Málvísindi í hafsjó tækninnar: Tjákn, máltækni, erfðafræði

Í Árnagarði 201 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Smelltu hér til að fylgjast með í streymi.

Í málstofunni verður fjallað um ýmsar hliðar málvísinda sem hefðu verið óhugsandi áður en nútímatækni kom til sögunnar. Fjallað verður um hvernig tjákn (e. emojis) hafa komið fram sem ný birtingarmynd látbragðs í ritmáli, hvernig þau hafa áhrif á tungumál, bera merki málbreytinga og vekja upp spurningar um inngildingu og jaðarsetningu. Einnig verður sagt frá því hvernig ný stór villumálheild fyrir íslensku gerir máltæknifólki og kennurum mögulegt að fá víðari yfirsýn yfir ritvillur ólíkra hópa málhafa og hvernig þetta nýstárlega málfang getur stutt við þróun á leiðréttingarforritum og íslenskukennslu. Að lokum verður fjallað um hvernig hægt er að nota erfðafræði til að fá innsýn í uppruna tungumáls og þróun, þar á meðal áhrif erfða á hljóðkerfi.

Fyrirlestrar

Ef tjákn væru tungumál væri ekkert annað mannlegt mál með fleiri málhafa. Vistkerfi tjákna virðist enn fremur hafa þversagnakennd áhrif á tungumál. Að sumu leyti bjóða tjákn upp á fjölbreyttari leiðir til að tjá sig í ritmáli en nokkru sinni fyrr – en þau hafa þó einnig verið borin saman við nýlenskuna í dystópíu Orwell, 1984, vegna þess hvernig þau takmarka möguleika á tjáskiptum.      

Þó að tjákn eigi sér fremur stutta sögu þá hefur mikið verið um þau fjallað, bæði í akademísku samhengi og utan þess. Í þessu erindi mun verða rætt hvaðan tjákn koma, hvernig tæknin sem liggur þeim að baki virkar og hvernig hægt er að nota máltækni til að greina og móta mannlega hegðun og upplifun með tjáknum og hugbúnaði sem vinnur með þau.  

Fjallað verður um hvernig fólk með jaðarsettar sjálfsmyndir hefur barist fyrir inngildingu í samfélagi tjákna þannig að tíst geti tjáð það að vera trans, klæðast andlitsslæðu, vera á blæðingum eða sýnt húðlit þess sem skrifar. Rætt verður hvernig sumar svona tilraunir eru árangursríkar en aðrar ekki og hvers vegna svo sé. Rætt verður hvernig við skiljum og misskiljum tjákn og hvernig þau þýðast á milli mála, menningarheima, aldurshópa og ólíkrar tækniumgjarðar.

Hluti af máltækniáætlun stjórnvalda sneri að því að þróa opinn hugbúnað sem leiðréttir villur sem fólk gerir í rituðu máli, svonefndan málrýni. Svo þróunin yrði sem markvissust vann teymi innan rannsóknarstofunnar Mál og tækni að því að safna textum sem fólk úr mismunandi hópum hefur skrifað, en söfnunin stóð yfir í þrjú ár. Afrakstur söfnunarinnar er meðal annars fjórar íslenskar villumálheildir; Íslenska villumálheildin (IceEC), Villumálheild íslensks barnamáls (IceCLEC), Villumálheild íslensku sem annars máls (IceL2EC) og Íslenska lesblinduvillumálheildin (IceDEC).

Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um uppruna og þróun tungumáls en erfitt er að sannreyna þær. Tungumál steingervast ekki og því höfum við engar beinar heimildir um tungumálagetu útdauðra mannategunda. Á undanförnum 20 árum hafa sérfræðingar bent á að erfðaupplýsingar geti verið ígildi steingervinga og gefið okkur einstaka innsýn í þróun tungumáls, en rannsóknir á þessu sviði eru enn á byrjunarstigi. Í þessum fyrirlestri mun ég gefa nokkur dæmi um hvernig erfðafræðin getur gagnast við að skilja þetta lykilpúsl í þróunarsögu mannsins. Fjallað verður um hvernig leit að erfðaþáttum sem hafa áhrif á mál og tal nútímafólks getur hjálpað okkur að sannprófa tilgátur á þessu sviði. Einnig verður sagt frá því hvaða ályktanir er hægt að draga út frá erfðamengi útdauðra mannategunda á borð við Neandertalsmenn. Að lokum verður greint frá hugmyndum um að erfðaþættir geti haft áhrif á þróun einstakra tungumála, til dæmis á sviði hljóðkerfisfræði.