Íslenska smásagan í sókn

Image

Íslenska smásagan í sókn

Í Árnagarði 311 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-16:15.

Eitt af því áhugaverðasta í íslenskum samtímabókmenntum um þessar mundir er endurkoma smásögunnar. Á seinni hluta síðustu aldar virtist sem smásagnagerð væri að geispa golunni á Íslandi; það var nær ómögulegt fyrir nýja höfunda að fá smásagnasöfn útgefin og reyndar var bæði smásögunni og ljóðum spáð dauða. Hvoru tveggja reyndist fásinna. Á undanförnum árum hefur komið út fjöldi nýrra og spennandi smásagnasafna. Það sem meira er, innan smásögunnar má sjá merkilega nýsköpun og einkar nýstárleg efnistök, ekki síst í meðförum ungra höfunda. Í málstofunni verða flutt erindi um íslenska smásagnagerð í samtímanum og einnig litið aftur til miðbik tuttugustu aldar.

Fyrirlestrar

Halldóra B. Björnsson (19071968) er augljóslega ekki í hópi ungu skáldanna í dag, Hennar blómaskeið var fyrir meira en hálfri öld. Smásagan sem fjallað verður um heitir „Faðmlag dauðans“.  Hún er sögð í orðastað konu sem liggur í rúmi sínu við hlið eiginmanns sem er hægt og yfirvegað að myrða hana. Þessi saga hefur verið kölluð „hrollvekja“ en hið óhugnanlega leikrit sem þar er leikið fer fram á því sálfræðilega sviði sem Sigmund Freud kallaði „hitt leikhúsið“.

„Faðmlag dauðans“ á eitthvað sameiginlegt við leikritið „Kannibalen“ sem verið er að sýna í Tjarnarbíói í dag. Bæði verkin kalla á vangaveltur um fyrirbærin masókisma og „transgression“ í bókmenntum.

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeritus frá íslensku- og menningardeild og doktor í íslenskum bókmenntum. Hún hefur skrifað bækur um kvennabókmenntir og feminisma, barnabækur, bókmenntasögu og leikhúsgagnrýni á Hugrás. Sjá nánar: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=76062

María Elísabet Bragadóttir er í hópi þeirra ungskálda sem vakið hafa athygli fyrir forvitnilegar smásögur á síðustu árum. Fyrsta bók hennar, Herbergi í öðrum heimi, kom út árið 2020 og var afar vel tekið af gagnrýnendum og öðrum lesendum. Verkið samanstendur af sjö sjálfstæðum smásögum sem fjalla einkum um tilveru barna og ungs fólks. Í fyrirlestrinum verður rýnt í smásagnasafnið og sameiginlegir þræðir sagnanna skoðaðir; svo sem flókin samskipti foreldra og barna og þrá persóna eftir tengslum við aðra. Þá verður sjónum sérstaklega beint að smásögunni „Konan mín“ sem sker sig frá hinum sögum bókarinnar því hún gerist á dvalarheimili aldraðra og segir frá lífi kvenna sem þar búa og starfa. Rætt verður hvernig elli og minnisleysi sögukonunnar markar frásögn hennar og sjálfsmynd. Þá verður gefinn gaumur að því hvernig bygging smásögunnar kann að rugla lesendur í ríminu og kalla á endurlestur. Í greiningu verður meðal annars sótt til kenninga um óáreiðanlegan sögumann, minni og gleymsku.

Guðrún Steinþórsdóttir (f. 1987) er með doktorspróf í íslenskum bókmenntum og starfar sem aðjunkt við Deild faggreina á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Síðustu ár hefur hún sent frá sér bók um skáldskap Vigdísar Grímsdóttur og fræðigreinar á sviði bókmennta. Guðrún er ritstjóri Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar.

Lýsingarorðið heimilislegur er í íslenskri orðabók skilgreint sem einhver sem er „notalegur og minnir á heimili“. Það er til vitnis um að orðið heimili hefur almennt jákvæða merkingu í tungumálinu og á alla jafna við um notalegan griðastað. Sá skilningur er þó á skjön við flest þau heimili sem birtast lesendum í smásögum og ljóðsögum Kristínar Eiríksdóttur. Í smásagnasafninu Doris Deyr (2010) koma fyrir ýmiss konar heimili sem eru óhugnanleg eða ókennileg fyrir ólíkar sakir. Jafnvel þau heimili sem virðast hættulaus og hversdagsleg reynast íbúunum óbærileg. Þannig kynnast lesendur til að mynda stúlku að nafni Evelyn, sem hatar nafnið sitt en þó „ekki nærri því eins mikið og hún hatar herbergið sitt“, og fráskildum manni sem „finnst hann standa á sandhrúgu sem stöðugt hrynur úr“ þegar hann ímyndar sér íbúð sína. Í erindinu verður litið inn á nokkur heimili úr smásögum Kristínar og rætt um ókennileikann sem þar er að finna og leiðir höfundarins til að skapa óhugnað. Þá verða blokkaríbúð sem virðist lifna við og höll í miðri eyðimörk, úr ljóðsögunum Kjötbænum (2004) og Húðlitaðri auðninni (2006), heimsótt.

