Hvað getur CLARIN gert fyrir þig?

Image

Hvað getur CLARIN gert fyrir þig?

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30.

Á málstofunni verður rannsóknarinnviðurinn CLARIN kynntur og sagt verður frá því hvernig hann nýtist í þágu rannsókna á sviði hug- og félagsvísinda og innan máltækni. Ísland fékk fulla aðild að CLARIN ERIC árið 2020 og Árnastofnun, leiðandi aðili í landshópi CLARIN á Íslandi, hefur rekið fullgilda CLARIN-þjónustumiðstöð síðan snemma árs 2023.

Meginmarkmið CLARIN er að öll stafræn málföng og búnaður frá allri Evrópu verði aðgengileg með einni innskráningu á netið til nota í rannsóknum og hug- og félagsvísindum og innan máltækni. Á málstofunni verður CLARIN kynnt, rætt um meginmarkmið innviðarins og sú þjónusta sem bæði CLARIN ERIC og CLARIN á Íslandi veitir kynnt. Einnig verður fjallað um nokkur verkefni sem hafa nýtt sér þjónustu og gögn CLARIN, hvort heldur sem er málgögn sem finna má á varðveislusvæði CLARIN, sérhönnuð tól sem boðið er upp á til að vinna með málföng eða sérfræðikunnáttu sem starfsmenn CLARIN veita.

Málstofustjóri verður Fjóla Guðmundsdóttir.

Fyrirlestrar

CLARIN-ERIC er rannsóknarinnviðaverkefni á vegum Evrópusambandsins. Meginmarkmið CLARIN er að skapa miðlægan vettvang til þess að varðveita stafræn gögn á öruggum stað og að gera þann vettvang aðgengilegan með einni innskráningu á netið. Gögnin eru einkum notuð við rannsóknir í hug- og félagsvísindum og innan máltækni.

CLARIN stendur fyrir „Common Language Resources and Technology Infrastructure“. Ísland gerðist aðili að CLARIN árið 2018 og rekur Árnastofnun nú fullgilda þjónustumiðstöð og er leiðandi í landshópi CLARIN-IS. Miðstöðin rekur varðveislusvæði sem meðal annars býður upp á örugga geymslu og miðlun gagna og aðstoð við frágang þeirra CLARIN leggur einnig áherslu á miðlun þekkingar, heldur árlega ráðstefnu og veitir styrki til fræðimanna, kennara og nemenda. Í erindinu verður áhersla lögð á það hvernig fræðimenn á sviði hugvísinda hér á landi geta nýtt sér þjónustu, gögn og tól sem CLARIN hefur upp á að bjóða.

Gerð verður grein fyrir málheild og orðalista sem bæði tengjast námsorðaforða. Verkefnið naut aðstoðar þjónustumiðstöðvar CLARIN við bæði frágang og framsetningu og eru afurðir þess hýstar á varðveislusvæði CLARIN. Annars vegar er um að ræða Málheild um íslenskan námsorðaforða (MÍNO) sem byggir á gögnum úr Markaðri íslenskri málheild og Risamálheildinni. Hins vegar verður gerð grein fyrir verkferlinu við gerð Lista yfir íslenskan námsorðaforða í lagi 2 (LÍNO-2) en sá listi var búinn til upp úr gögnum MÍNO. Listinn inniheldur orð, jafnt hlutlæg sem huglæg, sem tilheyra lagi 2, þ.e. orð sem eru notuð þvert á námsgreinar og koma iðulega fyrir í fræðilegu ritmáli en síður í daglegu tali. Það hefur sýnt sig að þekking nemenda á þessum orðum er oft lítil og er ein af meginástæðum þess að þeim gengur illa að skilja lesinn texta, sem síðan dregur úr námsárangri.

Málheildir hafa á undanförnum árum orðið fyrirferðarmeiri í margs konar rannsóknum á málnotkun, breytingum á málinu og ýmsum öðrum málfræðilegum fyrirbrigðum. Kynntar verða nokkrar af helstu málheildunum sem innihalda íslenskan texta: Risamálheildin, ParlaMint, 19. aldar málheild, fornritamálheild og samhliða málheild með textum á íslensku og ensku.

Sagt verður frá rannsóknum sem unnar hafa verið með málheildum og sýnt hvernig hægt er að nota málheildarleitarvélina á malheildir.arnastofnun.is og n-stæðuskoðarann á n.arnastofnun.is til að skoða áhugaverð dæmi og rannsaka málið.

Starkaður Barkarson og Auður Pálsdóttir segja frá málstofunni „Hvað getur CLARIN gert fyrir þig?“, þar sem fjallað verður um notkun CLARIN-ERIC rannsóknarinnviðaverkefnið.