
Í Lögbergi 103 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.
Í íslenskri söguritun má finna dæmi þess að einstök sagnfræðiverk hafi náð að greipast svo í söguvitund almennings og fræðafólks að þau hafi orðið að viðmiði um það efni sem þau fjalla um. Staða þeirra hafi orðið svo sterk að síðari tíma umfjallanir um efnið hafi ósjálfrátt eða meðvitað dregið dám af þeim. Af slíku getur leitt að sjónarhorn á fræðileg viðfangsefni þrengist svo að þau festist í kvíum þar sem ein nálgun verður allsráðandi og aðrar útilokaðar. Lítill sýnileiki kvenna og þeirra framlags til samfélagsins í ritum um Íslandssögu allt fram að síðustu áratugum 20. aldar er dæmi þar um. Eins má nefna hvernig þjóðernissinnuð nálgun, byggð á persónusniði, var ráðandi í skrifum um íslenska stjórnmálasögu 19. aldar og upphafs 20. aldar.
Í þessari málstofu munu þátttakendur fjalla um ríkjandi nálganir á viðfangsefni sín, ræða hver þróunin hefur verið í fræðilegri umfjöllun um þau og benda á nálganir á þau sem vert væri að taka til frekari skoðunar.