
Í Odda 106 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00.
María guðsmóðir er án efa áhrifamesta kona sögunnar, bæði sem söguleg persóna og ímynd. Í þessari þverfræðilegu málstofu guðfræðinga og fornleifafræðinga verða ýmsir þættir þessarar áhrifamiklu sögu skoðaðir, þar sem kastljósinu er einkum beint að birtingarmynd Maríu á Íslandi. Í kjölfar greiningar á þeim ólíku myndum sem elstu heimildir gefa af móður Jesú verður fjallað um mikilvægi Maríu í íslensku klausturlífi á miðöldum, gerð verður grein fyrir Maríu í íslenskum kveðskap, auk þess sem birtingarform hennar í textílgerð miðalda verða könnuð. Að endingu verður sjónum beint að stöðu Maríu í íslensku þjóðkirkjunni í dag, eins og hún birtist meðal annars í sálmaiðkun kirkjunnar.