Helga Jónsdóttir (f. 1988) er með MA gráðu í almennri bókmenntafræði, auk BA gráðu í íslensku og almennri bókmenntafræði. Hún starfar sem aðjúnkt II í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands

„Það eru liðin þrjú ár síðan við áttuðum okkur á því að heimurinn væri að farast“ segir í upphafi sögunnar „Bessadýrin“ eftir Þórdísi Helgadóttur en hana er að finna í smásagnasafni Þórdísar Keisaramörgæsirnar sem kom út árið 2018. Söguefni Þórdísar snerta beint samtímatilveru okkar með öllum þeim vandræðum og ógnum sem steðja að lífi á jörðinni. Ekki síst kemur við sögu ungt fólk sem á framtíðina vísa - eða ekki. Í sögum Þórdísar er til að mynda fjallað um tækni, minnið og stöðu manneskjunnar í veröld á fallandi fæti en úrvinnsla Þórdísar er aldrei fyrirsjáanleg, hún snýr ætíð upp á veruleikann á óvæntan hátt og hægt er að grípa til hugtaksins skjönun í því sambandi. Í sögunum hennar vefjast veruleiki og hliðarveruleiki saman og koma lesanda oft í opna skjöldu. Samsláttur vísindaskáldskapar og veruleika ljær sumum sagnanna andrúmsloft óhugnaðar og spennu. Í erindinu verður rýnt nánar í smásagnasafn Þórdísar og sérstaklega hugað að þeirri framtíðarsýn sem þar má greina, sem og samslætti ólíkra bókmenntagerva þar sem áhrif frá íslenskum þjóðsagnaarfi og fantasíu blandast saman við vísindaskáldskap og raunsæi.

Soffía Auður Birgisdóttir (f. 1959) er með doktorspróf í íslenskum bókmennum og starfar sem (hug)vísindamaður á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún hefur sent frá sér bækur og fjölda fræðigreina á sviði bókmennta á undanförnum þremur áratugum og fæst einnig við þýðingar í frístundum. Soffía Auður er ritstjóri Sónar, tímarits um ljóðlist og óðfræði.

Það er ófyrirgefanleg klisja að tala um fordæmalausa tíma. Því verður þó seint neitað að þeir tímar sem við lifum eru um margt bæði stórkostlegir og skelfilegir í jöfnum hlutföllum. Allt það áreiti sem á okkur skellur, öll óvissan, öll þekkingin sem við höfum aðgang að og allar miðlunarleiðirnar, og allar rangfærslurnar, öll upplausnin, öll firringin. Hraði samfélagsins hefur aldrei verið meiri í mannkynssögunni og ekki hafa bókmenntirnar farið varhluta af því. Í þessu erindi verður fjallað um samtíð og framtíð íslensku smásögunnar í þessu samhengi. Íslenskar smásögur hafa gengið í endurnýjun lífdaga síðustu 10–15 árin samfara þessari þróun, og endurspegla hana að mörgu leyti, mögulega betur en önnur bókmenntaform. Þannig virkar formið, hinn knappi stíll og þrönga sjónarhorn smásögunnar, oft betur til þess að miðla þeirri upplausn og aftengingu sem margir upplifa, þeim annarleika sem einkennir mannlífið á okkar dögum. Sést þetta glöggt á efnivið nokkra nýlegra sagnasafna sem tekin verða til sérstakrar skoðunar. En í framhaldinu verður velt upp spurningum um stöðu smásagnaformsins á Íslandi í dag, af hverju það virðist endurnýja sig helst á umbrotatímum og hvaða framtíð það gæti átt sér.

Ægir Þór Jähnke (f. 1988) er með MA gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands, auk þess BA gráðu í sagnfræði og heimspeki, MA gráðu í heimspekikennslu og leggur nú stund á MA nám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu, auk þess að starfa sem bóksali og við skáldskaparskrif. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Ódýrir endahnútar, árið 2018 en hans sjöunda, ans) utan (svig, kom út árið 2022. Þá hefur hann birt ljóð, ljóðaþýðingar, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum. Hann stofnaði tímaritið Skandala og ritstýrði frá 2019 til 2021.