Þjónusta við rannsakendur og rannsóknastofur

Image

Á vegum Hugvísindastofnunar er veitt margháttuð þjónusta sem snýr að rannsóknum og rannsakendum innan Hugvísindasviðs. Hún er því rannsóknaskrifstofa þar sem saman starfa verkefnisstjóri Hugvísindastofnunar og rannsóknastjóri Hugvísindasviðs.

Stærstu einstöku verkefnin eru árlegt Hugvísindaþing og útgáfa Ritsins, sem hvort tveggja stuðlar að miðlun niðurstaðna úr rannsóknum á sviði hugvísinda. Stofnunin aðstoðar einnig við mótun verkefna, umsóknaskrif, áætlanir, umsýslu og aðstöðu verkefna. Þá er hún stjórnum rannsóknastofa sem starfa innan hennar vébanda til ráðgjafar og aðstoðar. Skrifstofan annast einnig stuðning sem Hugvísindasvið veitir doktorsnemum hvað varðar aðstöðu og ferðir tengdar verkefnum þeirra.

Hugvísindastofnun veitir, í samvinnu við rannsóknastjóra Hugvísindasviðs, rannsakendum á sviðinu aðstoð við að skipuleggja rannsóknarverkefni og sækja um styrki til þeirra í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. 

Þegar styrkur er í höfn veitir stofnunin aðstoð við umsýslu verkefnisins, með því að taka saman  upplýsingar um fjárhagsstöðu eftir þörfum og í tengslum við skýrslugerð.

Þá veitir stofnunin ráðgjöf í tengslum við fundi, ráðstefnur og útgáfu.

Árið 2009 var Rannsóknasjóður Hugvísindastofnunar settur á laggirnar. Markmið hans var frá upphafi að styðja við rannsóknastarf innan Hugvísindasviðs og jafnframt að veita stofnunum og stofum innan sviðsins hlutdeild í fjárveitingu Hugvísindastofnunar á grundvelli virkni þeirra og einstakra verkefna. Þessu hlutverki hefur sjóðurinn sinnt með því að veita ýmsar tegundir af styrkjum en einbeitir sér nú að ráðstefnustyrkjum. Þannig styður hann við ráðstefnuhald aðildarstofa (grunnstofa og þverfaglegra rannsóknastofa), rannsóknastofa innan þeirra, rannsóknarteyma, deilda og námsbrauta. Í ljósi þess var nafni sjóðsins breytt í Ráðstefnusjóður Hugvísindastofnunar árið 2021.

Nánar um Ráðstefnusjóðinn.

Hugvísindastofnun veitir doktorsnemum ferðastyrki og styrki vegna hárra ráðstefnugjalda. Nánari upplýsingar er að finna á Uglu, innri vef Háskóla Íslands.

Innan vébanda Hugvísindastofnunar er rannsóknaraðstaða sem stofnunin úthlutar einkum:

Um er að ræða nokkur vinnurými, ætluð mismörgum, sem rannsakendur deila. Þeir teljast styrkþegar Hugvísindastofnunar.