Abstrakt listin þá og nú: Samhengi og erindi óhlutbundinnar myndlistar á 20. og 21. öld
Abstrakt listin þá og nú: Samhengi og erindi óhlutbundinnar myndlistar á 20. og 21. öld
Í Odda 202 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-16:45.
Á málstofunni verður sjónum beint að stöðu óhlutbundinnar eða abstrakt myndlistar í samhengi íslenskrar lista- og menningarsögu. Erindi málstofunnar fjalla með margvíslegum hætti um birtingarform abstrakt myndlistar á Íslandi frá árunum í kringum seinni heimsstyrjöld, tengsl hennar við alþjóðlegan myndlistarheim og túlkun abstrakt myndlistar í innlendri listumfjöllun. Tengsl hugmyndafræðilegs og fagurfræðilegs grundvallar óhlutbundinnar listar við stjórnmál, efnahag, vísindi og trúarbrögð um miðja 20. öld verða skoðuð og sjónum beint að þróun abstraktsjónar í íslenskri myndlist á seinni hluta 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar. Í því samhengi verður meðal annars fjallað um þá möguleika sem óhlutbundið myndmál býður upp á til samtals við efnislegan, líkamlegan og andlegan veruleika mannsins og umhverfi hans.
Málstofunni verður streymt hér: https://eu01web.zoom.us/j/68690098262?pwd=s6Sb3X7ldZSgvDstVDDnq9tZ9M2A7o.1
Fyrirlestrar
Þegar Gerður Helgadóttir kom til Parísar haustið 1949 var borgin nánast ósködduð eftir síðari heimsstyrjöld. Tímabilið einkenndist af ýmsum þverstæðum. Gróskan í listheiminum byggðist í raun á eftirmálum heimsstyrjaldarinnar; beinni og óbeinni bandarískri efnahagsaðstoð, átökum í frönsku nýlendunum, fólksflutningum og menningarlegri tvístrun. Það er áhugavert að skoða listferil Gerðar í þessu pólitíska andrúmslofti, einkum fyrstu ár hennar í París þar sem hún lagði grunn að listsköpun sinni í alþjóðlegum hópi listafólks. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að samskiptum Gerðar við tvo atkvæðamikla gerendur í frönskum listheimi; galleristann Jean-Robert Arnaud (1920–2007) og hinn áhrifamikla listráðunaut og sýningarstjóra Michel Tapié de Céleyran (1909–1987).
Í þessum fyrirlestri skoða ég sýninguna „Arte nordica contemporanea“ sem haldin var í Róm árið 1955 þar sem verk listamanna frá Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð voru sýnd. Ég greini hvernig sýningin virkar sem hvarfpunktur til að skoða undirliggjandi spennu innan FÍM, Félags íslenskra myndlistarmanna, á tímum mikilvægra kynslóðaskipta í forystu félagsins. Samsetning sýningarnefndarinnar varð umdeild og náði hámarki í lagadeilu sem náði alla leið til Hæstaréttar. Íslensku listamennirnir á sýningunni áberandi voru yngri en starfsbræður þeirra frá öðrum Norðurlöndum sem undirstrikar róttæka breytingu í átt að nýjum listrænum áherslum á Íslandi. Til að setja þennan atburð í samhengi hef ég skoðað ítarlega breytingar á stjórn og sýningarnefnd FÍM frá 1941 til 1966. Þetta sögulega yfirlit veitir innsýn í þróun FÍM á þessum árum og sýnir einnig hvernig átökin í kringum sýninguna 1955 endurspegla breytta hugmyndafræði tengda ákveðnum aðilum í íslenskum myndlistarheimi á þessum árum. Með því að greina þessa þróun getum við, vonandi, náð bættum skilningi á afleiðingum þessara tímamóta í íslenskri listasögu og áhrifum hennar á myndlistarlandslag landsins til framtíðar.
