
Í Odda 106 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-16:15.
„Þetta sokkna land“ er vísun í ljóðabók Hauks Ingvarssonar Vistaverur og vekur til umhugsunar um samband bókmennta, lands og loftslagsbreytinga. Árið 2023 voru öll úrkomumet slegin í Danmörku og á Íslandi þurfti fólk ítrekað að flytja úr húsum sínum vegna hættu á aurskriðum. Þrátt fyrir að áhrif loftslagsbreytinga á bæði náttúru og samfélag séu með ólíku sniði í Danmörku og á Íslandi má sjá merki þess að þær þrengingar sem þær hafa í för með sér setji í auknu mæli mark sitt á bæði samfélagsumræðuna, sem og samtímabókmenntir og samtímalist í báðum löndum. Á Íslandi birtist náttúran okkur sem sterkt afl sem við þurfum oft á tíðum að verjast og takast á við en líka njóta og nýta, á meðan náttúran í Danmörku er berskjölduð og viðkvæm og þarfnast bæði afskipatleysis og inngripa mannsins. Í málstofunni verður varpað ljósi á birtingarmyndir náttúrunnar í bókmenntum og samtímalist í þessum nátengdu löndum og hvernig ólík upplifun af náttúrunni og áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi og í Danmörku hefur sett bæði mark sitt á íslenskar og danskar bókmenntir og listir.
Eftir að allir fyrirlesarar hafa lokið máli sínu verða 30 mínútna pallborðsumræður um samband manns og náttúru og birtingarmyndir þess í íslenskum og dönskum samtímabókmenntum og listum.
Málstofan fer fram á íslensku og dönsku.