Setningafræði eldri og yngri íslensku

Í Lögbergi 103 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00. Smellið hér til að fylgjast með í streymi. Streymið hefst kl. 13:45.

Í þessari málstofu verða margvíslegar glænýjar rannsóknir á íslenskri setningafræði kynntar, bæði í nútímamáli og eldra máli. Erindin eru mjög fjölbreytt; helstu viðfangsefni eru tengingin SEM AÐ, leppsetningar, samband setningafræði nafnliða og hljómfalls, setningafornöfn, andlagsstökk og þyngdaráhrif nafnliða, nýjar sagnir og rökliðagerð þeirra og forsendur málbreytinga í forníslensku.

Fyrirlestrar

Í kennslubókum og leiðbeiningaritum um íslenskt mál er nokkrum sinnum vikið að notkun samtengingarinnar sem með , þ.e. sem að. Björn Guðfinnsson sagði t.d. að varast bæri að bæta aukaorðinu aftan við sem. Í BÍN er kveðið fast að orði: „Rétt mynd af samtengingunni er sem, ekki sem að.“ Í Málfarsbankanum kveður við annan tón en þar er mælt með sem „í rituðu máli (og formlegu tali)“, síður sem að. Þar er , þ.e. sem að, því ekki útilokað.

Notkun með sem, þ.e. sem að, er gömul, sbr. t.d. þýðing Odds á Nýja testamentinu (1540) og Guðbrandsbiblía (1584). Elstu öruggu dæmin eru frá um 1500 (fornbréf) en eldri dæmi eru að öllum líkindum til.

Hér er litið svo á að sem að sé tvíyrt tenging þar sem marki aukasetninguna enn frekar. Í fyrirlestrinum verður saga sem að rakin með tilliti til aldurs og í hvers konar samhengi það birtist, hvert hlutverkið er. Dæmin eru fyrst og fremst úr rituðu máli en ung talmálsdæmi koma einnig við sögu. Viðfangsefnið verður jafnframt skoðað í samanburði við önnur sambönd sem löngum hafa getað verið tvíyrt, t.d. ef að, hvort að og þegar að.

Venjulega er talið að fyrstu skýru ummerkin um leppsetningar í íslensku séu frá því um 1500 (sjá Eirík Rögnvaldsson 2002). Nýlega hefur Hanna Booth haldið því fram að leppurinn það hafi skotið upp kollinum þegar í forníslensku (Booth 2018, 2019; sjá líka Eirík Rögnvaldsson 2002). Markmið þessa erindis er að sannreyna þessa staðhæfingu og hrekja hana. Ég tek til varna fyrir þá hefðbundnu skoðun að engar ótvíræðar vísbendingar séu um leppinn fyrr en á síðari hluta 15. aldar en þá sést hann í þýðingum, einkum úr miðlágþýsku og miðensku. Booth viðurkennir raunar að það í forníslensku sé oftast fornafn sem vísi til undanfara eða einhvers sem fer á eftir í textanum. Engu að síður staðhæfir hún að það sé ekki vísandi í öllum tilvikum og þar að auki sé unnt að greina þróun þar sem þetta fyrirbæri birtist æ oftar í fyrsta sæti í setningu. Við nánari skoðun á þeim gögnum sem liggja þessu áliti til grundvallar kemur í ljós að þau eru oftar en ekki mistúlkuð; einkum og sér í lagi er þar ekki hugað nægilega vel að því samhengi sem dæmin koma fyrir í. Í stuttu máli: Það er enginn skýr vitnisburður um leppsetningar í forníslensku.

 

Heimildir

Booth, Hannah. 2018. Expletives and Clause Structure: Syntactic Change in Icelandic. Dokorsritgerð, Háskólinn í Manchester.

Booth, Hannah. 2019. Cataphora, expletives and impersonal constructions in the history of Icelandic. Nordic Journal of Linguistics. Special Issue: New Perspectives on Diachronic Syntax in North Germanic 42(2), 139–164.

Eiríkur Rögnvaldsson. 2002. Það í fornu máli og síðar. Íslenskt mál 24:37–69.

Í þessum fyrirlestri verður hugað að sambandi setningafræðilegra og hljóðkerfisfræðilegra sviða. Oft hefur því verið haldið fram að ómögulegt sé að leiða út hljóðkerfisfræðileg svið frá setningafræðilegum sviðum á grundvelli misræmis þar á milli sem kemur upp við ákveðnar aðstæður (sjá t.d. Selkirk 2011; Cheng & Downing 2016; Bonet o.fl. 2018). Þar er oft vísað til mismunandi hegðunar nafnliða þegar kemur að myndun sviða með öðrum einingum innan setningarinnar. Hér er því hins vegar haldið fram að þegar nafnliðaformgerð er skoðuð er hægt að gera grein fyrir misræmi í hegðun nafnliða þegar kemur að myndun hljóðkerfisfræðilegra sviða: Þegar nafnorðið færist efst í nafnliðaformgerðina færist það jafnframt upp í næsta mögulega svið (bæði setningafræðilegt og hljóðkerfisfræðilegt). Ef nafnorðið færist ekki, er það innan síns sviðs í nafnliðaformgerðinni og er þar með aðskilið frá öðrum hlutum setningarinnar.

