Gegn einhliða túlkun: Um áhrif ólíkra nálgana á stjórnmálasögu

Image

Gegn einhliða túlkun: Um áhrif ólíkra nálgana á stjórnmálasögu

Í Lögbergi 103 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00. 

Í íslenskri söguritun má finna dæmi þess að einstök sagnfræðiverk hafi náð að greipast svo í söguvitund almennings og fræðafólks að þau hafi orðið að viðmiði um það efni sem þau fjalla um. Staða þeirra hafi orðið svo sterk að síðari tíma umfjallanir um efnið hafi ósjálfrátt eða meðvitað dregið dám af þeim. Af slíku getur leitt að sjónarhorn á fræðileg viðfangsefni þrengist svo að þau festist í kvíum þar sem ein nálgun verður allsráðandi og aðrar útilokaðar. Lítill sýnileiki kvenna og þeirra framlags til samfélagsins í ritum um Íslandssögu allt fram að síðustu áratugum 20. aldar er dæmi þar um. Eins má nefna hvernig þjóðernissinnuð nálgun, byggð á persónusniði, var ráðandi í skrifum um íslenska stjórnmálasögu 19. aldar og upphafs 20. aldar.

Í þessari málstofu munu þátttakendur fjalla um ríkjandi nálganir á viðfangsefni sín, ræða hver þróunin hefur verið í fræðilegri umfjöllun um þau og benda á nálganir á þau sem vert væri að taka til frekari skoðunar.

Fyrirlestrar

Hvernig varð ríkið til á Norðurlöndum? Við þessari spurningu er ekkert eitt svar og hafa fræðimenn nálgast þessa spurningu út frá ýmsum ólíkum sjónarhornum í gegnum tíðina. Spurningin er þannig ekki ný af nálinni, heldur frekar svörin, fengin með nýjum sjónarhornum sem hrinda af stað frekari endurskoðun. Erindið mun varpa ljósi á þá þróun sem orðið hefur í norrænni sagnaritun á 20. og 21. öld um ríkismyndun á árnýöld (um 1500–1800). Sjónum verður beint að því hvernig áherslur hafa í auknum mæli horfið frá tvískiptri umræðu um ríkisvald sem hafi annað hvort komið með þvingandi hætti „ofan frá“ eða með samningaviðræðum og þá í meiri mæli „neðan frá“. Nýjustu rannsóknir hafa þess í stað verið staðsettar einhvers staðar þarna á milli en beinst æ meir að fjölliða útskýringum með áherslu á ólíka hópa og vettvanga sem með breytilegum hætti hafi smám saman lagt grunninn að því norræna ríki sem við þekkjum í dag. Þannig hefur „hversdagslegt líf“ fortíðarinnar orðið meira áberandi í skýringum á ríkismyndun, t.d. með skírskotunum til ólíkra jaðarhópa, kyngervis, klæðnaðar, heimilisstarfa og uppeldi barna. Að lokum verður vikið að því hvernig hægt er að rannsaka viðfangsefnið út frá konunglegum rannsóknarnefndum.

Sumarið 1873 var kjörin samkoma sett á Þingvöllum sem hafði það verkefni að „kveða upp álit sitt um það, hvort meiri hlutinn á alþingi hefir styrk þjóðarinnar”. Þá hafði deila þingsins við stjórnvöld um það hvernig bæri að endurskilgreina stöðu Íslands innan danskrar ríkisheildar eftir endalok einveldis staðið í næstum aldafjörðung og svo virtist sem margir á Íslandi væru orðnir löngu þreyttir á deilunni og kröfðust lausna.

Á þessum fundi biðu sjónarmið Jóns Sigurðssonar ósigur og ári síðar var Stjórnarskrá Íslands innleidd með samþykki Alþingis.

