Sagnir í sögu og samtíð
Sagnir í sögu og samtíð
Í Árnagarði 201 laugardaginn 8. mars kl. 10:00-14:30.
Í málstofunni verður hugað að miðmynd og andorsakarsögnum, m.a. með tilliti til fallfestu og fallglötunar. Rætt verður um merkingu lokins horfs og staða sagnarinnar innan setningar verður athuguð. Jafnframt verður litið til veðurs.
Fyrirlestrar
Bent hefur verið á að í íslensku megi finna fimm flokka andorsakarsagna þar sem frumlag áhrifslausu sagnarinnar samsvarar andlagi hliðstæðrar áhrifssagnar (Sigríður Sæunn Sigurðardóttir og Þórhallur Eyþórsson 2022, 2025). Í þessu erindi verður fjallað um tvo þessara flokka. Flokkarnir eiga það sameiginlegt að andorsakarsögnin er formlega eins og sambærileg áhrifssögn. Það sem aðgreinir flokkana er hvort frumlag andorsakarsagnarinnar varðveitir fall andlags áhrifssagnarinnar (1b) eða ekki (2b).
(1) a. Stormurinn blés strompinn af húsinu.
b. Strompinn blés af húsinu.
(2) a. Saumakonan minnkaði peysuna.
b. Peysan minnkaði.
Rætt verður um andorsakarsagnir á borð við (1b) og (2b) í sögulegu ljósi með hliðsjón af öðrum flokkum andorsakarsagna. Loks verður greint frá áhrifum nefnifallshneigðar og uppkomu nýrra sagna á stærð þessara flokka.
Í þessu erindi verður fjallað um hugmyndir Kjartans Gyðu- og Ottóssonar (1956–2010) um miðmyndarsagnir (st-sagnir) í íslensku (m.a. 1986a,b, 1992, 2008, 2013). Í því samhengi verður staldrað við tvennt. Annars vegar er það spurningin hvort myndun st-sagna varði beygingu, orðmyndun eða setningafræði – eða kannski allt af þessu. Hins vegar er hugað að greiningu Kjartans á merkingu miðmyndarsagna, sérstaklega þeirri tegund sem hann kallaði „andorsakarsagnir“ (e. anticausatives) sem tjá atburð sem á sér stað án ytri geranda. Setningafræðilega hegða slíkar sagnir sér þannig að frumlag áhrifslausrar sagnar, þ.e. andorsakarsagnar (1b), samsvarar andlagi hliðstæðrar áhrifssagnar (1a).
(1) a. Jóna opnaði dyrnar.
b. Dyrnar opnuðust.
Að brautryðjandastarfi Kjartans undanskildu var hugtakið andorsakarsögn lengi vel lítið notað í skrifum um íslenskt mál. Það kemur t.d. ekki fyrir í grundvallarritum Höskuldar Þráinssonar um íslenska setningafræði (2005, 2007). Þó hafa nokkrir fræðimenn beitt hugtakinu í umfjöllun um íslensku, m.a. Jóhannes Gísli Jónsson (2011), Michela Cennamo, Þórhallur Eyþórsson og Jóhanna Barðdal (2015), Jim Wood (2014) og Margrét Jónsdóttir (2018). Hér verður í lokin sérstaklega skýrt frá skrifum Sigríðar Sæunnar Sigurðardóttur og Þórhalls Eyþórssonar (2022, 2025) sem skipta andorsakarsögnum í fimm flokka sem þau telja virka á ólíkum tímabilum íslenskrar málsögu.