Ábendingarfornafnið það gegnir oft hlutverki setningafornafns í íslensku, þ.e. það kemur fram á undan fallsetningu eins og í eftirfarandi dæmi: Sara ákvað það að heimsækja Maríu. Þetta fyrirbæri er frekar algengt þvert á tungumál en misjafnt er hvort það sé ábendingarfornafn sem innleiðir fallsetningar, greinir (eins og í nýgrísku) eða persónufornafn (eins og í ensku). Aðalspurningin í sambandi við slíkan fjölbreytileika er sú hvort það séu einhver skilyrði sem ákvarða hvaða orð sérstaklega er valið í tungumálum til að vera setningafornafn. Í fyrirlestrinum er lagt til í ljósi íslensku og erlendra mála að notkun ábendingarfornafna eða greinis á undan fallsetningum sé helst möguleg í tilteknu tungumáli þegar fráfærsla fallsetningar er ekki skyldubundin, en ábendingarfornafn kemur fram til að innleiða fallsetningu ef greinir er ekki í tungumálinu eða ef hann er ekki frjálst myndan. Hins vegar koma persónufornöfn helst fram í stað greinis eða ábendingarfornafns þegar fráfærsla fallsetningar er skyldubundin.

Þyngdaráhrif eru vel þekkt fyrirbæri í setningafræði og hafa þau oft verið nefnd í tengslum við andlagsstökk í íslensku. Almennt er talið að til að nafnliður geti færst með andlagsstökki, verði viðkomandi nafnliður að vera „léttur“, eins og í (1c):

(1)      

a. Ég las [aldrei] [bókina sem þú gafst mér á jólunum í fyrra].

b. ?*Ég las [bókina sem þú gafst mér á jólunum í fyrra] [aldrei].

c. Ég las [aldrei] [þessa bók]/[þessa bók] [aldrei].

d. Ég las **[aldrei] [hana]/[hana] [aldrei].

Grundvallarstaða andlagsins í íslensku sést í (1a) þar sem andlagið kemur á eftir setningaratviksorðinu aldrei. Eins og (1b) gefur til kynna er erfitt að færa þunga andlagið til vinstri yfir neitunina en dæmin í (1c) sýna að þessi orðaröð er eðlileg ef andlagið er ákveðinn, léttur nafnliður. Eins og (1d) sýnir verður áherslulaust persónufornafn alltaf að færast til vinstri með andlagsstökki enda getur það ekki staðið á upprunastað. Þyngdaráhrif á andlagsstökk hafa aldrei verið rannsökuð kerfisbundið enda eru til margar ólíkar skilgreiningar á setningafræðilegri þyngd. Í þessu erindi verður sagt frá niðurstöðum dómaprófs og framköllunarprófs þar sem andlagsstökk er skoðað út frá ólíkum skilgreiningum á þyngd, þ.e.a.s. orðafjölda, flækjustigi og hlutfallslegri þyngd.

Þessi fyrirlestur byggir á hluta niðurstaðna úr nýlegri MA-ritgerð minni. Mikið er um nýjar sagnir í íslensku sem oft eru tökuorð úr ensku. Dæmi um slíkar sagnir eru googlea, forwarda og sharea svo dæmi séu tekin. Stundum lítur út fyrir að rökliðagerðir nýrra sagna byggi á rökliðagerð merkingarlega hliðstæðrar sagnar sem er eldri í málinu. Hér verða færð tvenn rök fyrir því að rökliðagerðir nýrra sagna byggi ekki alltaf á merkingarlegri hliðstæðu. Annars vegar er rökliðagerð nýrrar sagnar oft ekki sú sama og rökliðagerð þeirrar sagnar sem er merkingarlega skyldust henni. Hins vegar virðast hömluáhrif (e. blocking effect) hindra það að nýjar sagnir nái fótfestu í málinu ef þær eiga sér nákvæma hliðstæðu með tilliti til merkingar, rökliðagerðar og notkunarsviðs. Þá koma hömluáhrif í veg fyrir að ný og gömul sögn komi fyrir í sama málkerfi þar sem þær þjóna nákvæmlega sama tilgangi.

Í fyrirlestrinum ræðum við hvort hægt sé að skýra löngu yfirstaðnar málbreytingar (t.d. nf.ft. dalardalir) með nútímalíkönum sem notuð eru til að rannsaka nýjungar í máltöku barna. Við skoðum eitt slíkt líkan, þolmarkalögmálið sem máltökufræðingurinn Charles Yang hefur sett fram, og leyfum okkur að nálgast viðfangsefnið þannig að málheild fornrita (m.a. Íslendingasagnanna) sé ílag barns sem er að læra forníslensku. Þá spyrjum við: Hverju spáir þolmarkalögmálið og reynast spádómarnir réttir?