Brot úr bókmenntasögu kennslubóka í íslensku
Í Árnagarði 101 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.
Saga kennslubóka á Íslandi nær aftur til upphafs ritaldar. Meðal þess fyrsta sem ritað var á íslensku eru textar sem líta má á sem kennslubækur, meðal annars ritgerðir um málfræði og stafsetningu. Frá því skipulagðri barnakennslu var komið á í upphafi 20. aldar hafa kennslubækur í íslensku, lestrarbækur og sýnisbækur ásamt skólaljóðum, verið meðal mest lesnu bókmenntatexta á íslensku. Saga þeirra hefur þó ekki mikið verið rannsökuð. Á málstofunni verða kynntar yfirstandandi rannsóknir á sögu kennslubóka í íslensku og á notkun kennslubóka í samtímanum. Þátttakendur í málstofunni eru íslenskukennarar við Menntavísindasvið sem starfa meðal annars að rannsóknum á íslenskri kennslubókmenntasögu.
Fyrirlestrar
Flestum þykir sjálfsagt að Íslendingasögur séu kenndar í skólum. Þær eru jú mikilvægur hluti íslensks menningararfs og því nauðsynlegt að kunna á þeim skil. En kafa þarf dýpra ofan í eðli íslenskra miðaldabókmennta í allri umræðu um kennslu þeirra. Staðreyndin er sú að Íslendingasögur eru margslungin bókmenntagrein með alþjóðlega skírskotun og tengsl við evrópska lærdómshefð. Sögurnar miðla þar af leiðandi margvíslegu efni, þar á meðal gróteskum kynþáttabundnum lýsingum á þeldökku fólki, en sjónum hefur lítt verið beint að þeim þætti bókmenntanna í aðgengilegu námsefni og á sama tíma verða skólastofurnar sífellt fjölþjóðlegri. Í þessum fyrirlestri verður vöngum velt yfir því hvort og þá hvernig æskilegt sé að námsefni framtíðar takist á við slíka þætti bókmenntanna með gagngerum hætti.
Hvernig við verjum tímanum, t.d. hvort við lesum málfræðibækur okkur til gagns og gamans, er ekki eingöngu spurning um hvað við gerum í frítíma okkar (eða í vinnunni) heldur líka hvernig tungumálið endurspeglar sýn okkar á veruleikann: við verjum tímanum eða eyðum honum og ef við gerum það illa hlýst ekki endilega beinlínis af því (gjald)þrot en við gerumst a.m.k. sek um tímaeyðslu. Þessi málnotkun gengur upp vegna þess að að baki henni búa myndhvörf: tíminn er peningar. Á hliðstæðan hátt afhjúpar það hvernig við tölum um tungumálið að málið getur verið t.d. lifandi mannvera, dýr, planta eða eitthvert jarðfræðilegt fyrirbrigði. Í erindinu verður sjónum beint að því myndmáli sem birtist í íslenskum málfræðibókum og er verk í vinnslu innan rannsóknar á íslenskri kennslubókmenntasögu. Áhersla er lögð á að greina hvernig fjallað er um málið og meðferð þess, ekki síst um málbreytingar, tilbrigði og fjölbreytileika.
Orðið „ljóð“ kemur hvergi fyrir í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) en það breytir því ekki að ljóð eru lesin, tekin til umræðu og skrifað um þau í nær hverjum íslenskuáfanga á framhaldsskólastigi, nema ef til vill þar sem málfræði er allsráðandi. Ljóð í framhaldsskóla eru til umræðu í þessum fyrirlestri en sjónum er einkum beint að ljóðum í kennslubókum og kennsluefni og byggir fyrirlesturinn bæði á úttekt á kennslubókum og viðtölum við starfandi framhaldsskólakennara. Rætt er um þau ljóð sem algengt er að nemendur lesi og læsie um, til að mynda Eikarlundinn og Passíusálma Hallgríms Péturssonar, en líka um ljóð sem kennarar kjósa að bæta við kennslubækurnar en þar reynist Ísbjarnarblús og fleiri textar eftir Bubba Morthens vinsælir auk þess sem rapparar samtímans leynast þarna inn á milli.
Þegar Guðmundur Finnbogason kannaði það lesefni sem notað var við lestrarkennslu barna í úttekt sinni á barnafræðslu veturinn 1903−4 komst hann að þeirri niðurstöðu að Nýja testamentið væri algengasta námsbók byrjenda í lestri en fann einnig dæmi um það að börn lærðu að lesa á bækur sem fjölluðu um „sullaveikina, berklaveikina, um vínanda og tóbak o.s.frv.“ Þegar Fræðslulögin voru sett árið 1907 var Guðmundi ásamt tveimur öðrum falið að taka saman heppilegar lestrarbækur fyrir börn; afraksturinn af því starfi varð Lesbók handa börnum og unglingum sem kom út í þremur bindum á árunum 1907−1909. Bækurnar voru gefnar út, „að tilhlutun landsstjórnarinnar.“ Þetta voru fyrstu opinberu íslensku námsbækurnar.
Í fyrirlestrinum verður rýnt í útgáfu þessara bóka og innihald þeirra og þær bornar saman við síðari tíma lestrarbækur fyrir sama aldurshóp. Einkum verður hugað að því hvaða hugmyndir um börn, bókmenntir og barnauppeldi birtast í lestrarbókunum og verða þessar hugmyndir settar í samhengi við íslenska bókmenntasögu og skólasögu.