Austfirðingafjórðungurinn: Sögur, skáld og skrifarar

Image

Austfirðingafjórðungurinn: Sögur, skáld og skrifarar

Í Árnagarði 304 laugardaginn 8. mars kl. 13:00-16:30.

Á málstofunni verður sjónum beint að stöðu óhlutbundinnar eða abstrakt myndlistar í samhengi íslenskrar lista- og menningarsögu. Erindi málstofunnar fjalla með margvíslegum hætti um birtingarform abstrakt myndlistar á Íslandi frá árunum í kringum seinni heimsstyrjöld, tengslum hennar við alþjóðlegan myndlistarheim og túlkun abstrakt myndlistar í innlendri listumfjöllun. Tengsl hugmyndafræðilegs og fagurfræðilegs grundvallar óhlutbundinnar listar við stjórnmál, efnahag, vísindi og trúarbrögð um miðja 20. öld verða skoðuð og sjónum beint að þróun abstraktsjónar í íslenskri myndlist á seinni hluta 20. aldar og fyrstu áratugum 21. aldar. Í því samhengi verður meðal annars fjallað um þá möguleika sem óhlutbundið myndmál býður upp á til samtals við efnislegan, líkamlegan og andlegan veruleika mannsins og umhverfis hans.

Fyrirlestrar

Kveðskapur á árnýöld gegndi ákveðnu hlutverki í samfélaginu og átti fyrst og fremst að vera „opinber“. Það þótti ekki viðeigandi að fjalla um einkamál í kveðskap. Þó eru sumar kvæðagreinar líklegri til að opna glufu inn í einkalífið, t.d. erfiljóð, heillaóskir og ljóðabréf. Austfirsku skáldin svokölluðu voru karlmenn sem tengdir voru fjölskylduböndum. Kvæðin sem þeir ortu bera sum vitni um tengslin milli þeirra, frændsemi og vináttu – og stundum tengsl þeirra við annað fólk. Ljóðabréf eru dæmi um kvæðagrein sem varpar sérstöku ljósi á vináttubönd og tengsl milli karla, kvenna og barna. Í sumum tilfellum er hægt að skyggnast bak við tjöldin og fá innsýn inn í það sem flokkast undir einkamál. Það kemur einnig fyrir að sálmar og annar trúarlegur kveðskapur verður vettvangur tilfinninga og persónuleg sambönd eru afhjúpuð. Í fyrirlestrinum verða sýnd nokkur dæmi um þetta.

Árið 2020 kom út bókin Hugurinn einatt hleypur minn með kvæðum Guðnýjar Árnadóttur (1813–1897). Röð tilviljana réði því að fyrirlesari sá um útgáfuna ásamt Helga Hallgrímssyni, fræðimanni á Egilsstöðum. Benedikt Gíslason frá Hofteigi ritaði 1948 að Guðný [hafi] „sennilega [...] verið hraðkvæðust Íslendinga, að Símoni [Dalaskáldi] undanskildum,“ enda fékk hún auknefnið Skáld-Guðný. Um hana hafði lítið verið ritað áður enda var talið að kvæði hennar væru týnd, aðeins þekktar fáeinar vísur eftir hana. Í fyrirlestrinum verður sagt frá því hvernig kvæði Guðnýjar fundust smám saman á ýmsum stöðum og útgáfu þeirra. Sérstaklega verður hugað að ævikvæði hennar og æskuástinni sem hún segir frá þar. Hún varð ástfangin í hjásetunni, og þótt hún nefni ástvin sinn ekki með nafni, kemur varla annar til greina en frændi hennar, Bjarni Sveinsson á Höfðahúsum. Bjarni var gáfumaður og einnig skáldmæltur og mörg kvæða hans eru varðveitt í sama handriti og flest kvæði Guðnýjar. Meðal annarra er þar að finna kvæði sem gefur til kynna að æskuástin hafi einnig orðið honum eftirminnileg.

