málstofan verður túlkuð á íslenskt táknmál.

Í Árnagarði 311 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:00. Nánar um málstofu.

Í lok 18. aldar voru að boði konungs settar á fót svokallaðar sáttanefndir um allt Ísland, og raunar um stóran hluta konungsdæmis dansk-norska ríkisins. Nefndirnar voru hér um bil 150 talsins hér á landi. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hefur frá árinu 2019 unnið að gerð stafræns gagnagrunns um allar varðveittar sáttanefndabækur á Íslandi frá tímabilinu 1798 til 1936 og verður hann formlega opnaður sumarið 2024. Í þessari málstofu verður fjallað um ólíkar hliðar þessara heimilda og þau tækifæri til rannsókna sem gagnagrunnurinn mun bjóða upp á. 

Í Odda 206 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45. Nánar um málstofu.

Málstofan miðar að því að auka sýn og þekkingu á fjölbreytni náttúrunnar og menningunnar. Lögð verður áhersla á þverfaglega nálgun á grunni lista, heimspeki, og náttúruvísinda með áherslu á sögu og samhengi þeirrar þekkingar sem mótar sýn okkar tíma. Fólk beinir sjónum sínum í æ ríkara mæli til náttúrunnar, ekki síst vegna þeirrar miklu umhverfisvár sem blasir við. Efni þessara fyrirlestra fjallar um hvernig samtenging lista og heimspeki getur hjálpað okkur að skilja og meta hlutverk okkar í náttúrunni.

Í Árnagarði 304 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-17:15. Nánar um málstofuna.

Markmið þessarar málstofu er að bæta skilning okkar á kynþáttahyggju nútímans. Fræðimenn úr enskum bókmenntum, mannfræði og frönskum bókmenntum munu varpa nýju ljósi á kynþáttahyggju með því að kanna sögulegar rætur hennar; þverfræðileg samsetning málstofunnar mun greiða götuna fyrir viðsýnni greiningu á kynþáttahyggju.

Málstofu stýrir Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor, Rannsóknastofa í jafnréttisfræðum.

Í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður sagt frá nýjustu þróun á sviði íslensku sem annars máls en sérstök áhersla verður lögð á áhrif gervigreindar á kennslu, notkun Evrópurammans í kennslu og þróun nýrrar námsleiðar til að koma til móts við annarsmálshafa í háskólaumhverfinu.

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Á þessari málstofu verður fjallað um valin verkefni sem nýverið hafa staðið yfir á vegum rannsóknarstofunnar Máls og tækni en þar spila saman málvísindi og máltækni á ýmsa vegu. 

Í Árnagarði 201 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Íslendingar stæra sig af því að vera bókaþjóð og þegar litið er til fjölda bóka sem á síðustu 500 árum hefur komið út á íslensku verður ekki vikist hjá því að segja sem svo að þeir hafi fulla ástæðu til þess. Því miður er ekki til samfelld saga íslenskrar bókaútgáfu - innanlands og erlendis - en í þessari málstofu verður gripið niður á þremur tímabilum og tveimur stöðum, í Kaupmannahöfn um miðja 19. öld og að Hólum í Hjaltadal frá miðri 16. öld til loka 18. aldar. Undirliggjandi spurning verður hvort æskilegt sé og mögulegt að freista þess að skrifa víðfeðma en um leið nákvæma bók- og prentsögu landsins.

Í Árnagarði 304 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30. Nánar um málstofu.

Í málstofunni verða flutt erindi um ritlist. Huldar Breiðfjörð fjallar um hefðbundna þriggja þátta byggingu í skáldverkum (einkum kvikmyndum). Rúnar Helgi Vignisson fjallar um umritun sem skapandi ferli og Margrét Ann fjallar um ritlist sem vannýtt kennslutól.

Í Árnagarði 304 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. Nánar um málstofu.

RomIs: History and Ethnography of Roma in Iceland (RomIs) is a multi-disciplinary research project with two overarching goals: first, to provide the first historical account of Romani presence in Iceland, and second, to look ethnographically into the contemporary Roma community in Iceland.

