Alls konar orðmyndun

Image

Alls konar orðmyndun

Í Odda 202 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.

Á málstofunni verða kynntar nýjar rannsóknir á orðmyndun, bæði frá samtímalegu og sögulegu sjónarhorni. Þessar rannsóknir eru í mótun og niðurstöður þeirra hafa ekki birst enn sem komið er. Fjallað verður um aðskeytislausa orðmyndun (e. conversion), um virk mynstur í nýjum samsetningum, um orðmyndun á Nýyrðavefnum og um samsettar, forskeyttar og forliðaðar sagnir í eldra máli.

Fyrirlestrar

Aðskeytislaus orðmyndun eða núll-afleiðsla (e. conversion) er fyrirbæri sem ekki hefur fengið mikla athygli til þessa í umfjöllun um íslensku en töluvert hefur hins vegar verið fjallað um orðmyndunina í öðrum tungumálum. Í erindinu verða nefnd nokkur afbrigði orðmyndunarinnar en myndun sagna af nafnorðum verður skoðuð sérstaklega, aðallega nýrri orðmyndun. Í (1) eru sýnd nokkur dæmi um það sem við er átt:

(1)        

a. bekkur (no.) à bekkja (so.): Eldri borgarar bekkja Mývatnsstíginn. (Akureyri.net, 8.7. 2023.)

b. bákn (no.) à bákna (so.): Það er eðli stjórnvalda að bákna sig út og sóa fjármunum í allskyns óþarfa. (Málefnin.com, 1.9. 2012.)

c. hland à hlanda: Sá sem fann upp hákarl sem búið er að hlanda yfir? (Bland.is, 1.08. 2012.)

d. hné à hnéa: Boltinn víðsfjarri og hann ákveður að hnéa Sanchez! (Twitter, 1.4. 2012.)

Í erindinu verða enn fremur einkenni orðmyndunarinnar rædd og hvernig orðmynduninni hefur verið lýst í skrifum málfræðinga og hver sé munurinn á þessari orðmyndun og hefðbundinni orðmyndun. Hversu virk er orðmyndunin, hver er stefna hennar og hvernig má komast að því? Einnig verður velt vöngum yfir því hvort hægt sé að tala um einhverjar takmarkanir á orðmynduninni.

Rannsóknir á virkni (e. productivity) í samsettum orðum eru ekki algengar sem skýrist væntanlega að hluta til af því að gert er ráð fyrir að myndun samsettra orða sé í eðli sínu virk á sama hátt og myndun setninga, töluvert ólíkt virkni í afleiddum orðum. Í erindinu verður sagt frá rannsókn á virkum mynstrum í samsettum nafnorðum í íslensku en rannsóknin miðaðist við tímabilið 2018–2023. Samsetningar úr Risamálheildinni voru greindar og einkum lögð áhersla á að kanna þrennt; hvaða tegundir samsetninga (stofnsamsetningar, eignarfallssamsetningar, tengihljóðssamsetningar, aðrar samsetningar) voru algengastar, hvort fyrri og seinni liðir væru einfaldir eða flóknir í atkvæðum talið og tíðni þeirra, og að lokum var kannað hvaða orðflokkar tækju þátt í myndun samsetninganna. Eingöngu voru könnuð stakdæmi (hapax legomenon), þ.e. samsetningar sem aðeins koma fyrir einu sinni í Risamálheildinni, en slík dæmi eru talin gefa góða vísbendingu um virkni tiltekins mynsturs. Í erindinu verður einnig rætt um möguleg merkingarvensl milli fyrri og seinni hluta samsettra orða.

Í erindinu verða kynntar niðurstöður af athugun á orðmyndun innsendra orða á Nýyrðavef Árnastofnunar (www.nyyrdi.arnastofnun.is) sem var opnaður í nóvember 2018. Þar eru birt innsend nýyrði frá almenningi en áður vantaði vettvang til að birta tillögur að nýyrðum sem bárust stofnuninni. Nú hafa verið send inn yfir 1.400 nýyrði en mikið er um að notendur sendi inn orð sem þeir hafa sjálfir búið til. Farið var yfir öll innsend orð og þau flokkuð út frá orðmyndunaraðferðum. Í ljós kom að samsetning er algengasta aðferðin og þar af eru tökuþýðingar eða beinþýðingar úr ensku nokkuð algengar; dæmi: fölöl (pale ale) og plokksvín (pulled pork). Tiltölulega mikið er um svokallaða blöndun sem hefur ekki verið algeng leið til að mynda íslensk orð; dæmi: svangraður (= svangur + hungraður) og gjúklingur (= gervi + kjúklingur). Afleiðsla (viðskeyti) er ekki mikið notuð; dæmi: hlaðaristrjálun. Nokkuð er um að gömlum orðum sé gefin ný merking en oft virðast það vera e.k. orðaleikir; dæmi: undirbúningur ('nærföt'), sárabót ('plástur') og strokufangi ('sá sem er fangi þess að strjúka farsímanum').

Rannsóknin sem hér verður kynnt snýr að fleirkvæðum sögnum í eldra og yngra máli, einkum sögnum sem myndaðar eru af (a) samsettum nafnyrðisstofni (sbr. tannburstavaralita), (b) með forlið af einhverju tagi (sbr. tví-skiptaætt-leiða) og (c) með forskeyti eða forskeytisígildi (sbr. auð-veldaaf-boða). Markmiðið er að bera saman eldri málstig og nútímamál með það fyrir augum að fá mynd af þróun sem orðið hefur eða kann að hafa orðið í orðmyndun af þessum toga. Rýnt verður í hvaða tegundir fyrri liða eru þarna á ferð, hvernig myndun sagnorðsins fer fram (t.d. aðskeytislaus orðmyndun) og hvort unnt er að sjá eitthvað sameiginlegt með helstu sögnum sem taka þátt í orðmynduninni. Enn fremur verður leitast við að greina að norræn orð og tökuorð.

Rannsóknin er á frumstigi og er enn bundin við elsta málið. Stuðst er við gögn úr Ordbog over det nordiske prosasprog. Þar er að finna um 5.500 sagnaflettur, þar af milli 1.550 og 1.600 fleirkvæðar sem nýta má fyrir þessa rannsókn. Í fyrstu verður einkum hugað að samsettum sögnum á borð við bardagahelminga og burðugaverðuga o.s.frv., en milli 50 og 60 slíkar hafa komið í ljós. Í erindinu verður gerð grein fyrir þeim en jafnframt gefið yfirlit um fleirkvæðar sagnir í fornu máli.