Ísland - Brennivínsland

Image

Ísland - Brennivínsland

Í Árnagarði 201 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:30.

Í málstofunni verður fjallað um áfengisneyslu á Íslandi frá 18. öld til 20. aldar, á hvern hátt hún birtist, viðbrögð við henni og orðræðu og ímyndir henni tengda. Hvaða augum var neysla áfengra drykkja litin, hver voru helstu þátttakendur í umræðunni og hvert leiddi hún? Í málstofunni verður einnig fjallað um viðbrögð stjónvalda og félagasamtaka við áfengisneyslu, af hverju þau einkenndust og hverjir voru helstu áhrifaþættir í því samhengi.

Fyrirlestrar

Á seinni hluta 17. aldar varð sú breyting á áfengisneyslu landsmanna að brennt vín tók að ryðja öli úr sessi sem vinsælasti vímugjafinn. Brennivínið virðist hafa fallið í kramið hjá Íslendingum því neysla þess jókst hröðum skrefum á 18. öldinni. Í erindinu er fjallað um þessa nýjung í neyslusögu Íslendinga frá ýmsum hliðum. Hvað stuðlaði að aukinni neyslu brennivíns, hvað var drukkið og hvernig? Breytti þessi sterki vímugjafi drykkjuvenjum Íslendinga? Ef marka má ferðasögur erlendra manna og frásagnir af drykkjuskap höfðingja á Alþingi og mannamótum má ætla að hér á landi hafi ýmislegt minnt á óhófsdrykkju sem fylgdi innreið brennvíns annars staðar í Norður-Evrópu.

Af eftirmælum og æviágripum um presta og embættismenn á átjándu öld er auðvelt að draga þá ályktun að drykkjuskapur hafi verið landlægur í þeirra stéttum, jafnvel viðbúinn upp að einhverju marki. En hvaða sjónarhorn veita dómsmál á drykkjuskap „fornemme“ manna á átjándu öld?

Í sumum tilvikum gat ölvun við afbrot leitt til refsilækkunar en í öðrum þvert á móti til refsiþyngingar. Og hvaða ályktun má draga af tilfellum þar sem verjandi hefði getað borið við drykkjuskap og sloppið þannig við allar sektir og eftirmál en kaus að gera það ekki?

Alþjóðleg regla Góðtemplara hóf starfsemi á Íslandi árið 1884. Þá var þegar farið að örla á nokkru óþoli gagnvart birtingarmyndum brennivínsdrykkju í landinu og erlend áhrif til að sporna við henni voru farin að láta á sér kræla. Góðtemplarar tóku þá baráttu fastari tökum en fyrr hafði verið gert. Tæpt verður á erindi reglunnar í upphafi og viðtökum hennar. Fjallað verður um hvernig áhersla templara þróaðist frá siðferðilegum sjónarmiðum og yfir í eindreginn þunga útrýmingarherferðar áfengisins. Sjónum verður beint að orðræðunni gegn eitrinu og hvernig háir sem lágir gengust inn á hana og gerðu hana að meginstraumi sem vart varð umflúinn. Mótaði barátta templara á fyrri hluta 20. aldar viðhorf Íslendinga til áfengismála til frambúðar?

Í erindinu verður fjallað um orðræðu um áfengisbannið, hvernig hún tengdist umræðu um sjálfsmyndir þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar, viðhorfum umheimsins, og rætt um hvað einkenndi þessa orðræðu. Þá verður rætt um helstu leiðir til þess annars vegar að viðhalda áfengisbanninu og hins vegar að brjóta það eða draga úr áhrifum þess. Þar á meðal verður getið um eftirlit stjórnvalda, hvernig því var beitt og hverjar voru helstu birtingarmyndir þess. Einnig verður kannað hvernig hæðni var markvisst notuð til þess að hafa áhrif í þessu samhengi.

Þótt afnám áfengisbanns hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1933 var neysla á áfengum bjór áfram bönnuð til ársins 1989, sem skapaði Íslandi eftirtektarverða sérstöðu í heiminum. Bjór hafði gegnt mikilvægu hlutverki í áfengismenningu landsmanna fyrstu aldirnar en síðan horfið að mestu af sjónarsviðinu uns hann sneri aftur af krafti undir lok nítjándu aldar og Íslendingar virtust á góðri leið með að skipa sér í raðir bjórdrykkjuþjóða álfunnar. Hver voru tildrög þess að bjórinn var undanskilinn þegar neysla annarra áfengistegunda var heimiluð á áföngum á þriðja og fjórða áratugnum? Hvernig þróaðist umræðan um mögulegt afnám bjórbannsins. Hver voru áhrif þjóðernislegra sjónarmiða í þessum efnum og að hvaða leyti lágu efnahagslegar forsendur að baki? Snérust deilurnar um bjórinn ef til vill ekki nema að takmörkuðu leyti um bjór?

Einnig verður rætt um þróun áfengislöggjafarinnar á milli 1935 og 1989, með sérstakri áherslu „skautun umræðunnar“ þar sem sumir börðust fyrir hertri áfengislöggjöf en aðrir fyrir meira frjálsræði með þeim afleiðingum að áfengismál voru í pattstöðu. Vikið verður að helstu undantekningunum á banni gegn áfengu öli og þróun umræðunnar á 8. og 9. áratugnum þar sem lögleiðing bjórs varð veigameiri þáttur í baráttu þeirra sem vildu auka tilslakanir á áfengislöggjöfinni.

Sumarliði R. Ísleifsson, Sverrir Jakobsson, Stefán Pálsson, Guðmundur Jónsson og Nanna Þorbjörg Lárusdóttir segja frá málstofunni Ísland - Brennivínsland sem haldin verður á Hugvísindaþingi í Árnagarði 201 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:30.