Gamalt og (endur)nýtt
Í Odda 106 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00.
Málbreytingar eru margs konar og sama gildir um nýjungarnar sem þær skapa. Í málstofunni verður litið á nokkrar nýjungar sem sprottið hafa upp í íslenskri málsögu eða forsögu hennar, allt frá elsta tíma til nútímans. Í fyrsta fyrirlestrinum verður málið á elsta norska og elsta íslenska handritsbrotinu borið saman. Í þeim næsta verður rætt um tvö áþekk mynstur sem notuð eru í niðrandi tali, s.s. helvítið þitt og helvítið á honum; það fyrra hefur tekið ýmsum breytingum í aldanna rás og það síðara er að líkindum ungt. Þriðji fyrirlesturinn fjallar um ung nafnorð til orðin við áhrifsbreytinguna blöndun, t.d. þunnudagur, og sá fjórði um orðræðuögnina humm í nútímamáli.
Fyrirlestrar
Elstu leifar af norsku handriti eru þrjú blöð sem varðveitt eru í AM 655 4to IX. Þau geyma brot úr Placidus sögu, Blasius sögu og Mattheus sögu. Talið er að handritið hafi verið skrifað á seinni hluta 12. aldar eða þegar um 1150. Frá svipuðum tíma er íslenska handritsbrotið AM 237 a fol. en það eru tvö blöð úr gamalli hómilíubók sem annars er glötuð. Blöðin geyma sitt hómilíubrotið hvort. Báðar hómilíurnar eru reyndar varðveittar í Norsku hómilíubókinni (AM 619 4to frá byrjun 13. aldar). Flestir fræðimenn eru sammála um að blöðin séu elsta íslenska handritið sem varðveist hefur og að þau séu rituð um eða skömmu eftir 1150. Á 12. öld var enn lítill munur á norsku og íslensku. Þó hafði íslenska varðveitt nokkur einkenni sem norska hafði glatað, t.d. höfðu orð eins og hlutr, hnefi og hringr breyst í lutr, nefi og ringr í norsku, þ.e. h hafði fallið brott í framstöðu á undan l, n og r; þá var u-hljóðvarp ekki eins virkt í norsku og íslensku. Í fyrirlestrinum verður málið á handritsbrotunum tveim borið saman í því augnamiði að öðlast betri vitneskju um hvað norsku og íslensku var enn sameiginlegt á 12. öld og hvað það var sem greindi mállýskurnar að.
Eignarfornöfn (eða eignarfallsmyndir persónufornafna) standa iðulega með nafnorðum sem vísa til eignar eða einhvers sem tilheyrir þeim sem um er rætt: húfan mín, hatturinn þinn. Öðru máli gegnir um þá notkun eignarfornafnsins þinn sem algeng er í návígi við skammaryrði: helvítið þitt, þrjóturinn þinn. Þarna er nafnorðið ekki neins konar eign í hefðbundnum skilningi heldur eigandinn sjálfur. Sambönd á borð við þessi eru til í öðrum norrænum málum og þau voru til í fornu máli. Notkunin í íslensku er þó svolítið frábrugðin þeirri sem tíðkast í grannmálunum; á fornmáli og nútímamáli er einnig nokkur munur. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessum mun og sagt frá hugmyndum um uppruna þessa mynsturs, X þinn. Þá verður einnig litið á svipað mynstur sem einkum er notað í þriðju persónu, X á honum/henni (t.d. helvítið á honum, skömmin á henni). Sambærileg mynstur þekkjast ekki í skyldmálunum og þetta virðist tiltölulega ungt í íslensku. Virkni X á honum/henni virðist jafnframt miklu minni en mynstursins X þinn.
„Það er allt að gerast á Dalvík,“ stóð í Fréttablaðinu 3. febrúar sl., því að „búið er að gera hluta [bæjarins] að sviðsmynd smábæjarins Ennis í Alaska en hermt er að tökuliðið tali nú um að bærinn sé í Dalaska en ekki Alaska.“
Hið nýmyndaða örnefni Dalaska er dæmi um tegund orðmyndunar sem algeng er um þessar mundir og felst í því að tveimur orðum er blandað saman. Í þessu tilviki hafa Dalvík og Alaska myndað nafnið Dalaska.
Þótt orð sem mynduð eru á þennan hátt verði oft til í gamansömum leik að orðum er orðmyndunin felld undir gamalkunnan flokk áhrifsbreytinga sem kallast blöndun. Hér verður fjallað um ólík blöndunarfyrirbæri og ýmis dæmi um þess konar málbreytingar verða reifuð. Athyglin beinist þó einkum að nýyrðum á borð við dagaheitin svörtudagur, þunnudagur og smánudagur.
„ég finn raddir formæðra minna humma í beinmergnum - humma í kyrrþey með sjálfum sér“ segir í upphafslínum annars bálks í nýútkominni ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur sem ber hinn hæverska en jafnframt óræða titil humm. Í ljóðabálkinum notar Linda orðið humm síendurtekið á áhrifaríkan hátt til að varpa ljósi á hlutskipti kynslóða kvenna og bjargráðum þeirra til að lifa af í feðraveldinu.
humm heyrir undir hóp smáorða og hljóðstrengja í töluðu máli sem hafa ekki merkingu sem vísar út fyrir samtalið heldur er tilgangur þeirra að liðka fyrir framvindu samtalsins eða gefa til kynna afstöðu til þess sem sagt er. Í erindinu verður sjónum beint að notkun humm í samtölum með samanburði við aðrar agnir af svipuðum toga.