
Í Odda 206 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45.
Í lok 18. aldar voru að boði konungs settar á fót svokallaðar sáttanefndir um allt Ísland, og raunar um stóran hluta konungsdæmis dansk-norska ríkisins. Nefndirnar voru hér um bil 150 talsins hér á landi. Í þeim sátu að jafnaði tveir menn og átti annar þeirra samkvæmt lögum að vera úr alþýðustétt. Algengast var að þar sætu sóknarprestur og hreppstjóri hverrar sveitar. Nefndirnar áttu að miðla málum í flestum þeim misklíðarefnum sem töldust til einkaréttar. Má þar telja samningsrof, landamerkjadeilur, skuldamál, hjónaskilnaði, meiðyrðamál og vinnumarkaðsmál. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hefur frá árinu 2019 unnið að gerð stafræns gagnagrunns um allar varðveittar sáttanefndabækur á Íslandi frá tímabilinu 1798 til 1936 og verður hann formlega opnaður sumarið 2024. Í þessari málstofu verður fjallað um ólíkar hliðar þessara heimilda og þau tækifæri til rannsókna sem gagnagrunnurinn mun bjóða upp á. Fjallað verður um einstök mál og málaflokka sem tekin voru fyrir hjá nefndum vítt og breitt um landið auk þess sem almennu ljósi verður varpað á störf sáttanefnda í dreifðum byggðum Íslands á 19. og 20. öld.