Niðurstaða Þingvallafundarins passar ekki við ráðandi sögufrásögn íslenskrar sjálfstæðisbaráttu. Samkvæmt henni endurspegluðu skoðanir Jóns Sigurðssonar í deilunni við dönsk stjórnvöld íslenskan þjóðarvilja. Sem sést meðal annars í því, hálfri öld eftir Þingvallarfundinn 1873, afneitaði Páll Eggert Ólason prófessor og opinber æviritari þjóðhetjunnar niðurstöðum fundarins.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um Þingvallafundinn 1873. Sýnt verður fram á hvers vegna innihald hans passar ekki við hefbundna frásögn íslenskrar sjálfstæðisbaráttu. Að niðurstaða fundarins sé jafnvel fær um að leiða fram fjölbreyttari og áhugaveðari mynd af íslenskum stjórnmálum á seinni hluta 19.aldar en við erum vön

Í erindinu verður sjónum beint að pólitískri hugmyndasögu friðarhugtaksins á Íslandi á 20. öld með áherslu á hugmyndir kvenna og hvernig þær tengja friðarmál við önnur pólitísk mál og hugmyndafræði.

Íslensk stjórnmálasaga hefur löngum hverfst um athafnir og hugmyndir stjórnmálaleiðtoga og lítið hefur farið fyrir konum. Þröngur skilningur hefur skilyrt hvað telst til stjórnmálasögu og hafa utanríkismál, stofnanir, „hörð“ mál og stefnur flokka verið áberandi. Saga kvennabaráttu hefur verið jaðarsett sem kvenna- og kynjasaga. Áhrif frá menningarsögu með áherslu á sjónarhorn „neðan frá“ hefur skapað rými til að skrifa konur inn í stjórnmálasöguna. Í fræðilegum ævisögum hefur sjónum t.d. verið beint að fyrirmyndum, fjölskylduaðstæðum, eða því félagslega og menningarlega auðmagni sem mótað hefur og þroskað konur sem pólitíska gerendur þó þær hafi ekki verið í fremstu víglínu.

Hingað til hefur þó ekki mikið farið fyrir hugmyndasögulegri greiningu á skrifum og hugmyndum kvenna um samfélagsleg málefni sem tengjast kvennabaráttu, eins og hugmyndir þeirra um alheimsfrið, pólitísk gildi, hugmyndafræði og mannskilning eða heimspekilegar víddir þessara orðræðna og áhrif alþjóðlegra strauma. Í erindinu verður hugmyndasögulegri nálgun beitt á íslenska stjórnmálasögu og viðfangsefni „almennrar“ stjórnmálasögu útvíkkað með tilliti til kyns og hvað flokkast sem pólitísk viðfangsefni.

Fyrir framan stjórnarráðið og alþingishúsið standa styttur af þremur mönnum sem allir komu verulega við sögu íslenskra stjórnmála á árunum 1874–1903. En meginástæða þess að mönnunum þremur voru reistar styttur var aðkoma þeirra að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Sú söguskoðun skapaðist snemma á 20. öld og hefur viðhaldist fram á okkar daga að íslensk stjórnmál landshöfðingjatímans hafi verið einsleit. Þau hafi nær eingöngu snúist um að viðhalda kröfugerð á dönsk stjórnvöld með það að markmiði að ná meira formlegu valdi í hendur Íslendinga. Að öll íslenska þjóðin hafi staðið að baki forystumönnum sínum í kröfugerðinni og að íslensk lýðræðisþróun þessa tíma hafi haldist í hendur við framgang stjórnarskrármálsins.

Þessi nálgun á viðfangsefnið er mjög þröng. Hún er endurspeglun af þjóðmálaumræðu þessa tíma þar sem svokölluð stórpólitík (einkum stjórnarskrármálið og stærri efnahagsmál) yfirgnæfðu opinber umræðu um stjórnmál. Umræðu sem var stýrt og að miklu leyti haldið uppi af fámennum hópi ritstjóra þjóðmálablaða, sem ýmist voru alþingismenn sjálfir eða nátengdir forystumönnum í stjórnmálum.

Í erindinu verður rætt um þessa nálgun á íslenska stjórnmálasögu landshöfðingjatíma, tilurð hennar og langlífi. En einnig verða reifaðar aðra nálganir á sama viðfangefni sem líklegar eru til að veita aðra sýn.