
Í Odda 106 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00.
Málbreytingar eru margs konar og sama gildir um nýjungarnar sem þær skapa. Í málstofunni verður litið á nokkrar nýjungar sem sprottið hafa upp í íslenskri málsögu eða forsögu hennar, allt frá elsta tíma til nútímans. Í fyrsta fyrirlestrinum verður málið á elsta norska og elsta íslenska handritsbrotinu borið saman. Í þeim næsta verður rætt um tvö áþekk mynstur sem notuð eru í niðrandi tali, s.s. helvítið þitt og helvítið á honum; það fyrra hefur tekið ýmsum breytingum í aldanna rás og það síðara er að líkindum ungt. Þriðji fyrirlesturinn fjallar um ung nafnorð til orðin við áhrifsbreytinguna blöndun, t.d. þunnudagur, og sá fjórði um orðræðuögnina humm í nútímamáli.