María mey – einn mesti áhrifavaldur allra tíma

Í Odda 106 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00.

María guðsmóðir er án efa áhrifamesta kona sögunnar, bæði sem söguleg persóna og ímynd. Í þessari þverfræðilegu málstofu guðfræðinga og fornleifafræðinga verða ýmsir þættir þessarar áhrifamiklu sögu skoðaðir, þar sem kastljósinu er einkum beint að birtingarmynd Maríu á Íslandi. Í kjölfar greiningar á þeim ólíku myndum sem elstu heimildir gefa af móður Jesú verður fjallað um mikilvægi Maríu í íslensku klausturlífi á miðöldum, gerð verður grein fyrir Maríu í íslenskum kveðskap, auk þess sem birtingarform hennar í textílgerð miðalda verða könnuð. Að endingu verður sjónum beint að stöðu Maríu í íslensku þjóðkirkjunni í dag, eins og hún birtist meðal annars í sálmaiðkun kirkjunnar.

 

Fyrirlestrar

María frá Nasaret, móðir Jesú, hefur gegnt miðlægu hlutverki í sögu kristindómsins um aldir. Í því ljósi vekur það athygli hversu brotakennda umfjöllun hún hlýtur í raun í elsta og helsta rit­safni kristindómsins, Nýja testamentinu. Í þessum fyrirlestri verður gefið yfirlit yfir tilvísanir til Maríu í Nýja testamentinu og lýsingar einstakra höfunda á persónu hennar, bakgrunni, háttum og samskiptum við annað fólk, sér í lagi Jesú, greindar. Almenna niðurstaðan er sú að þrátt fyrir takmarkaða umfjöllun veitir Nýja testamentið nokkuð fjölþætta og athyglisverða mynd af persónu Maríu.

María mey var áberandi innan íslensku klaustranna rétt eins og í daglegu lífi fólks á miðöldum. Að minnsta kosti þrjú þeirra voru tileinkuð Maríu mey en auk þess áttu öll stærstu klaustrin líkneski af henni, sum fleiri en eitt. Samtals er 21 líkneski af Maríu mey talið upp í úttektum klaustranna en af þeim eru líklega aðeins tvö varðveitt. Hins vegar eru til varðveittar fjölmargar myndir af henni í klæðum, handritum og altarisbríkum, en einnig í útskurði á hversdagslegum áhöldum. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar myndir og myndverk, sem og hlutverk Maríu í starfi klaustranna. Lögð verður fram sú kenning að Maríulíkneskið sem varðveitt er úr Möðruvallaklaustri kunni í raun að vera Maríuskrín en þess konar skrín voru til víðast hvar í kaþólskum samfélögum miðalda.

Maríudýrkun var eitt af undirstöðuatriðum trúarlífs á Íslandi á miðöldum og á það ekki síst við um klaustrin. Sex Maríumessur voru haldnar hátíðlegar á ári hverju (1. febrúar, 25. mars, 15. ágúst, 8. september, 21. nóvember og 8. desember) og jómfrú María var verndari fleiri kirkna á Íslandi en nokkur önnur helg persóna. Á íslensku voru skrifaðar Maríu sögur sem kalla má ævisögur heilagrar Guðsmóður með jarteinum og ort Maríukvæði, hið frægasta Lilja. Slík rit á þjóðtungunni geyma miklu ítarlegri upplýsingar um Maríu en hægt er að finna í guðspjöllunum eða öðrum kanónískum ritum. Ekki hefði verið hægt að skrifa þessa íslensku texta nema af því að hér á landi voru áður til lífssögur Maríu og kvæði á latínu sem lögð voru íslenska efninu til grundvallar. Nær allir íslenskir latínutextar um Maríu glötuðust fljótlega upp úr siðaskiptunum. Sem betur fer hafa þessi verk varðveist annars staðar og til þeirra má rekja þá visku um Maríu sem höfundar íslenska efnisins bjuggu yfir. Sérlega áhugavert er að skoða hvernig ýmisleg álitamál og undur, sem óskýrð eru látin í kanónískum ritum, svo sem meydómur eða skírlífi Maríu, þáttur hennar í starfi sonar síns og lærisveina hans og síðast en ekki síst sérstök upphafning Maríu í holdinu og ódauðleiki, eru skýrð og skilgreind af mikilli hugmyndaauðgi í latnesku textunum.

Miðaldakirkjan var mikill áhrifavaldur í lífi Íslendinga og lagði fram fyrirmæli um lifnaðar- og verkhætti fólks. Textílframleiðsla var ekki undanskilin, en textílgerð var hluti af menntun kvenna en einnig nauðsynleg vinna sem margir stunduðu daglega. Textílgerð var mikilvægt verk og lögðu konur vinnu við textílframleiðslu, bæði fyrir fatnað en einnig fyrir aðrar vörur, t.d. vaðmál, segl, tjöld og fleira. Kirkjan var rík af textíl sem bæði nunnur og leikmenn framleiddu en framlag þeirra var nauðsynlegt fyrir mörg störf innan kirkjunnar, jafnvel fyrir einfaldar athafnir. Í myndefni af Maríu mey má oft sjá hana við textílgerð að spinna eða vefa og enn þann dag í dag er hún notuð sem fyrirmynd í textílgerð í sumum löndum en svipaðar kvenfyrirmyndir má einnig finna í öðrum trúarbrögðum. Í þessu erindi verða þessar fyrirmyndir af Maríu mey við textílgerð kynntar og ræddar, og þá hvernig áhrif þær hafa haft á fólk í fortíðinni.

Ný sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar kom út í nóvember síðastliðnum. Þar má finna á annan tug sálma sem vísa til Maríu, móður Jesú. Maríufræði er hin guðfræðilega rannsókn á Maríu, tengslum hennar við guðdóminn og erindi hennar við manneskjur og annað líf. María hefur lengi verið femínískum guðfræðingum hugleikin og sú guðfræðihefð hefur ýmist gagnrýnt hugmyndir um Maríu sem hina dygðugu, auðmjúku móður eða lyft henni upp sem mögulegri byltingarhetju. Hinsegin guðfræði hefur einnig sýnt hugmyndum um Maríu sem hina fullkomnu kvenímynd athygli. Í erindinu er fjallað um stöðu Maríu í íslensku þjóðkirkjunni og hvers konar Maríufræði komi fram í sálmaiðkun þjóðkirkjunnar.