Sjálfstæðiskonur og saga 20. aldar

Image

Sjálfstæðiskonur og saga 20. aldar

Í Veröld 008 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.

Í þessari málstofu verður rætt um sjálfstæðiskonur á Íslandi á 20. öld og hlutverk þeirra í sögunni. Sérstaklega verður sjónum beint að varðveislu frumheimilda og stöðu þekkingar á stjórnmálastarfi hægri kvenna á Íslandi. Þá verður bæði fjallað almennt um framlag sjálfstæðiskvenna til íslenskra stjórnmála en eins verður horft sérstaklega til tveggja áhrifamikilla stjórnmálakvenna úr Sjálfstæðisflokknum, þeirra Ragnhildar Helgadóttur og Guðrúnar Pétursdóttur.

Fyrirlestrar

Sumarið 1951 settu deilur um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna svip á starfsemi kvennahreyfingarinnar á Íslandi. Segja má að allt hafi logað í illdeilum og lenti Guðrún Pétursdóttir, formaður Kvenfélagasambands Íslands, og móðir Bjarna Benediktssonar þáverandi utanríkis- og dómsmálaráðherra, óvænt í þeim miðjum. Í erindinu er sagt frá störfum Guðrúnar innan kvennahreyfingarinnar, fjölskyldu hennar og heimili á Skólavörðustíg. Þá verður rakin atburðarás sem hófst í maí 1951 er varnarsamningurinn var undirritaður og til átaka kom á fundi Kvenréttindafélagsins tveimur dögum síðar. Guðrún varð fyrir árásum í greinum í Þjóðviljanum næstu mánuði og róttækar konur stofnuðu nýtt kvenfélag, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK). Guðrún var virk í sjálfstæðisbaráttunni og beitti sér í réttindabaráttu kvenna, hún var talsmaður einstæðra mæðra og lengi formaður Mæðrastyrksnefndar. Hún átti fyrirmyndir í Þorbjörgu Sveinsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur sem kenndi henni á æskuheimilinu í Engey. Guðrún var virk í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins en lagði alltaf áherslu á að starf kvenfélaga væri ópólitískt.

Ragnhildur Helgadóttir var fyrst kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1956, þá 26 ára gömul, gift og tveggja barna móðir. Tveimur árum síðar varð hún fjórða konan sem lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands; hún varð fyrst kvenna til að gegna forsetastörfum á Alþingi árið 1960; hún var fyrst kvenna skipuð forseti Norðurlandaráðs árið 1975 og árið 1983 var hún önnur konan á Íslandi til að gegna ráðherraembætti. Hún er þekkt sem múrbrjótur og fyrirmynd á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Í erindinu munum við kynna rannsókn okkar á stjórnmálaferli Ragnhildar. Vinstra fólki fannst hún íhaldssöm og vissulega var hún bæði í hugsjónum og framkomu að mörgu leyti hin sígilda ímynd Sjálfstæðiskonunnar. En þegar rýnt er í störf hennar og helstu baráttumál kemur í ljós að þó svo að Ragnhildur hafi haldið hefðbundnum gildum á lofti, þá hafði hún innsýn í aðstæður kvenna af öllum stéttum og hikaði ekki við að tala af hispursleysi um mál sem þóttu viðkvæm.

Á Kvennasögusafni eru varðveitt ríflega 300 einkaskjalasöfn tengd kvennasögu, bæði einstaklinga og félagshreyfinga. Af þeim hafa skjöl Rauðsokkahreyfingarinnar og Kvennalistans vakið mesta athygli og verið mikið notuð, bæði vegna fræðilegra rannsókna sem og vegna almenns áhuga. Þá hafa bæði skjalasöfnin verið gerð að hluta aðgengileg rafrænt á undanförnum árum. Í erindinu verður leitast við að svara hvaða skjöl tengd stjórnmálastarfi kvenna eru varðveitt á safninu og hvort halli á hægri sinnaðar konur þegar kemur að afhendingu, varðveislu og aðgengi að skjölunum. Jafnframt verður athugað hvort skjöl kvenna til hægri í stjórnmálasögunni séu líklegri til að vera varðveitt í einkaeigu eða enda á öðrum skjalasöfnum og þá hvort skjöl kvenna af vinstri væng stjórnmálanna veljist frekar til Kvennasögusafns.

Sjálfstæðiskonur og saga 20. aldar

Rósa Magnúsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Anna Dröfn Ágústsdóttir og Rakel Adolphsdóttir segja frá málstofunni „Sjálfstæðiskonur á Íslandi á 20. öld“ sem haldin verður á Hugvísindaþingi 2024 í Veröld 008 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.