Með kærleiksmeiningar vinmælum: Sáttamiðlun á Íslandi á 19. og 20. öld
Með kærleiksmeiningar vinmælum: Sáttamiðlun á Íslandi á 19. og 20. öld
Í Odda 206 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45.
Í lok 18. aldar voru að boði konungs settar á fót svokallaðar sáttanefndir um allt Ísland, og raunar um stóran hluta konungsdæmis dansk-norska ríkisins. Nefndirnar voru hér um bil 150 talsins hér á landi. Í þeim sátu að jafnaði tveir menn og átti annar þeirra samkvæmt lögum að vera úr alþýðustétt. Algengast var að þar sætu sóknarprestur og hreppstjóri hverrar sveitar. Nefndirnar áttu að miðla málum í flestum þeim misklíðarefnum sem töldust til einkaréttar. Má þar telja samningsrof, landamerkjadeilur, skuldamál, hjónaskilnaði, meiðyrðamál og vinnumarkaðsmál. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hefur frá árinu 2019 unnið að gerð stafræns gagnagrunns um allar varðveittar sáttanefndabækur á Íslandi frá tímabilinu 1798 til 1936 og verður hann formlega opnaður sumarið 2024. Í þessari málstofu verður fjallað um ólíkar hliðar þessara heimilda og þau tækifæri til rannsókna sem gagnagrunnurinn mun bjóða upp á. Fjallað verður um einstök mál og málaflokka sem tekin voru fyrir hjá nefndum vítt og breitt um landið auk þess sem almennu ljósi verður varpað á störf sáttanefnda í dreifðum byggðum Íslands á 19. og 20. öld.
Fyrirlestrar
Með tilkomu sáttanefnda um aldamótin 1800 varð til formlegur vettvangur fyrir vinnuhjú og annað verkafólk gamla íslenska sveitasamfélagsins til að sækja rétt sinn gagnvart húsbændum eða öðrum vinnuveitendum. Í þessu erindi verður fjallað um vinnudeilur fyrir sáttanefndum. Einkum verður horft til deilna vinnuhjúa og húsbænda og fjallað um þau málefni sem þar bar helst á góma, þær aðferðir sem hjú notuðu til að knýja fram rétt sinn og um leið rýnt í þann skilning bænda og vinnuhjúa á réttindum þeirra og skyldum sem greina má í deilum þeirra fyrir sáttanefndum.
Eitt af hlutverkum sáttanefnda var að miðla málum og reyna að koma á sáttum milli hjóna sem af ýmsum ástæðum höfðu ákveðið að slíta samvistum. Í erindinu verður fjallað um þessi skilnaðarmál. Áhersla verður lögð á að skoða helstu orsakir þess að hjón leituðu til sáttanefnda til að ná sættum sín á milli eða binda endi á hjónabönd sín og hvernig nefndarmönnum gekk að miðla málum og sætta ósátt hjón.
Sáttanefndir, sem settar voru á legg undir lok 18. aldar á Íslandi, gerðu það að verkum að almenningi var gert auðveldara með að sækja rétt sinn á formlegan máta í minniháttar deilumálum. Í þessu erindi verður sjónum beint að þeim kærum sem voru bornar undir nefndirnar ýmist af konum eða gegn konum. Fjallað verður um algeng málefni sem tekin voru fyrir og annað er snertir þátttöku kvenna á fundum sáttanefnda og hvernig þær gátu nýtt sér fundina til að fá sínu framgengt.