Andkristur eftir Friedrich Nietzsche: Bölvun eða blessun?

Image

Andkristur eftir Friedrich Nietzsche: Bölvun eða blessun?

Í Árnagarði 304 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.

Nýlega kom Andkristur eftir Friedrich Nietzsche út í íslenskri þýðingu Pálínu S. Sigurðardóttur. Hvaða erindi á þetta meira en aldagamla rit við samtímann? Hvernig hefur þetta rit haft áhrif á hugmyndir um Jesú, Pál Postula og Kristni?

Fyrirlestrar

Jesús Kristur er einn kunnasti, áhrifamesti og umdeildasti einstaklingur í sögu mannkyns. Saga hans er undirstaða hugmynda fólks um trú, siðfræði, réttlæti og líf eftir dauðann í mörgum löndum víða um heim. Jafnframt er hún mikilvægur hluti af menningu kristinna manna og hefur verið það í tæplega 2000 ár. Samfélag nútímans hvílir hins vegar í æ ríkari mæli á öðrum gildum og hugmyndum en hinum kristnu. Er hægt að fjalla um sögu kristni á öðrum forsendum en trúarlegum? Hvernig getur sagnfræðingur nálgast á hlutlausan hátt persónu sem margir líta á sem guð og hefur mótað líf flestra sem kennivald og fyrirmynd?

Hér er ætlunin að ræða hvaða merkingu sagan um Krist hefur frá sjónarmiði almennrar mannkynssögu og hugmyndasögu. Hvaða máli skipta þær hugmyndir sem ríkjandi voru innan Rómarveldis þegar sagan um Krist kom fyrst fram? Hvaða áhrif hafði það að sagan um Krist varð til innan samfélags og menningar Gyðinga í Palestínu? Af hverju er myndin af Kristi mismunandi í ólíkum heimildum sem urðu til um hann strax á fyrstu öld? Einnig verður rætt hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu en öðrum hafnað.

Í túlkun Nietzsches má einkum rekja skrumskælingu þess sem hinn eini kristni maður, Jesús, stóð fyrir til bréfa Páls postula. Hver er sá Páll sem Nietzsche talar um og gengur út frá? Hvaðan kemur sá Páll? Þekking fólks á Pálsbréfum og sögulegu samhengi þeirra var afar takmörkuð á tímum Nietzsches, en hún var þó fyrst og fremst afbökuð af aldagamalli sagnfræðilegri og hugmyndafræðilegri skekkju. Því er spurt: Hvað má segja um Pál Nietzsches út frá vitneskju okkar í dag um þennan áhrifamikla en umdeilda hugmyndasmið? Er kannski fótur fyrir söguskoðun Nietzsches?

Hvað merkir idjót í samhengi greiningar Nietzsches á Jesú í Andkristi?

Eru Kristlíkar verur á öllum tímum idjótar?

Ég les greiningu Nietzsches á Jesú sem hugmynd um hugsuð sem lifir heimspekina sína. Hvers konar vita contemplativa og vita activa birtist í orðum og gjörðum Jesú? Hvernig sýnir greining Nietzsches takmörk heimspeki hans? Og hvernig má hugsa hugmyndina um Jesús áfram út frá Andkristi?