This session brings together the team of the RomIs project to present their research and discuss the main achievements and research questions in the broader context of humanities and social sciences. The session is comprised of several individual presentations, which will provide an overview of the research outcomes and data emerging from our ongoing activities along with reflection on the project's objectives and methodologies.

Í Lögbergi 102 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-16:15. Nánar um málstofu.

Málstofan fjallar um sendibréf, varðveislu þeirra, merkingu og heimildagildi. Í málstofunni verða viðhorf safna til varðveislu bréfa tekin til umfjöllunar og rædd tvö dæmi um söfn einkabréfa, efni þeirra og tjáningarform og aðferðafræði við útgáfu þeirra.

Í Odda 202 laugardaginn 9. mars 13:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður rætt um sjálfstæðiskonur á Íslandi á 20. öld og hlutverk þeirra í sögunni. Sérstaklega verður sjónum beint að varðveislu frumheimilda og stöðu þekkingar á stjórnmálastarfi hægri kvenna á Íslandi. Þá verður bæði fjallað almennt um framlag sjálfstæðiskvenna til íslenskra stjórnmála en eins verður horft sérstaklega til tveggja áhrifamikilla stjórnmálakvenna úr Sjálfstæðisflokknum, þeirra Ragnhildar Helgadóttur og Guðrúnar Pétursdóttur.

Í Veröld 008 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður sjónum beint að íslenskum orðum frá ýmsum hliðum. Fjallað verður um tilurð nýrra orða, breytingar á beygingu einstakra orða, skilgreiningar, merkingartilbrigði og samsetningar.

Í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Erindi þessarar málstofu leitast við, hvert með sínum hætti, að varpa ljósi á stöðu kirkjusögunnar innan fræðasamfélags nútímans.

Í Árnagarði 310 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður sjónum beint að gervimálum í íslenskum barnabókaþýðingum og bullorðaprófum sem rannsóknaraðferð í málvísindum. Leitast verður við að svara spurningunum: Hvað geta gervimál sagt okkur um raunmál og hvað þurfa málhafar að vita um eigið tungumál til að geta tileinkað sér gervimál?

Í Árnagarði 201 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45. Nánar um málstofuna.

Í málstofunni verður sagt frá forkönnunum og fyrstu niðurstöðum úr rannsóknarverkefninu Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma sem styrkt er af Rannís 2023–2025. Gerð verður grein fyrir markmiðum og ramma rannsóknarinnar í heild sinni, yfirlitsniðurstöðum úr viðhorfshluta netkönnunar og vísbendingum um þróun valinna framburðarafbrigða.

Í Árnagarði 201 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-17:15. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður fjallað um samfélagslegt hlutverk háskólanna frá ýmsum sjónarhornum og það tengt við pólitíska umræðu og þróun á Íslandi. 

Í Veröld 007 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:00. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu verður einkum litið til bókmenntaþýðinga, sérstaklega á leikritum og sálmum. Matthías Jochumsson, William Shakespeare og þættir úr sögu leikritaþýðinga Íslands, auk sálmsins Heims um ból koma fyrir. 

Í Árnagarði 101 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. Nánar um málstofuna.

Nýjustu rannsóknir og útgáfur á sviði íslensks kveðskapar síðari alda eru í brennideplinum á þessari málstofu sem snýst um umvendingar og óvæntar uppgötvanir. 

Í Lögbergi 103 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:30. Nánar um málstofuna.

Sýn okkar á söguna og hvernig henni er lýst í ræðu og riti, þ.m.t. í kennslu, námsefni og almennum uppsláttarritum, byggist á rannsóknum en óhjákvæmilega líka á hefð. Á undanförnum árum og áratugum hefur farið fram endurskoðun á viðteknum sannindum í nútímanum sem eru sum hver upprunnin í pólitískri söguskoðun 19. aldarinnar. Sú gagnrýni á rótgróna söguskoðun er oftar en ekki til höfuðs íslenskri sérstöðuhyggju, jafnvel þar sem meintri sérstöðu hefur verið lýst gegn betri vitund. Á málstofunni verða þessi mál krufin frá ólíkum sjónarhornum, með dæmum úr sagnfræði og málfræði — með kennslufræðilegu ívafi.