Í þessu erindi verður fjallað um hlutverk Gunnars sögu Keldugnúpsfífls í samhengi við íslenska menningu. Sú saga tilheyrir hópi svokallaðra síðari tíma sagna og hefur jafnan verið talin lítt áhugaverð, þar sem hún er ímyndunarafurð sem samsett er úr eldra bókmenntaminni. Þrátt fyrir að vera ekki annað en samansafn bókmenntaminna varpar sagan ljósi á bókmenntaþekkingu samtímans, smekk lesenda og hugsanlega einnig á vonir og sjálfsímynd þjóðarinnar á þeim tíma.

Enn fremur hefur sagan haft áhrif á landslagið eftir að hún var rituð, eins og fjallað verður um í fyrirlestrinum. Landslagið hefur verið endurtúlkað í ljósi sögunnar í stað þess að vera aðeins hlutlaus bakgrunnur hennar. Þetta sýnir hvernig bókmenntir og menningararfur geta mótað skynjun fólks á umhverfi sínu og skapað nýjar merkingar í landslaginu sjálfu.

Björn Jónsson á Bæjarstöðum (1836–um 1866) bjó nánast alla sína stuttu ævi á hjáleigu við sjávarsíðuna á Stöðvarfirði. Bærinn hans er löngu hruninn og fátt í landslaginu bendir til þess að hér hafi eitt sinn búið afkastamikill og hæfileikaríkur skrifari. Lítið sem ekkert hefur varðveist um hans eigið líf nema fáein orð í kirkju- og hreppsbókum. Árið 1866 hverfur hann svo úr prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum án allra skýringa og örlög hans eru ókunn. Handritin eru helsti vitnisburðurinn um líf hans og veita innsýn í það hvernig fátækur en forvitinn unglingur verður að miklum og virtum skrifara.

Í nýlegri rannsókn (í prentun) skoðaði ég handritageymd Ókindarkvæðis. Jón Samsonarson (1998) hafði sýnt fram á að höfundur þess væri Björg Pétursdóttir á Kirkjubæ í Tungu í Fljótsdalshéraði (1749–1839), afkomandi Stefáns Ólafssonar í Vallanesi. Í framhaldi af því greindi ég B-gerð kvæðisins á grundvelli fimm samhliða tilbrigða í fjórum handritum þess. B-gerðin á rætur að rekja til 19. aldar og hefur einkum varðveist í ætt Bjargar og í Hróarstungu, nærri heimili hennar. Í heimildum frá 20. öld breiðist texti Ókindarkvæðis út bæði til norðurs og suðurs og verður mun breytilegri en á 19. öld. Tilbrigðin fimm, sem skilgreina B-gerð, eru meðal hinna algengustu á 20. öld en eru ekki endilega samferða í kvæðatextunum lengur. Í þessu erindi reyni ég að henda reiður á hljóðritamergðinni og athuga hvaða tilbrigði eru algengust og hvernig þau breyta merkingu kvæðisins og hughrifum sem það veldur, hvort kvæðatextunum verður skipað í hópa á grundvelli slíkra tilbrigða og hvaða þættir hafa helst stuðlað að varðveislu textahópanna.

Í þessu erindi verða þrjú skáld úr „austfirska skólanum“ til umræðu, þau Ólafur Einarsson í Kirkjubæ, Stefán Ólafsson í Vallanesi og Bjarni Gissurarson í Þingmúla en þau voru öll afkomendur síra Einars Sigurðssonar í Heydölum. Þessi skáld, sem uppi voru á 17. öld, höfðu mikil áhrif á íslenskt bókmenntalíf; þau ortu ýmist andleg eða veraldleg kvæði og sum þeirra náðu alþýðuhylli. Í erindinu segi ég frá því hvernig verk þeirra, einkum af veraldlegum toga, voru borin áfram og túlkuð af kvæðaelskandi alþýðu. Hvaða verk urðu vinsæl og hver lifa enn á meðal þjóðarinnar? Hver féllu í gleymsku? Við lítum á dreifingu kvæðanna og viðtökur, bæði á prenti og í munnlegri geymd, en mörg þessara kvæða voru oft sungin. Í þessu samhengi verður einnig skoðað hvernig einstök kvæði hafa gefið tónskáldum, listafólki, og danshópum innblástur.