Föst orðasambönd - spegill sögu, menningar og staðhátta

Image

Föst orðasambönd - spegill sögu, menningar og staðhátta

Í Árnagarði 303 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.

Mörg föst orðasambönd eru til í fjölda tungumála og eru í því samhengi sögð algild. Oft hafa þau borist gegnum þýðingar úr einu máli í annað, en í öðrum tilvikum má rekja uppruna þeirra til sömu heimilda. Til að mynda hefur Biblían, sameiginlegur menningararfur og lykilverk heimsbókmenntanna verið uppspretta margra fastra orðasambanda, sem fyrirfinnast í fjölmörgum tungumálum. Ólíkt algildum orðasamböndum eiga sértæk orðasambönd sér ekki slíkar hliðstæður í öðrum tungumálum.

Í  málstofunni verður athyglinni beint að því hvernig menning, staðhættir og saga endurspeglast í orðasamböndum í dönsku, spænsku og þýsku. Sjónarhornið er tvíþætt. Annars vegar er fjallað um algild orðasambönd sem koma fyrir í mörgum tungumálum og eiga sér sameiginlegan uppruna. Hins vegar verður sjónunum beint að föstum orðasamböndum sem koma einungis fyrir í einu tungumáli og tengjast sérstaklega sögu og menningu viðkomandi málsvæðis og sem kalla mætti sértæk orðasambönd.

Fyrirlestrar

Þegar í hlut eiga skyld tungumál eins og danska og íslenska eru mörg orðasambönd eins eða sláandi lík í málunum tveimur. Dæmi um slíkt eru orðtakapörin købe katten i sækken/kaupa köttinn í sekknum og have mange jern i ilden/hafa mörg járn í eldinum. Stundum geta  orðsamböndin verið lík, en þó frábrugðin að meira eða minna leyti, t.d. hvað varðar myndmál sbr. orðtakapörin være på trapperne/vera á næsta leyti og ikke at have salt til et æg/eiga ekki/naumast fyrir salti(nu) í grautinn.

Í öðrum tilvikum eiga orðasambönd í öðru málinu sér ekki hliðstæðu í hinu. Dæmi um slíkt eru dönsku orðtökin komme ind med fir(e)toget, være på vulkaner og toget er kørt og íslensku orðtökin koma af fjöllum, fara út um þúfur og brjóta e-n á bak aftur.   

Í erindinu verður fjallað um samanburðarrannsókn á föstum orðasamböndum í dönsku og íslensku, einkum orðtökum. Tekin verða dæmi um orðtök sem eiga sér hliðstæðu í báðum málunum og rætt, hvernig þau eru til marks um sameiginlega sögu og arfleifð. Jafnframt verða tekin dæmi um sértæk orðasambönd, sem einungis eru til í öðru málinu, og rætt hvernig þau tengjast ólíkum aðstæðum og meningu í Danmörku og á Íslandi.

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að fjalla um nokkur orðasambönd í íslensku sem eiga rætur að rekja suður til Spánar. Orðasamböndin sem um ræðir, berjast við vindmyllur, berjast við ímyndaða andstæðinga‘, í myrkri eru allir kettir gráir/svartir‚ allt lítur eins út í myrkrinu‘ og hafa blátt blóð í æðum, vera aðalsmaður eða konungborinn‘ (ÍNO), fyrirfinnast í tungumálum víða um heim og teljast þar með vera algild (e. universal). Hér er ætlunin að grafast fyrir um tilurð orðasambandanna sem urðu fyrir valinu, í hvaða heimildum eða textum þau koma fyrst fyrir annars vegar í upprunamálinu (spænsku) og hins vegar í viðtökumálinu (íslensku). Þá verður þess freistað að rekja ferðalag orðasambandanna að sunnan og norður, þ.e. frá upprunamálinu til viðtökumálsins.

ÍNO = Íslensk nútímamálsorðabók. Árnastofnun. https://islenskordabok.arnastofnun.is/

Hér verður litið til fastra orðasambanda sem bera ákveðinni menningu, atvinnuháttum, veðráttu, sögu og staðháttum þýska málsvæðisins vitni. Upprunans  getur verið að leita í matarmenningu, íþróttum eða í öðrum tungumálum, mállýskum eða ákveðnum málsniðum tungumálsins. Gestir Hugvísindaþings munu kynnast föstum orðasamböndum sem m.a. tengjast göngunni til Canossa frá árinu 1077, riddaramennsku miðalda, bjórgerð og aðferðum þýsku öldurhúsanna til þess að fylgjast með skuldastöðu gesta sinna. Önnur eiga rætur sínar að rekja til jiddísku. Loks verða gefin dæmi um orðasambönd sem eru úr frönsku og berlínsku.