
Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.
Saga kennslubóka á Íslandi nær aftur til upphafs ritaldar. Meðal þess fyrsta sem ritað var á íslensku eru textar sem líta má á sem kennslubækur, meðal annars ritgerðir um málfræði og stafsetningu. Frá því skipulagðri barnakennslu var komið á í upphafi 20. aldar hafa kennslubækur í íslensku, lestrarbækur og sýnisbækur ásamt skólaljóðum, verið meðal mest lesnu bókmenntatexta á íslensku. Saga þeirra hefur þó ekki mikið verið rannsökuð. Á málstofunni verða kynntar yfirstandandi rannsóknir á sögu kennslubóka í íslensku og á notkun kennslubóka í samtímanum. Þátttakendur í málstofunni eru íslenskukennarar við Menntavísindasvið sem starfa meðal annars að rannsóknum á íslenskri kennslubókmenntasögu.