Á árunum 1956–1959 skipaði tímaritið Nýtt Helgafell mikilvægan sess í innlendri umræðu um bókmenntir, listir og önnur menningar- og þjóðmál. Útgefandi og ábyrgðarmaður Nýs Helgafells var menningarfrömuðurinn Ragnar Jónsson í Smára – einn helsti velgjörðarmaður íslenskra myndlistarmanna á síðari hluta 20. aldar – en tímaritið var jafnframt nátengt félaginu Frjáls menning sem stofnað var 1957 af hópi lýðræðissinnaðra áhrifamanna. Frjáls menning var hluti af alþjóðlegu samtökunum Congress for Cultural Freedom (CCF), andkommúnískum samtökum sem störfuðu í tugum landa um allan heim á eftirstríðsárunum með leyndum stuðningi leyniþjónustu Bandaríkjanna. Í þessu erindi verður sjónum beint að umfjöllun um myndlist í Nýju Helgafelli og tilraun gerð til að varpa ljósi á það að hve miklu leyti sú afstaða sem þar birtist til abstraktlistar samræmist meginstefum bandarísks menningaráróðurs eftirstríðsáranna og áherslu CCF á tengingu módernisma í listum og bókmenntum við einstaklingsfrelsi og lýðræðisleg sjónarmið.
Sigurjón Árni Eyjólfsson segir frá efni MA ritgerðar sinnar í listfræði frá árinu 2024: „Abstraktmálverkið – Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld.“ Grein verður gerð fyrir fræðilegri umfjöllun um abstraktlist á Íslandi á árunum fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld. Varpað verður ljósi á tengsl abstraktlistar við nútímavæðingu íslensks samfélags sem birtist m.a. í uppgjöri fulltrúa hennar við þjóðernislegar áherslur í íslenskri landslagsmálverkahefð. Það kemur m.a. fram í grein Þorvaldar Skúlasonar, „Nonfígúratív list“ frá árinu 1955, en í henni gerir hann „óbeint“ upp við sýn Jónasar frá Hriflu og Kristins E. Andréssonar á hlutverk listarinnar. Loks færir Sigurjón Árni rök fyrir því að túlka megi abstraktmálverkið sem táknmynd nútímavæðingar og helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld.
Fjallað verður um einkasýningu Brákar Jónsdóttur, Möguleg Æxlun, sem sýnd var í gróðurhúsi Norræna hússins vorið 2023. Sýningin var hluti af lokaverkefni Oddu Júlíu Snorradóttur í meistaranámi í sýningargerð við Háskóla Íslands. Fjallað verður um þá hugmynda- og aðferðafræði sem stuðst var við í undirbúningi og uppsetningu sýningarinnar. Einkum verður sjónum beint að því hvernig óhugnaður og erótík eru virkjuð á sýningunni til þess að hafa áhrif á heildarskynjun gesta af umhverfinu í Vatnsmýrinni, í þeim tilgangi að kanna möguleika erótíkur og myndlistar til að yfirstíga tvíhyggjuhugsun og hafa áhrif á tengslamyndun mannverunnar við umhverfi sitt og þær verur sem það byggja.
Fjallað verður um sýninguna Við sjáum óvænt abstrakt sem haldin var í Listasafni Íslands á síðasta ári í samstarfi við List án landamæra. Þar voru sýnd abstrakt verk eftir klassíska eldri listamenn, yngri háskólamenntaða og unga listamenn með þroskahömlun. Reynt var að takast á við almennar fyrirframgefnar hugmyndir fólks um list fatlaðra einstaklinga. Einnig var gerð tilraun til að kynna nýja sýn á abstrakthefðina sem hefur verið líkt og í hálfgerðum dvala síðan kynslóðirnar fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld komu fram með sínar þá nýstárlegu fréttir. Vöngum verður velt yfir mörkum abstraktlistarinnar og hvernig hinu óhlutbundna vegnar í nútímaumhverfi listarinnar þar sem svo mikil áhersla er á samfélags- og þjóðfélagslegar tengingar.