Goð og hetjur: Goðfræðileg minni og frásagnamynstur í íslenskum fornsögum, rímum og sagnadönsum
Goð og hetjur: Goðfræðileg minni og frásagnamynstur í íslenskum fornsögum, rímum og sagnadönsum
Í Árnagarði 303 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.
Í þessari málstofu verður fjallað um frásagnaminni og frásagnamynstur af ýmsum toga sem birtast í íslenskum fornsögum, rímum og sagnadönsum. Í fyrirlestrunum verður m.a. kannað með hvaða hætti hið alþjóðlega frásagnamynstur hetjunnar (e. hero pattern) birtist í íslenskum fornsögum. Einnig verður fjallað um frásagnalögmál danska þjóðfræðingsins Axels Olrik og athugað hvort hægt sé að heimfæra þau upp á íslenska sagnadansa. Að lokum verður rætt um heimildagildi rímna og sagnadansa fyrir rannsóknir á norrænni trú með hliðsjón af goðfræðilegum frásagnaminnum.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður sýnt fram á birtingarmynd hins alþjóðlega frásagnamynsturs hetjunnar (e. hero pattern) í nokkrum íslenskum fornsögum. Farið verður yfir rannsóknasögu hetjufrásagnamynstursins en fræðimenn hafa skilgreint og útlagt mynstrið á ýmsa vegu í gegnum tímann. Allar útfærslur hetjufrásagnamynstursins hafa það þó sameiginlegt að fjalla um þáttinn, þar sem röskun verður á félagslegri stöðu hetjunnar. Í íslenskum miðaldabókmenntum eru dæmi um að hetjan, sem yfirleitt er háborin, verður aðskilin frá fjölskyldu sinni og eyðir fyrstu æviárum sínum í mikilli fátækt, á afskekktum stöðum og er í þjónustuhlutverki. Hetjan veit oftast ekki að hún sé vel ættuð eða heldur því leyndu. Það er ekki fyrr en fjölskylda hetjunnar ber kennsl á hana með aðstoð einhvers konar kennitákna sem staðfesta réttmæta stöðu hennar sem færist í kjölfarið upp samfélagsstigann. Farið verður yfir nokkur dæmi og þau greind og borin saman.
Árið 1908 setti danski þjóðfræðingurinn Axel Olrik fram frásagnalögmál þar sem hann lýsti frásagnamynstri þjóðkvæða og -sagna. Hann var því á undan öðrum fræðimönnum sem settu fram ýmiss konar frásagnalíkön á fyrstu áratugum 20. aldar. Hér verður rætt um hugmyndir hans og hvernig hann tekur dæmi úr sagnadönsum varðveittum í Danmörku máli sínu til stuðnings – þrátt fyrir að þeir hafi yfirleitt verið taldir afsprengi hirðbókmennta miðalda. Rakið verður hvaða frásagnaeiningar hann tengir beint við sagnadansana og í framhaldi af því verður leitað dæma innan íslenskra sagnadansa sem bæði styðja við frásagnalögmál Olriks og stangast á við það. Eru frávikin of mikil til að rétt sé að hafna því að sagnadansar lúti frásagnalögmálum þjóðkvæða eða eru sagnadansar ótvíræður hluti alþýðubókmennta þrátt fyrir að þeir hafi oft yfirbragð hirðbókmennta miðalda? Í framhaldi af því má velta fyrir sér hvort þjóðkvæðin hafi alltaf verið baklæg og jafnvel komið á undan.
Eins og alkunna er fela miðaldaheimildir á borð við eddukvæði og Eddu Snorra Sturlusonar í sér hugmyndir um forkristnar trúarhugmyndir norrænna manna. Leifar af slíkum upplýsingum má finna í öðrum miðaldaritum á borð við konungasögur, Íslendingasögur og jafnvel fornaldarsögur. Fæstum dettur í hug að athuga heimildagildi rímna og sagnadansa hvað þetta varðar, enda eru rímurnar samdar eftir sögum (þ.e. þekktum heimildum) og sagnadansarnir fjalla að jafnaði um dramatíska atburði í lífi fólks fremur en guða og vætta. Í fyrirlestrinum verður leitast við að varpa ljósi á leifar – oft ógreinilegar – efnis af goðfræðilegum toga innan þessara tveggja kvæðagreina. Spurt verður hvort rétt sé að afskrifa kvæði á borð við rímur og sagnadansa þegar kemur að heimildum um norrænar trúarhugmyndir eða hvort í þeim megi e.t.v. finna áhugavert efni sem gæti varpað ljósi á annars konar söguefni, einkum í kvæðum þar sem yfirnáttúruleg öfl koma við sögu.