Til hvers eru háskólar?

Image

Til hvers eru háskólar?

Í Veröld 007 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:00.

Háskólar eru undir auknum þrýstingi að sýna fram á gagn sitt og gildi fyrir samfélagið. Í tillögum að nýju reiknilíkani fyrir íslenska háskóla, sem mun innleiða árangurstengda fjármögnun háskólakerfisins, er fjórðungur ætlaður fyrir samfélagslegt hlutverk þeirra. Í tillögunni er erfitt að sjá hvað þessi hluti líkansins á að innihalda og hvaða mælikvarðar verða notaðir á árangur, en ætlunin er augljóslega að þróa mælikvarða fyrir samfélagsleg áhrif háskólanna. Gæðaráð íslenskra háskóla mun á næstu misserum leggja mat á hvernig háskólar sinna samfélagslegu hlutverki sínu, þar sem stuðst verður við dæmisögur sem sýna fram á þessi áhrif. Þróunin á Íslandi er því lík þeirri sem hefur átt sér stað víða í kringum okkur undanfarin ár og áratugi með aukinni áherslu á að háskólar, og aðrar stofnanir, sanni hvernig þeir gera samfélagið betra.

Í þessari málstofu munum við fjalla um samfélagslegt hlutverk háskólanna frá ýmsum sjónarhornum og tengja við pólitíska umræðu og þróun á Íslandi. Hvert er þetta hlutverk og í hverju liggur gildi háskóla fyrir samfélagið? Hver ákveður hvað telst vera mikilvægt og gagnlegt? Eru háskólar nauðsynlegir fyrir gagnrýna hugsun og heilbrigt lýðræði og ef svo er, hvers konar umhverfi þurfa þeir til að sinna þessu hlutverki sínu? Skapar áherslan á samfélagslegt hlutverk óheilbrigða spennu milli frjálsra rannsókna og kennslu, annars vegar, og pólitískrar stefnumótunar, hins vegar? Hvaða leiðir höfum við til að leggja mat á hversu vel háskólarnir sinna samfélagslegu hlutverki sínu og hvernig komum við í veg fyrir að nýtt matskerfi um samfélagsleg áhrif hafi vanhugsuð áhrif á stefnu háskóla og einstaklinga sem þar starfa? Er ekki eðlilegt að stjórnvöld geri þá kröfu til háskólanna að þeir hlúi að samfélagslegu hlutverki sínu og móti stefnu sína eftir því sem þeir telja mikilvægt hverju sinni?

Fyrirlestrar

Undanfarin ár hafa hugmyndir um borgaralegt og lýðræðislegt hlutverk háskóla orðið sífellt meira áberandi í fræðilegri umræðu. Slíkar áherslur sýna viðbrögð fræðasamfélagsins við þeim ógnum við lýðræði sem birst hafa víða um heim undanfarna áratugi. Í erindinu verður sagt frá rannsókn á því hvernig háskólastarf þiggur gildi sitt frá tengslum við lýðræðið. Byggt er á gögnum sem aflað var í rannsóknarverkefninu Háskólar og lýðræði - gagnrýnin greining á borgaralegu hlutverki háskóla, þar sem sjónum var beint að lýðræðislegu hlutverki háskóla með aðferðum heimspekilegrar greiningar en einnig með greiningu skjala og viðtölum við háskólakennara. Viðtalsgögnin voru hér skoðuð í ljósi greiningar Sigurðar Kristinssonar á lýðræðislegu gildi háskólastarfs og voru niðurstöðurnar nýttar til að þróa greininguna enn frekar.

Varpað verður fram spurningunni „Í hverju er gagnsemi háskólamenntunar fyrir samfélagið fólgin?“ og leitað svara við henni. Gagnsemishugtakið sjálft verður ígrundað og metið í ljósi ríkjandi skynsemisviðmiða. Jafnframt verður samfélagslegt gagn háskóla hugleitt með hliðsjón af skiptingu þjóðfélagsins í svið efnahags, menningar og stjórnmála. Leidd verða rök að því að brýnt sé að háskólamenntun efli færni sem geti gagnast á öllum þessum sviðum. Horfa þurfi sérstaklega til stjórnmálasviðsins sem hafi verið vanrækt miðað við hið efnahagslega og menningarlega. Það megi skýra út frá þröngum skilningi bæði á stjórnmálum, skynsemi og gagnsemi. Í ljósi samfélagsþróunar, sem einkennist meðal annars af upplýsingaóreiðu, tæknihyggju og viðskiptavæðingu á öllum sviðum, sé nauðsynlegt að endurmeta gagnsemi háskólamenntunar og þær leiðir sem farnar eru til að auka hana.

