Ævintýri, dæmisögur og barnabókmenntir: þýðingar og umfjöllun

Image

Ævintýri, dæmisögur og barnabókmenntir: þýðingar og umfjöllun

Í Árnagarði 310 laugardaginn 9. mars kl. 13:00-14:30. 

Ævintýri hafa borist til og frá Íslandi eftir ýmsum leiðum. Í þessari málstofu verður fjallað um þýðingar á þessum vinsælu bókmenntum og spurningar sem vakna við útgáfu þeirra. Rýnt verður í þýðingar Margarethe Lehmann-Filhés á sögum úr safni Jóns Árnasonar, formála hennar og fræðilegan inngang að safni Jóns og óljós mörk þýðinga hennar og fræðastarfs. Dæmisögur, ævintýri og sögur fyrir börn eftir Tolstoj hafa oft verið þýdd úr millimáli og iðulega oftar en einu sinni, stundum mjög breyttar. Í málstofunni verða nokkrar þýðingar skoðaðar og umfjöllun þýðenda um starf sitt. Að lokum verður rýnt í þýðingar Hannesar Finnssonar á frönskum ævintýrum í safnritinu Kvöldvökurnar 1794 en þar er að finna nokkur ævintýri sem löguð voru að íslenskum lesendum.

Fyrirlestrar

Á árunum 1889 og 1891 komu út á þýsku tvö bindi af íslenskum þjóðsögum („Isländische Volkssagen“). Þýðandinn var Margarethe Lehmann-Filhés (1852-1911) sem hafði einnig valið sögurnar úr safni Jóns Árnasonar og samið formála að báðum bindunum. Í seinna bindi verksins er einnig að finna fræðilegan inngang. Þennan texta er að stórum hluta hægt að kalla þýðingu en hann inniheldur einnig viðbætur úr öðrum ritum, túlkanir af hálfu þýðandans sem og æviágrip Jóns Árnasonar sem lést 1888. Ef þetta er í raun þýðing hver er þá höfundur textans?

Svipaða nálgun má sjá í textum sem Margarethe Lehmann-Filhés birti í tímaritum og fundargerðum fræðifélaga á sviði þjóðfræði og mannfræði í Berlín. Þar gerði hún inntak nýlegra íslenskra fræðigreina aðgengilegt á þýsku með því að „taka saman“, „endursegja“ eða „þýða“. En hún steypti einnig saman fleiri heimildum, bætti við upplýsingum og lét þekkingu sína renna inn í samantektina. Mörkin á milli þýðingar- og fræðistarfs hennar virðast því vera á reiki auk þess sem starfið átti sér allverulega stað bak við tjöldin, einkum framan af. Í erindinu verða þessi mörk skoðuð nánar. Varpað verður ljósi á þýðingaraðferðir fræðikonunnar, hlutverk hennar og sjálfsmyndina sem lesa má úr þeim.

Lev Tolstoj er meðal þeirra rússnesku höfunda sem mest hafa verið þýddir á íslensku. Meðal þess sem þýtt hefur verið eftir höfundinn eru dæmisögur, ævintýri og aðrar sögur fyrir börn. Þessar þýðingar má rekja allt aftur fyrir aldamótin 1900 og eru fleiri en halda mætti. Til dæmis hafa verið gefnar út a.m.k. þrjár bækur með sögum af þessu tagi; ein árið 1968, Sögur fyrir börn (Halldór Jónsson þýddi), og tvær árið 2006, Sögur fyrir börn (Brynhildur Jónasdóttir þýddi úr rússnesku) og Allar smásögur Tolstojs (Gunnar Dahl þýddi úr ensku).

Sumar sögurnar hafa verið þýddar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Mikill meirihluti þýðinganna hefur verið gerður í gegnum millimál, og stundum hafa þær tekið nokkrum breytingum frá því sem Tolstoj setti á blað. Segja má að þar komi vel á vondan, því sjálfur tók Tolstoj stundum þekktar þjóðsögur að heiman og frá öðrum löndum, eða jafnvel sögur eftir þekkta höfunda – og útfærði og aðlagaði með sínum hætti.

Í erindinu verður fjallað um þessa „hliðarsögu“ Tolstojs á Íslandi. Tekin verða dæmi af sögum sem þýddar hafa verið oftar en einu sinni og einnig sögum sem birst hafa nokkuð breyttar á íslensku.

18. öldin var mikil ævintýraöld í frönskum bókmenntum. Þá kom út þýðing Antoines Galland á Þúsund og einni nótt, sem margir höfundar stældu í kjölfarið. Voltaire semur heimspekileg ævintýri fyrir gesti sína, Mme de Villeneuve skrifar fyrstu söguna um Fríðu og Mme Leprince de Beaumont gerir ævintýri að helsta efnivið sínum í einni af fyrstu barnabókunum sem komu út á frönsku.

Fyrstu íslensku þýðingarnar á köflum úr Þúsund og einni nótt eru frá fyrri hluta 18. aldar og í lok aldarinnar voru gefin út nokkur frönsk ævintýri í íslenskri þýðingu. Þau var að finna í Kvöldvökunum 1794 eftir Hannes Finnsson biskup sem ætlaðar voru íslenskum almúgabörnum til fróðleiks og skemmtunar. Hannes var ekki hrifinn af drauga- og tröllasögum og vildi því færa lesendum sínum annað lesefni. Í fyrirlestrinum verður fjallað um val Hannesar á ævintýrum í þessu verki, einkenni þeirra og þær breytingar sem hann gerði á textunum sem hann þýddi sjálfur og aðlagaði að nýjum hópi lesenda.