
Í Árnagarði 303 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.
Mörg föst orðasambönd eru til í fjölda tungumála og eru í því samhengi sögð algild. Oft hafa þau borist gegnum þýðingar úr einu máli í annað, en í öðrum tilvikum má rekja uppruna þeirra til sömu heimilda. Til að mynda hefur Biblían, sameiginlegur menningararfur og lykilverk heimsbókmenntanna verið uppspretta margra fastra orðasambanda, sem fyrirfinnast í fjölmörgum tungumálum. Ólíkt algildum orðasamböndum eiga sértæk orðasambönd sér ekki slíkar hliðstæður í öðrum tungumálum.
Í málstofunni verður athyglinni beint að því hvernig menning, staðhættir og saga endurspeglast í orðasamböndum í dönsku, spænsku og þýsku. Sjónarhornið er tvíþætt. Annars vegar er fjallað um algild orðasambönd sem koma fyrir í mörgum tungumálum og eiga sér sameiginlegan uppruna. Hins vegar verður sjónunum beint að föstum orðasamböndum sem koma einungis fyrir í einu tungumáli og tengjast sérstaklega sögu og menningu viðkomandi málsvæðis og sem kalla mætti sértæk orðasambönd.