Þótt veðurfarssagnir í íslensku standi oftast án tilvísandi nafnliðar (sbr. Það rigndi í gær) sýnir rannsókn Sigríðar Sæunnar Sigurðardóttur og Þórhalls Eyþórssonar (2016, 2019) að margar veðurfarssagnir geta tekið með sér tilvísandi frumlag. Algengasta fallið á frumlaginu er nefnifall (Vindurinn kólnaði, Norðanáttinn blæs á móti) en þolfall er líka býsna algengt, a.m.k. í formlegu máli (Storminn lægir, Daginn birtir). Þágufall er hins vegar sjaldgæft og kemur helst fyrir með rigna og snjóa í yfirfærðri merkingu (Kannski rignir froskum). Miðað við það sem vitað er um samspil setningafræði og merkingarfræði í tungumálum heims er harla ólíklegt að merkingarþættir sem tengjast veðri, eins og t.d. birtustig eða úrkoma, hafi áhrif á fallstjórn veðurfarssagna. Í þessum fyrirlestri verður því reynt að útskýra fallstjórnina með tilvísun til almennra reglna sem eiga við um íslenska fallakerfið í heild og tengjast ekki veðurfarssögnum sérstaklega. Þar verður sérstaklega horft til þess að ýmsar hömlur gilda um aukafallsfrumlög í íslensku (Jóhannes Gísli Jónsson 2003) og einnig þess að verknaðargerð sagnarinnar skiptir máli því breytingasagnir sem stýra þágufalli fela yfirleitt í sér náttúrulegan endapunkt (Jóhannes Gísli Jónsson 2009).
Í fyrirlestrinum verður rætt um sögnina blása sem er áhrifslausa náttúrufarssögn (veðurfarssögn), nánar tiltekið vindsögn í hreyfingarmerkingu; sögnin er andorsakarsögn. Aðaláherslan er á fall frumlagsins, nafnliðarins, sem getur verið í þágufalli (og samsvarar því andlagi áhrifssagnarinnar blása) enda merkingarskilyrði fyrir hendi: lýst er e-u sem er handan mannlegrar stjórnar og frumlagið, merkingarlegt þema, er af náttúrulegum toga, efniskennt sem óefniskennt. Lýst er láréttri hreyfingu burt frá e-u en yfirleitt án endapunktar. Þetta má t.d. sjá hér:
(1) Þá blés öskunni ekki yfir flugvöllinn heldur inn yfir landið.
(2024)
Í hreyfingarmerkingu tekur blása ekki aðeins með sér frumlag í þágufalli heldur einnig í þolfalli (sjaldgæft) og nefnifalli sem er algengast. Einu gildir hvert fallið er, merkingarmunurinn er enginn. Með leppfrumlagi (það) getur frumlagið líka verið í þágufalli.
(2) Það rignir og __ blæs heitu úr suðaustri.
(dv.is 4. september 2010/Rmh.)
Sögnin blása vísar ekki aðeins til hreyfinga náttúrunnar heldur líka bæði til aukins umfangs eða stækkunar (breytingarmerking) og landeyðingar. Atviksorðin upp eða út fylgja þá oft sögninni. Frumlagið getur verið í þolfalli sem er líklega það eldra, eða nefnifalli sem er algengast. Sjá t.d. bátinn/báturinn blés upp (út), dysina/dysin blés upp . Þágufallsfrumlag er hins vegar útilokað.
Sjónarhornið er jafnt samtímalegt sem sögulegt. Dæmi um þágufallsfrumlag með blása gætu náð aftur til 17. aldar. En sé litið til annarra eðlisskyldra sagna sem taka með sér þágufallsfrumlag gæti það verið miklu eldra.
Eitt af mörgum setningafræðilegum fyrirbærum sem einkenna Norðurlandamálin er svokallað andlagsstökk. Hugtakið vísar til færslu andlags fram fyrir setningaratviksorð, en slík færsla er ýmist skyldubundin (1a) eða valfrjáls (1b) í íslensku:
(1) a. Ég sá {'ann} ekki {*'ann} ('ann = áherslulausa persónufornafnið hann)
b. Ég sá {bílinn} ekki {bílinn}
Andlagsstökk hefur verið rannsakað töluvert í máli fullorðinna Íslendinga en þróun þess í máli íslenskra barna hefur lítið verið rannsökuð hingað til. Í þessu erindi verður kynnt sænsk-íslenska rannsóknarverkefnið: Þróun andlagsstökks í máltöku norðurgermanskra barna, en það er styrkt af sænska vísindaráðinu 2024-2026. Markmið þess er að kanna og bera saman þróun andlagsstökks í máli sænskra og íslenskra barna.