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:00. Nánar um málstofuna.

„Þetta sokkna land“ er vísun í ljóðabók Hauks Ingvarssonar Vistaverur og vekur til umhugsunar um samband bókmennta, lands og loftslagsbreytinga. Í málstofunni verður varpað ljósi á birtingarmyndir náttúrunnar í bókmenntum og samtímalist í þessum nátengdu löndum og hvernig ólík upplifun af náttúrunni og áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og í Danmörku hefur sett bæði mark sitt á íslenskar og danskar bókmenntir og listir.

Eftir að allir fyrirlesarar hafa lokið máli sínu verða 30 mínútna pallborðsumræður um samband manns og náttúru og birtingarmyndir þess í íslenskum og dönskum samtímabókmenntum og listum.

Málstofan fer fram á íslensku og dönsku.  

Í Odda 106 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-16:15. Nánar um málstofuna.

Ævintýri hafa borist til og frá Íslandi eftir ýmsum leiðum. Í þessari málstofu verður fjallað um þýðingar á þessum vinsælu bókmenntum og spurningar sem vakna við útgáfu þeirra. 

Í Árnagarði 310 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. Nánar um málstofuna.

Í þessari málstofu er stakur fyrirlestur um miðaldabókmenntir. 

Í Odda 105 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-15:30. Nánar um málstofuna.

English below

Hugvísindaþing verður haldið 8. og 9. mars 2024.

Þingið verður haldið í húsakynnum Háskóla Íslands. Stefnt er að streymi frá að minnsta kosti sumum málstofum en þingið verður ekki tekið upp. Fyrirlestrar verða því ekki aðgengilegir að þingi loknu. 

Þingkall

Kallað er eftir tillögum að fullskipuðum málstofum á sviði hugvísinda. Hvatt er til þverfaglegra málstofa innan hugvísinda eða í samstarfi við aðrar fræðigreinar. Frestur til að skila inn tillögum er til 12. janúar 2024.

Neðst í þingkallinu er vísað á vefform til að skila inn tillögum.

Málstofur verða að jafnaði með þremur eða fjórum fyrirlestrum (30 mínútur hver með umræðum), en heimilt er að senda inn tillögur að styttri eða lengri málstofum. Fyrirlesarar geta þó ekki verið fleiri en sjö.

Hugvísindafólki hvaðanæva að er heimilt að senda inn tillögu að málstofu, þar á meðal nýrannsakendum og doktorsnemum á sviði hugvísinda sem eru sérstaklega hvattir til þátttöku. Þátttaka annarra nemenda þarf að vera í samráði við leiðbeinanda eða stjórnanda rannsóknarverkefnis sem ber að ráðfæra sig við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar.

Skipuleggjendur málstofa þurfa að senda tillögur sínar með því að nota vefform hér neðst á síðunni.

Nánar um skipulag þingsins:

 • Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur sé 20 mínútur og tæpar 10 mínútur til umræðna.
 • Aðeins er leyfilegt að vera fyrsti höfundur að einum fyrirlestri. Nánari upplýsingar um heimild til að vera meðhöfundur veitir verkefnisstjóri þingsins, Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is.
 • Fyrirlestrar á þinginu eru að jafnaði á íslensku, en fyrirlesarar með annað móðurmál eru velkomnir.
 • Ekki er gert ráð fyrir rafrænni þátttöku fyrirlesara. Óskir um undanþágur frá því verða teknar til athugunar. Tæknilegar lausnir á rafrænni þátttöku yrðu í höndum skipuleggjenda málstofanna.
 • Lýsing á málstofum birtist á síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.
 • Málstofum verður skipað niður með það að leiðarljósi að sem fæstir óheppilegir árekstrar verði.
 • Skipuleggjendur málstofa safna einnig saman útdráttum í samvinnu við verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar og annað starfsfólk þingsins og miðla upplýsingum eftir þörfum til fyrirlesara.
 • Lokafrestur til að skila útdráttum er 9. febrúar. Æskileg lengd er 80-200 orð.

Að venju er einnig hægt að senda tillögur að stökum fyrirlestrum, en óvíst að hægt sé að raða þeim saman eftir efni. 

