Arfleifð Bíbíar í Berlín – Hvernig fann þroskaskert kona lífi sínu farveg?

Í Árnagarði 311 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00. Smellið hér til að fylgjast með í streymi

Hvað getur arfleifð fatlaðrar konu sem lifði lungann úr 20. öldinni sagt okkur um samfélag aldarinnar? Bíbí í Berlín – Bjargey Kristjánsdóttir  (1927–1999) – ritaði sjálfsævisögu sína undir lok ævi sinnar sem gefin var út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar síðasta ár af Háskólaútgáfunni en Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði, sá um útgáfuna. Í þessari málstofu munu fyrirlesarar skoða ýmsar hliðar arfleifðar Bíbíar og rökræða mikilvægi efnisins – heimildanna – sem hún skildi eftir sig fyrir íslensk hug- og félagsvísindi. Rannsóknirnar sem kynntar verða eru styrktar af Rannís til þriggja ára og mun ljúka með ritun bókar sem kemur út hjá hinu þekkta alþjóðlega bókaforlagi Routledge.  

Málstofustjóri er Sólveig Ólafsdóttir.

Fyrirlestrar

Kenningar bandaríska sagnfræðingsins Barböru Rosenwein, um tilfinningatengt tungutak (e. emotional words) og tilfinningasamfélög (e. emotional communities) eru kerfisbundið nýttar til að rannsaka sjálfsævisögu Bjargeyjar Kristjánsdóttur (Bíbíar í Berlín) og önnur handrit sem eftir hana liggja.

Greiningin staðfestir einangrun Bíbíar í foreldrahúsum og viðleitni föður hennar að halda henni frá þorpssamfélaginu á Hofsósi og einnig samfélaginu í næsta nágrenni við kotið Berlín sem var rétt fyrir utan þorpið.

Einnig kemur fram mikil eftirsjá hjá Bíbí eftir því sem hefði getað orðið ef litið hefði verið á hana sem meiri geranda í eigin lífi og þrá eftir þeim sem einhvern tímann höfðu lagt henni lið.

Bíbí í Berlín skildi eftir sig umfangsmikið brúðusafn (yfir 100 brúður) sem nú er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Viðfangsefni þeirrar rannsóknar sem hér er byggt á felst í skráningu safnins, álitamála því tengdu og uppsetningu sýningar um Bíbí og tilveru hennar. Dúkkusöfnun fólks er ekki óalgeng og á sér mismunandi hliðar og uppruna. Bíbí dreymdi um að eignast eiginmann og börn – fjölskyldu. Í ævisögu sinni skrifar hún um drauma sem hefðu getað orðið. Draumarnir fengu að einhverju leyti útrás í fatasaum á dúkkurnar og garðyrkju. Þessa iðju stundaði hún ekki síst á meðan hún dvaldi á elliheimili sem ung manneskja og fann með því lífi sínu og draumum farveg.

Sjálfsævisaga Bíbíar er öflugt verkfæri sem getur gagnast til að fræða og jafnvel breyta viðhorfum. Samtal við fatlað fólk í upphafi sýningargerðar er því mikilvægt þar sem þarf að taka afstöðu, mið af viðfangsefninu og íhuga sanngildi. Leiðir að sýningarhandriti og efnisheimi Bíbíar eru margar og í erindinu verður fjallað um þá þætti sem leggja grunn að því handriti.

Í kjölfar fráfalls móður sinnar var Bíbí í Berlín (Bjargey Kristjánsdóttir, 1927–1999) vistuð á ellideild Héraðshælis Austur-Húnvetninga þrítug að aldri, en þar dvaldi hún frá 1958–1974 eða í heil 16 ár. Í sjálfsævisögu sinni greinir Bíbí frá þessari vist sinni, þar sem hún horfði á eftir hverjum herbergisfélaganum á fætur öðrum í gröfina. Þótt saga Bíbíar sé um margt einstök vekur hún óneitanlega spurningar um það, hvort finna megi önnur dæmi þess að ungt, fatlað fólk hafi verið vistað á dvalarheimilum fyrir aldraða.

Í þessu erindi verða niðurstöður rannsóknar á vistun ungs fólks á elliheimilum kynntar. Í fyrsta lagi er rannsókninni ætlað að kanna hversu algengt þetta úrræði var á 20. öld en jafnframt að kanna samsetningu þeirra sem á slíkum stofnunum dvöldu; meðal annars út frá aldri, kyni og ástæðu dvalar. Í því sambandi var einkum litið til Grundar, elsta starfandi dvalar- og hjúkrunarheimilisins fyrir aldraða á Íslandi. Í öðru lagi verður farið yfir lífshlaup valinna einstaklinga sem dvöldust ungir að árum á öldrunarstofnunum, í því skyni að öðlast innsýn í hagi þeirra sem settir voru í slíka vist.