Viðtekin sannindi endurskoðuð: Áhrif sagnfræði og málfræði 19. aldar á fræði 21. aldar

Image

Viðtekin sannindi endurskoðuð: Áhrif sagnfræði og málfræði 19. aldar á fræði 21. aldar

Í Odda 206 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:00.

Sýn okkar á söguna og hvernig henni er lýst í ræðu og riti, þ.m.t. í kennslu, námsefni og almennum uppsláttarritum, byggist á rannsóknum en óhjákvæmilega líka á hefð. Á undanförnum árum og áratugum hefur farið fram endurskoðun á viðteknum sannindum í nútímanum sem eru sum hver upprunnin í pólitískri söguskoðun 19. aldarinnar. Sú gagnrýni á rótgróna söguskoðun er oftar en ekki til höfuðs íslenskri sérstöðuhyggju, jafnvel þar sem meintri sérstöðu hefur verið lýst gegn betri vitund.

Á málstofunni verða þessi mál krufin frá ólíkum sjónarhornum, með dæmum úr sagnfræði og málfræði — með kennslufræðilegu ívafi.

Fyrirlestrar

Jón Sigurðsson hélt því fram í ritdeilu við danska lagaprófessorinn J.E. Larsen árið 1855 að Henrik Bjelke hefði gegnt embætti lénsherra í rúm 20 ár eftir innleiðingu einveldisins á Kópavogsfundi árið 1662 til dánardags árið 1683. Þessi staðhæfing Jóns hefur orðið að lífseigum sannindum í íslenskri sagnfræði. Hér verður þessi túlkun sett undir smásjá frumheimildanna og kannað hvort Henrik Bjelke, lénsherra síðan 1648, ríkisaðmíráll og æðsti fulltrúi Danakonungs á Kópavogsfundinum 1662, hafi raunverulega gegnt áfram lénsherraembættinu eftir að konungur lagði það niður 19. febrúar 1662 – eða varð hann kannski fyrsti amtmaðurinn yfir Íslandi eftir Kópavogsfund líkt og allir aðrir fyrrum lénsherrar ríkisins sem voru enn í þjónustu konungs eftir innleiðingu einveldis? Í erindinu verða ástæðurnar fyrir sögutúlkun Jóns kannaðar og viðvarandi áhrif hennar um leið og hún verður skoruð á hólm.

Málfræðingurinn Rasmus Rask hélt því meðal annars fram á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags árið 1828 að íslenskra hagsmuna væri betur borgið ef fólk játaði að íslenska samtímans væri „sú en forna aðaltúnga á Norðrlöndum“ og að það myndi vekja meiri aðdáun meðal annarra þjóða að halda því á lofti að tungumálið hafi varðveist um aldir í óbreyttri mynd. Svipaða staðhæfingu er að finna í einkabréfi Rasks rúmlega tíu árum áður, og enn fyrr í mállýsingu hans frá 1811 þar sem skil forníslensku og íslensku samtímans eru næsta óljós. Segja má að þessi staðhæfing eða trú Rasks, að einhverju en þó ekki öllu leyti gegn betri vitund, sé enn ákveðið meginstef í flestri umræðu um íslenska málsögu, enda hafa fræðimenn löngum velt vöngum yfir hverjar helstu ástæðurnar fyrir þessari meintu staðreynd séu. Í erindinu verður vikið að sumum þessum skýringum og lagt mat á hvort og þá að hvaða leyti hefðbundin íslensk málsaga, sem gjarnan birtist í kennslubókum og almennum yfirlitsritum, endurspeglar raunverulega stöðu þekkingar.