Litir, líf og fleira í íslensku táknmáli

Image

Litir, líf og fleira í íslensku táknmáli

Í Árnagarði 311 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:00.

Í málstofunni verður rætt um nýlegar rannsóknir á íslensku táknmáli (ÍTM) og málsamfélagi þess. Rannsóknirnar spanna fjölbreytt svið og leiða í ljós nýjan sannleik, t.d. um uppruna ÍTM og þróun. Túlkun á milli ÍTM og íslensku er mikilvægur hlekkur í samskiptum tveggja menningarheima og verður hér fjallað um hver áhrif undirbúnings táknmálstúlkunar eru á gæði hennar. Þá verður rætt um hugræna úrvinnslu og inntak litaorða í ÍTM, um skráningu á setningafræðilegum fyrirbærum og orðaröð í íslensku táknmáli.

Málstofustjórar: Rannveig Sverrisdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson

Fyrirlestrar

Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð höfundar og fjallar um hvernig ÍTM og samfélag döff varð til og þróaðist áfram, hvaða þættir styrkja lífvænleika íslensks táknmáls og hvaða þættir skapa hættu á útrýmingu íslensks táknmáls og döff menningar. Í rannsókninni var beitt eigindlegum aðferðum með viðtölum og orðræðugreiningu með sögulegri nálgun. Fram kemur að uppruna íslensks táknmáls sé að leita í íslenskum veruleika en ekki í dönsku táknmáli. Það sem helst styrki íslenskt táknmál séu fjölbreytileg samskipti allra kynslóða innan döff menningar en einnig rannsóknir, kennsla og vernd íslensks táknmáls í lögum. Helsta ógn við tilvist íslensks táknmáls er hugmyndafræðilegt vald sem býr í tengslum málsins og döff fólks við umhverfið eða í vistkerfi málsins, í stefnum og straumum og stofnunum samfélagsins.

Fjallað verður um rannsókn sem gerð var meðal íslenskra táknmálstúlka árin 2019–2022, um áhrif undirbúnings á hugrænt álag túlka og tengsl þess við gæði táknmálstúlkunar. Rannsóknin var unnin með blönduðum rannsóknaraðferðum, þar sem m.a. voru tekin viðtöl við starfandi táknmálstúlka og sérhannað túlkunarpróf lagt fyrir hluta þátttakenda. Prófið var framkvæmt til að ná fram tölfræðilegum upplýsingum um áhrif undirbúnings á táknmálstúlkun og einnig til að fá túlkana sjálfa til að lýsa undirbúningi sínum svo greina mætti þætti sem mikilvægt er að undirbúa fyrir túlkun.

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á að undirbúningur bæði eykur skilning túlkanna á umræðuefninu sem túlka á og auðveldar þeim framsetningu túlkunarinnar. Þessi atriði draga úr hugrænu álagi sem eykur gæði túlkunar. Einnig kom fram að það sem táknmálstúlkar leitast við að gera með undirbúningi sínum er einkum tvennt: Í fyrsta lagi reyna þeir að varna því að þeir dragist aftur úr í túlkun sinni og í öðru lagi reyna þeir að koma í veg fyrir að eitthvað komi þeim á óvart í túlkunaraðstæðunum, allt frá orðræðu til aðstæðna. Það gera túlkarnir með því að undirbúa ákveðna þætti túlkunarinnar, þar á meðal umræðuefnið, málfræðileg atriði ÍTM, sérstök málsnið og aðstæður.

Litaheiti eru áhugavert svið til að skoða út frá merkingarfræðilegu sjónarmiði. Það sem við skilgreinum sem vísimið litaorða er ekki raunverulega til sem eigindi hlutar, heldur einungis sem skynjun. Fjarvera raunverulegs vísimiðs gaf í upphafi tilefni til þess að gera ráð fyrir að hver menningarhópur fyrir sig hefði sér skiptingu en tímamótarannsókn Berlin og Kay og rannsóknir í framhaldi af því sýndu fram á sterk rök fyrir því að skipting litrófsins væri alls ekki eins misleit og haldið hafði verið fram heldur væri að finna grófa skiptingu í ákveðin svæði sem væru einsleit á milli menningarhópa. 

Nafngiftamynstur ÍTM í skilgreiningum á litahugtökum eru svipuð og í öðrum málum, hvort sem litið er til aldurs eða menningarsamfélags. Þetta bendir til þess að málfræðileg einkenni málsins hafi lítið að segja um almenna skiptingu litrófsins í litbrigði og að þeir kjarnar litahugtakanna sem skilgreinast í tungumálum séu mjög líkir.

Síðastliðið sumar var skráningu á setningafræðilegum fyrirbærum bætt við upptökur á þremur táknmálstextum. Textana má flokka sem náttúruleg gögn. Skráningin leiðir að einhverju leyti í ljós óvæntar niðurstöður. Áskoranir felast bæði í aðferðafræði og eftirvinnslu gagnanna eigi að nota þau til rannsókna á setningafræði ÍTM. Rætt verður hvort sambærilegar niðurstöður fáist úr ólíkum gögnum og hvort samræmi sé í máli málhafanna. Því hefur verið haldið fram að ólíkar niðurstöður um málfræðileg fyrirbæri fáist úr náttúrulegum gögnum annars vegar og söfnuðum gögnum hins vegar. Þá má færa rök fyrir því að tilbrigði í ÍTM megi oft útskýra sem einstaklingsmállýskur frekar en tilbrigði sem skýra má með félagslegum breytum.

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá lítilli rannsókn á orðaröð í ÍTM en hún er byggð á þremur upptökum (samtals 34 mín. að lengd) sem hafa verið glósaðar yfir á íslensku. Auk þess var stuðst við dæmi úr táknmálsorðabókinni Signwiki. Í rannsókninni var sjónum beint að röð nafnorða og einkunna, en þó aðallega lýsingarorðseinkunna.

Samkvæmt fyrri skrifum um lýsingarorðseinkunnir í ÍTM geta lýsingarorð bæði komið á undan og á eftir nafnorði sem þau lýsa nánar (BLEIKUR HATTUR, HATTUR BLEIKUR). Upptökurnar sem áður voru nefndar sýna hins vegar að röðin lýsingarorð + nafnorð kemur fyrir í um 90% tilvika en hin röðin (nafnorð + lýsingarorð) í um 10% tilvika. Aðrir flokkar einkunna, t.d. töluorð, virðast líka koma mun oftar á undan nafnorði en á eftir en þar eru reyndar talsvert færri dæmi til að byggja á. Í fyrirlestrinum verður rýnt í þessar óvæntu niðurstöðu og þær verða settar í samhengi við það sem vitað er um stöðu einkunna með nafnorðum í táknmálum og raddmálum almennt.