Samfélagsleg áhrif rannsókna eru iðulega rædd með jákvæðum formerkjum og gjarnan tengd við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á heimasíðu HÍ eru til dæmis talað um áhrif á sjálfbæra þróun, samfélög eða velferð einstaklinga og sagt að skólinn leitist við að auka jákvæð áhrif rannsókna í samfélaginu. Mikilvæg umræða á sér nú stað um mælikvarða og aðferðir við mat á samfélagslegum áhrifum en ekki er síður mikilvægt að ræða megintilganginn, þ.e. frá hvaða sjónarmiðum og fyrir hverja eru áhrifin ávinningur? Í erindinu verður spurt hvort umræðan endurspegli óskhyggju um þekkingu sem er óhlutdræg og óháð staðsetningu þar sem horft er fram hjá völdum og valdatengslum. Gagnrýnin hugsun og umræða er eitt af meginhlutverkum háskóla og samfélagsleg áhrif af gagnrýni fræðafólks geta verið ákveðnum aðilum óhagfelld. Fjallað verður um óvinsæl samfélagsleg áhrif gagnrýnna fræða með dæmum úr félagsvísindum. 

Síðustu áratugi hafa háskólar og sú menntun sem þeir bjóða upp á þurft í sífellt meira mæli að réttlæta gagnsemi sína. Þeirri kröfu er þó auðvitað ekki deilt jafnt, en hvað gera eigi svo með námið er spurning sem nemendur sumra fræðigreina þekkja mun betur en aðrir. Þessi krafa, um gagnsemi háskólamenntunar, virðist einungis verða háværari, ef marka má nýleg ummæli háskólamálaráðherra. Í erindinu mun ég leitast við að útskýra rætur þessarar hugmyndar um hlutverk háskólanna - að þeir þurfi að réttlæta gagnsemi sína - og sýna fram á að þetta sé afleiðing af mjög nýlegri hugmyndafræði sem er mjög framandi eldri hugmyndum um mikilvægi háskóla og hlutverks þeirra í samfélaginu. Það er ekkert samasemmerki milli gildis og gagnsemi - hlutir geta vel haft mikilvægt samfélagslegt gildi þrátt fyrir að gagnsemin sé ekki endilega augljós. Og öfugt: ekki hefur allt sem gagnlegt telst í dag endilega mikið gildi fyrir samfélagið. Í erindinu verður gildi og gagnsemi háskóla í samfélaginu rædd út frá hugmyndum John Henry Newman, Wendy Brown og fleiri fræðimanna um mikilvægi háskóla.

Kerfi sem sett eru upp til að meta rannsóknir við háskóla eru líkleg til að hafa áhrif á hvaða rannsóknir eru stundaðar og hvernig, enda er það markmið þeirra. Þetta á líka við um nýtt árangurstengt fjármögnunarlíkan sem ráðuneyti háskólamála hefur tekið upp. Hluti af líkaninu nær yfir „samfélagslegt hlutverk“ háskóla, en af kynningum á nýju líkani má ráða að það virðist enn eiga eftir að þróa aðferðir til að meta hvernig háskólar sinna þessu hlutverki. Í þessu erindi mun ég skoða kenningar um „samfélagsleg áhrif“ rannsókna, með áherslu á hugvísindi, og leiðir sem hafa verið farnar til að meta þessi áhrif. Það vill brenna við að aðgengilegir mælikvarðar stjórni því hvað er metið – sem hagfræðingurinn Amartya Sen kallar „mælikvarðablæti“ – en það er alls ekki gefið að til séu mælikvarðar á það sem við teljum samfélagslega mikilvægt. Þannig geta mælikvarðar sem notaðir eru í hvatakerfum haft neikvæð áhrif á starfsemi háskóla með því að afvegaleiða rannsóknir sem þar eru stundaðar. Ég legg því til að við beinum sjónum að „ábyrgum“ rannsóknum frekar en „áhrifum“ rannsókna og setjum rannsóknaferlið í forsæti frekar en mælanlegan afrakstur þess.

Eiríkur Smári Sigurðarson segir frá málstofunni „Til hvers eru háskólar?“ sem verður haldin í Veröld 007 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-16:00.