Málstofur verða metnar af starfsmönnum Hugvísindastofnunar sem leggja tillögu að dagskrá fyrir stjórn stofnunarinnar. Ef fleiri sækja um málstofur en pláss er fyrir verður litið til þess hvernig málstofurnar dreifast á fagsvið hugvísinda þar sem gætt verður að því að sem fjölbreyttust flóra hugvísinda komist að. Fyrirlestrar sem greina frá niðurstöðum rannsóknaverkefna sem ekki hafa fengið umfjöllun áður, hvort sem þau eru unnin af einyrkjum eða hópum, njóta alla jafna forgangs. Svör frá Hugvísindastofnun munu berast eigi síðar en í lok janúar.

Dagbjört Guðmundsdóttir veitir nánari upplýsingar um þingið, dagu@hi.is.

Smellið hér til að opna vefform fyrir tillögu að málstofu.

 

Call for sessions – Annual Humanities Conference, March 8-9, 2024

The conference will be held in the facilities of the University of Iceland.

Some of the sessions will be live-streamed, but the conference will not be recorded. Lectures will therefore not be accessible after the conference.

Call for sessions

Hugvísindaþing (The Annual Humanities Conference) welcomes proposals for fully organized sessions in the field of Humanities. We particularly encourage proposals for interdisciplinary sessions within the field of Humanities, or for sessions in cooperation with other fields. Deadline for session proposals is January 12, 2024.

Please find the online submission form below.

Typically, sessions consist of three to four papers (each lasting 30 minutes including 10 minutes of discussion); proposals for longer or shorter sessions, however, are welcome as well. The largest possible number of speakers is seven.

We warmly welcome proposals by junior researchers and doctoral students in the field of Humanities. Graduate students can take part only with the consent of their project supervisor. In this case, the supervisor must consult with the project manager, Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is.

Session organizers must submit their proposals by using our online submission form (below).

Organization and program

 • Every paper is supposed to last 20 minutes followed by 10 minutes of discussion.
 • Each participant can only be the first author of one paper. Further information on co-authoring is provided by the project manager of Hugvísindastofnun, mgu@hi.is.
 • Papers are usually in Icelandic, but presentations in other languages are welcome.
 • Speakers are not supposed to give their papers exclusively online, although few sessions may be streamed. Requests for exemptions may be considered; technical solutions would be in the hands of the session organizers.
 • All information on the sessions as well as all paper abstracts will be published on the conference website.
 • Session organizers are responsible for collecting abstracts in cooperation with the project manager of Hugvísindastofnun as well as sharing all relevant information with the speakers.
 • Deadline for submitting abstracts is February 9, 2024. Abstracts should be 80-200 words.

Single presentations are also accepted and will be allocated into sessions by organizers. These sessions are often without a special theme.

 

Proposed sessions will be carefully evaluated by the staff of Hugvísindastofnun, who also suggest a preliminary program to its directors.

Submission proposals presenting results of current research projects, that have not yet been discussed, will be given preference, no matter if they are individual or group projects. All proposals will be answered before the end of January.

For further information please contact Dagbjört Guðmundsdóttir, dagu@hi.is

Click here to open the online submission form (the form is in Icelandic, please contact Dagbjört Guðmundsdóttir for assistance if needed)

 

Hugvísindaþing er haldið í húsakynnum Háskóla Íslands.

Þingið hefst að jafnaði með hátíðarfyrirlestri en síðan halda gestir í málstofur sem gjarna eru um 40 talsins og dreifast á tvo daga.

Málstofur eru oftast skipaðar þremur eða fjórum fyrirlesurum og heldur hver þeirra um 20 mínútna fyrirlestur auk þess sem tæpar 10 mínútur gefast til umræðna.

Lýsing á málstofum birtist á sérstakri síðu þingsins, sem og útdrættir einstakra fyrirlestra.

Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Verið velkomin á Hugvísindaþing!

Upplýsingar um Hugvísindaþing 2007 til 2016 má finna á vefsíðunni hugvis.hi.is á vefsafn.is en upplýsingar um þingin 2017 til 2021 á vefsafn.is: