Óravíddir Máls og tækni

Image

Óravíddir Máls og tækni

Í Árnagarði 201 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.

Á þessari málstofu verður fjallað um valin verkefni sem nýverið hafa staðið yfir á vegum rannsóknarstofunnar Máls og tækni en þar spila saman málvísindi og máltækni á ýmsa vegu. Fjallað verður um nýtt verkefni á sviði lífsleiðarbreytinga sem styrkt er af Evrópska rannsóknaráðinu, ERC, bæði með almennri umfjöllun um verkefnið og svo sértækar niðurstöður. Í þessu verkefni er félagsmálfræðilegum aðferðum beitt til að rannsaka málnotkun þingmanna á löngu tímabili. Rannsóknir á einkennum íslensku sem annars máls verða kynntar í erindi og einnig verður fjallað um nýtingu máltækni í greiningu á taugahrörnunarsjúkdómum en ný íslensk heilabilunarmálheild er nú að verða að veruleika.

Fyrirlestrar

Lífsleiðarbreytingar eru breytingar sem verða á málnotkun einstaklinga eftir því sem árin líða og þær geta átt sér ólíkar skýringar. Í haust fékkst stór styrkur frá Evrópska rannsóknaráðinu til að rannsaka lífsleiðarbreytingar í íslensku og í þessu erindi verður fjallað um þetta verkefni sem nú er að fara af stað. Rakið verður hvernig fyrri rannsóknir höfundar og  ýmissa meðhöfunda leiddu til þessarar þróunar og efnið sett í samhengi við lífsleiðarbreytingar sem rannsakaðar hafa verið af félagsmálfræðingum erlendis. Fjallað verður um hvernig íslenskt málsamfélag er að sumu leyti einkar hentugt til að varpa ljósi á eðli svona málbreytinga og þau tækifæri rakin sem felast í sérstöðu Íslands að þessu leyti. Þá verður talað um muninn á því þegar ákveðin málnotkun tengist aldursskeiðum í samfélaginu almennt og því þegar málhafar annaðhvort taka þátt í málbreytingum í samfélaginu eða taka stefnuna gegn þeim. Þetta verður svo borið saman við málbreytingar sem tengjast atburðum í lífi fólks frekar en almennum alhæfingum um samfélagið en þessi síðastnefnda gerð lífsleiðarbreytinga er sérstakt áhersluatriði í þessari nýju rannsókn. 

Rannsóknir á lífsleiðarbreytingum hafa m.a. leitt í ljós að notkun formlegra tilbrigða getur tengst ytri aðstæðum á borð við aldur og félagslega stöðu fólks. Á síðustu árum hafa komið fram vísbendingar um að notkun formlegra tilbrigða í íslensku, s.s. stílfærslu, sé tengd við atburði sem verða í lífi fólks og að þannig séu sumir atburðir líklegir til að valda því að fólk dragi úr notkun stílfærslu en aðrir líklegir til að valda því að fólk auki notkun stílfærslu. Þetta hefur verið tengt við stöðu einstaklinga á málmarkaðnum (e. Linguistic Marketplace) og tengist líklega einnig sköpun sjálfsmyndar (e. Identity; Persona) einstaklinga (sjá t.d. Ara Pál Kristinsson 2021, Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason væntanlegt). 

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um nýjar rannsóknir sem útvíkka þessa aðferðafræði þar sem fleiri þingmenn verða skoðaðir og rætt verður hvert slík rannsóknarvegferð leiðir okkur.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um einkenni íslensku sem annars máls með sérstaka áherslu á getustig samkvæmt CEFR-tungumálarammanum og notkun gagnagrunna til að greina frá getustigi nemenda. Greint verður frá því hvernig MA rannsókn höfundar hefur sýnt fram á möguleikann á að skilgreina getustig nemenda út frá tungumálaeinkennum unnum úr textamálheild. Kynnt verður hvernig villumálheildin (IceL2EC) hefur verið nýtt til að skilgreina færnistig í íslensku og hvernig slík gögn geta stuðlað að þróun sjálfvirka flokkunartækja fyrir texta. Fyrirlesturinn sýnir fram á gildi þverfaglegrar nálgunar í máltækni, gagnamálfræði og annarsmálsfræði og mikilvægi gagnagrunna í greiningu íslensku sem annars máls. Unnið er að því að þróa nýtt máltæknitól sem getur spáð fyrir um færni á CEFR-skala með mikilli nákvæmni, stuðlað að auknu tungumálanámi meðal innflytjenda og skapað grunn fyrir markvissa kennslu.

Taugahrörnunarsjúkdómar, á borð við Alzheimer, sem valda stigvaxandi heilabilun, hafa ekki aðeins áhrif á minni og vitsmunagetu. Einnig geta einkenni komið fram í breytingum á tali og málnotkun. Hraðar framfarir í máltækni á sviði sjálfvirkrar málgreiningar hafa sýnt fram á að hægt sé að nýta málsýni fólks sem verkfæri í greiningu á fyrstu stigum Alzheimer. Hingað til hafa þessar framfarir átt sér stað í mestum mæli í ensku samhengi. 

Rannsóknin Mat á vitrænni hnignun með sjálfvirkri málgreiningu leitast við að brúa þetta bil fyrir íslenskumælandi samfélag. Starfsfólk rannsóknarstofunnar Mál og tækni hefur ásamt fleirum unnið að verkefninu síðan 2021. Tilgangur þess er að samþætta máltækni, vélrænt nám og taugavísindi með það að markmiði að þróa frumgerð talgreiningarkerfis sem mun seinna nýtast fagaðilum í heilbrigðiskerfinu til að greina og fylgjast með vitrænni hnignun vegna taugahrörnunar og forstigum heilabilunar, áður en veikindi ágerast.

Fjallað verður um verkefnið í heild með áherslu á aðferðafræði við gagnasöfnun, þátttakendasöfnun, málsýni og uppritun málsýna. Sagt verður frá afrakstri þessarar gagnasöfnunar, væntanlegri íslenskri heilabilunarmálheild sem verður seinna gerð opinber og aðgengileg öðru rannsóknarfólki. Málheildin mun innihalda uppskrifuð málsýni frá íslenskumælandi einstaklingum á aldrinum 60–80 sem greinst hafa með mismunandi stig heilabilunar.