Sendibréf: Efni og tjáningarform, varðveisla og útgáfa
Sendibréf: Efni og tjáningarform, varðveisla og útgáfa
Í Odda 202 laugardaginn 9. mars 13:00-14:30.
Málstofan fjallar um sendibréf, varðveislu þeirra, merkingu og heimildagildi. Fyrr á árum, fyrir símann, tölvurnar og alnetið, voru sendibréf ein helsta samskiptaleiðin milli fólks sem dvaldist hvert fjarri öðru. Aðeins brot af öllum þessum bréfum er varðveitt og lengi voru sagnfræðingar gagnrýnir á notkun þeirra. Viðhorf þeirra hafa þó breyst eftir að grasrótarsaga og einsaga urðu vinsæl viðfangsefni í sagnfræði. Bókmenntafræðingar hafa hins vegar lengi notað bréf sem heimildir, ekki síst í skrifum sínum um ævir rithöfunda. Bréfasöfn rithöfunda hafa verið gefin út hér á landi og erlendis. Í málstofunni verða viðhorf safna til varðveislu bréfa tekin til umfjöllunar og rædd tvö dæmi um söfn einkabréfa, efni þeirra og tjáningarform og aðferðafræði við útgáfu þeirra.
Fyrirlestrar
Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns berst árlega nokkur fjöldi einkaskjalasafna sem mörg hver innihalda bréfasöfn. Þau eru misstór að vöxtum og koma úr ýmsum áttum, frá þjóðþekktum einstaklingum en einnig frá „venjulegu“ fólki. En vill safnið öll þessi bréfasöfn? Er pláss fyrir þetta allt og er ástæða til að varðveita öll bréf eða er eitthvað merkilegra en annað? Ræður hendingin ein ef til vill helst hvað varðveitist og hvað ekki? Í fyrirlestrinum verður fjallað um varðveislu bréfasafna, sagt frá því hvað ræður því helst að þau rati á skjalasöfn og hvað ber að hafa í huga þegar ákveðið er hvað skal gera við slík söfn.
„Hér um kvöldið var ég að láta mig vilja til í Hundrað bestu ljóð á íslenska tungu og kom niður á þessu kvæði Hannesar Hafstein, Fuglar í búri: „Ó, hve mig tekur það sárt að sjá / saklausu fuglana smáu.“ Það er vitlaust að taka nokkuð mark á þess háttar en þó kemur það stundum svo einkennilega við. Og er ég ekki eins og fangi, fangaður fugl sem ekkert tjáir fyrir að berja vængjunum, fangi tilfinninga minna, utanaðkomandi atvika og ástæðna.“
Þannig skrifaði Ingunn Sigurjónsdóttir (1906–1931) í dagbók sína 5. október 1926, þá berklasjúklingur á Vífilsstaðahæli. Í fyrirlestrinum verður fjallað um bréf Ingunnar til foreldra sinna og systkina sem enn eru varðveitt, einkenni þeirra og mismuninn á þeim eftir því við hvert þeirra hún er að skrifast á. Jafnframt verða bréfin borin saman við dagbókarbrot hennar frá árinu 1926 og leitast við að lesa úr þessum sjálfsheimildum (egodocuments) hverrar gerðar Ingunn var og hvernig hún tók frelsisskerðingunni sem dvöl á berklahælum óneitanlega var.
Á stríðsárunum 1939–1945 var faðir minn, Bruno Kress (1907-1997) í rúm fjögur ár fangi í fangabúðum Breta, lengst af á eyjunni Mön í Írlandshafi, tekinn eftir nokkra leit á heimili sínu, Laufásvegi 10, árla morguns 8. júlí 1940 og fluttur ásamt hópi annarra Þjóðverja á skip. Á þessum árum skrifaði hann eiginkonu sinni, Kristínu Thoroddsen (1904–1988) og barnungri dóttur fjölmörg bréf, að jafnaði eitt á viku, 24 línur hvert, ritskoðuð og „censored by examiner“. Af þessum bréfum hafa um 150 varðveist, önnur því miður glatast. Í þeim segir hann frá lífinu sem fangi innan gaddavírs, aðbúnaði og skipulagi, samskiptum við samfanga og bresku verðina, póstsendingum og erfiðum póstsamgöngum. Í fyrirlestrinum verður rýnt í bréfin sem texta, bréfsefnin sem hann í fásinninu var oft í vandræðum með, orðræðu þeirra og endurtekin þemu. Í september 1944 var hann fluttur til Þýskalands í fangaskiptum og átti ekki afturkvæmt til fjölskyldu sinnar á Íslandi, neitað um landvistarleyfi af íslenskum yfirvöldum.
Úlfar Bragason segir frá málstofunni „Sendibréf: Efni og tjáningarform, varðveisla og útgáfa“, þar sem fjallað verður um sendibréf, varðveislu þeirra, merkingu og heimildagildi. Í Odda 202 laugardaginn 9. mars 13:00-14:30