Nýjasta þróun í íslensku sem öðru máli: Gervigreind, Evrópuramminn og ný námsleið

Image

Nýjasta þróun í íslensku sem öðru máli: Gervigreind, Evrópuramminn og ný námsleið

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.

Í þessari málstofu verður sagt frá nýjustu þróun á sviði íslensku sem annars máls en sérstök áhersla verður lögð á áhrif gervigreindar á kennslu, notkun Evrópurammans í kennslu og þróun nýrrar námsleiðar til að koma til móts við annarsmálshafa í háskólaumhverfinu.

Málstofustjóri verður Stefanie Bade.

Fyrirlestrar

Í erindinu verður fjallað um notkun gervigreindarviðmótanna ChatGPT og DALL-E með það að markmiði að skoða möguleika á því hvernig hægt er að nýta þau við kennslu í íslensku sem öðru máli. Meðal annars verða sýnd dæmi um texta annars vegar og myndir hins vegar sem gervigreindin skapaði fyrir nemendur sem voru á mismundandi aldri og á mismunandi stigi í tungumálinu samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá fyrstu skrefum í gerð greiningarviðmiða fyrir ritun í íslensku sem öðru máli. Við gerð viðmiðanna eru tekin mið af lýsingum og skilgreiningum á ritun í Evrópurammanum (CEFR, 2020). Gerð þessara viðmiða er hluti af stærra verkefni, HVIN-verkefnisinu, sem hefur að markmiði að útbúa stöðupróf í íslensku sem öðru máli. Í þessum áfanga verkefnisins eru áætluð þrjú skref: 1) viðmið útbúin, 2) matsmenn þjálfaðir, og 3) mat á textum nemenda í íslensku sem öðru máli.  Fyrst verður farið yfir þá þætti í Evrópurammanum sem þarf að hafa í huga við mat á ritun í öðru máli, þeir vegnir og metnir. Þá verður fjallað um aðra þætti sem gætu sagt eitthvað til um tileinkunarstigið og einfaldað störf matsmanna, s.s. fjöldi frávika og eðli þeirra (bæði málfræði- og stafsetningarfrávika), lengd textans, meðallengd setninga og orða, tíðni undirskipaðra setninga, orðmyndun o.fl. 

Undanfarna mánuði hefur farið fram þróunarvinna í samstarfsverkefni á vegum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands sem hefur það að markmiði að fjölga nemendum af erlendum uppruna í háskólanám sem kennt er á íslensku. Frá og með haustinu 2024 verður boðið upp á 240 eininga BA-nám í völdum greinum við Háskólann á Akureyri, þar sem 60 einingar munu verða kenndar við Háskóla Íslands í íslensku sem öðru máli.  

Í þessu erindi verður fjallað um þá vinnu sem átt hefur sér stað við að þróa þau sex tíu eininga námskeið sem kennd verða við Háskóla Íslands. Meðal spurninga sem liggja þessu verkefni til grundvallar eru hvernig hægt sé að gera nemendur með annað móðurmál í stakk búna til að stunda háskólanám á íslensku og hvað þurfi að hafa því til hliðsjónar. Við vinnuna hefur verið tekið mið af þeim námsleiðum sem nú þegar eru til staðar í íslensku sem öðru máli innan Háskóla Íslands og þeirri reynslu sem þar hefur skapast, athugað hvað sé hægt að gera á svipaðan hátt og að hvaða leyti þessi nýi nemendahópur kalli á nýja nálgun.  

Gert er ráð fyrir að nemendur muni hafa ákveðinn grunn í íslensku þegar þeir hefja nám en þá er spurt hvernig hægt sé að byggja ofan á þá þekkingu, gera nemendurna færa um að skilja og tjá sig í rituðu og töluðu máli og kenna þeim aðferðir til að verða sjálfstæðir málnemar. Meðal þess sem stuðst hefur verið við eru Evrópski tungumálaramminn og lýsikvarðar hans, sem og listar yfir íslenskan námsorðaforða.