Niðurstöður rannsókna benda til að íslensk börn nái valdi á andlagsstökki miklu fyrr en sænsk og norsk börn. Þannig virðast flest 5-7 ára sænsk og norsk börn enn ekki hafa náð fullu valdi á andlagsstökki en það virðast mörg 3-4 ára íslensk börn hafa gert. Í erindinu verður fjallað um líklegar ástæður þessarar mismunandi þróunar andlagsstökks í máltöku íslenskra og sænskra/norskra barna auk þess sem sýnd verða dæmi úr tilraunahluta ofangreinds rannsóknarverkefnis þar sem íslensk og sænsk börn verða fengin til að mynda setningar þar sem andlagsstökk er skyldubundið.
The current study reports on the results obtained from an online questionnaire investigating the acceptability of the subject-initial V3 order in different types of Icelandic adverbial clauses. According to Haegeman (2003)’s and Frey (2012)’s typology, three types of adverbial clauses should be distinguished: central adverbial clauses (CACs), peripheral adverbial clauses (PACs) and non-integrated adverbial clauses (NON-ICs). They showed that, in addition to the semantic distinctions, these
ACs exhibit distinctive properties both in their internal and external syntax. In terms of their internal syntax, central adverbial clauses (CACs) resist main clause phenomena (MCPs) such as argument fronting while peripheral adverbial clauses (PACs) permit some of them. NON-ICs are argued to be fully independent from the host clause, can perform a separate speech act and allow a wider range of MCPs than PACs and CACs do. Based on this, one might postulate that different adverbial clauses (ACs) may behave differently with regard to subject-initial V3 in Icelandic. Results from the acceptability judgment data suggest that the NON-ICs indeed received lower overall rating than the other two types. However, very little difference was observed between CACs and PACs.
References
Frey, W. (2012). On two types of adverbial clauses allowing root-phenomena. In Main clause phenomena (pp. 405–430). John Benjamins.
Haegeman, L. (2003). Conditional clauses: External and internal syntax. Mind & Language, 18(4), 317-339. doi: https://doi.org/10.1111/1468-0017.00230
Í íslensku er lokið horf gjarnan táknað með hjálparsögninni hafa og lýsingarhætti þátíðar (eða sagnbót).
(1) a. Ég hef aldrei séð annað eins.
b. Þegar ég hafði talið upp í hundrað fór ég að leita.
c. Eftir að hafa lent undir skoraði liðið þrjú mörk í röð.
Nokkuð hefur hins vegar borið á því að sögninni hafa sé sleppt í nafnháttarsetningum sem fylgja eftir í dæmum eins og (1c). Þetta er sýnt í (2).
(2) Eftir að lenda undir skoraði liðið þrjú mörk í röð.
Þetta gerist hins vegar ekki í dæmum á borð við (1b), sjá setninguna í (3):
(3) Þegar ég taldi upp í hundrað fór ég að leita.
Setningin í (3) merkir ekki það sama og setningin í (1b). Hins vegar virðist (2) merkja það sama og (1c). Þannig virðist (2) hafa merkingu lokins horf án þess að hafa form þess. Við veltum fyrir okkur hvers vegna svo sé og athugum hvort þetta sé algilt um setningar af þessu tagi. Við skoðum einnig fleiri gerðir af nafnháttarsetningum sem hafa lokið horf og athugum hvort og hvenær hægt er að sleppa hjálparsögninni hafa án þess að merkingin breytist.