Austurland - efniviður rannsókna
Í Odda 202 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-17:00. Smellið hér til að fylgjast með í streymi.
Sögusvið erinda nær til 18., 19. og 20. aldar, auk þess sem rýnt er í hvaða minjar og upplýsingar moldin geymir í aldanna rás. Yfirskrift málstofunnar er regnhlífarheiti fyrir erindi fræðimanna sem fjalla um rannsóknir ýmiss efnis á sviði sagnfræði og fornleifafræði en þær eiga það þó allar sameiginlegt að fjalla um málefni sem tengjast Austurlandi á ýmsum tímabilum. Ráðstefnunni er ætlað að sýna þá vaxandi grósku sem nú er að verða í rannsóknum sem lúta að Austurlandi, enda af nógu að taka og vaxandi áhugi vísindamanna á fjórðungnum. Málstofan er hugsuð sem liður í að miðla rannsóknarniðurstöðum nýlegra eða yfirstandandi rannsókna á sögu Austurlands og kynna til sögu nokkur verkefni í því skyni.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður fjallað um heilbrigði kvenna í Múlasýslum fyrr á öldum. Einkum verður sjónum beint að konum sem lentu í lífsháska við fæðingar og afdrifum þeirra. Á árunum 1787– 1910 (á 123 árum) létust 93 konur af barnsförum í Múlasýslum, 52 í Norður-Múlasýslu og 41 í Suður-Múlasýslu. Þetta voru ungar konur í blóma lífsins sem dóu frá ungum börnum og eiginmönnum. Það gat valdið eftirlifendum miklum erfiðleikum. Nýfædd börn mæðra sem dóu frá þeim nokkurra daga gömlum voru í lífshættu við fráfall móðurinnar og samkvæmt rannsóknum voru lífslíkur þeirra aðeins tvö ár.
Því hefur verið haldið fram að fyrr á öldum hafi mæðradauði verið algengur hér á landi. En var það svo? Hugtakið mæðradauði er notað þegar mæðurnar látast 42 dögum eftir barnsburð. Fjallað verður um konurnar í Múlasýslum sem dóu eftir barnsburð og þær heimildir sem geyma nöfn þeirra og dánarmein. Þær heimildir eru afmarkaðar og af skornum skammti.
Á tímum einokunarverslunarinnar á 17. og 18. öld töldust Vopnafjarðarhöfn og Reyðarfjarðarhöfn til sláturhafna, Húsavík var löngum tengd við brennistein, en langt var í næstu fiskihafnir. Skýra svæðisbundna skiptingu má þarna sjá í hagrænum ramma gamla samfélagsins og þegar rýnt er í skrif 18. aldar manna, einnig í hugmyndum um landshagi. Þessi skipting samtímans í hagsvæði er áhugaverð, en hún sést m.a. skýrt í verðlagi í vöruskiptum þessara hafna og endurspeglar helstu útflutningsvörur sýslnanna sem að þeim lágu. Rannsókn á Múlasýslum sýnir að afkoma svæðisins byggði á sveitunum, eins og flokkun hafnanna ber með sér, en hákarlaveiðar voru einnig mikilvægar. Viðskiptabækur sýslubúa við einokunarkaupmanninn á Vopnafirði veita einstæða innsýn í landshagi svæðisins. Verslunarbókin 1786 sýnir t.d. að þéttbýliskjarni hafði myndaðist í kringum verslunarstaðinn þar sem fólk gat m.a. séð fyrir sér með spunavinnu á vetrum og kaupavinnu á sumrin. Hvernig kom þessi starfsemi til? Hvað varð um hörgarnið sem Vopnfirðingar spunnu og lögðu inn til kaupmanns? Hvaðan kom hráefnið? Hér verður dregin upp mynd af þessari útflutningsvinnu. Í stærra samhengi er um að ræða forlagsvinnslu, sem varð til í samspili hlutafélaga í iðnaði og verslun við samfélag 17. og 18. aldar, nokkuð sem var vel þekkt fyrirbæri í Evrópu en oft talið að hafi aldrei tíðkast á Íslandi. Á Íslandi störfuðu fjöldamörg félög einokunarkaupmanna allt frá upphafi 17. aldar og til loka þeirra 18. og tengsl þeirra við samfélagið lítt rannsökuð. Hið íslenska hlutafélag var starfrækt í hálfa öld á seinni helmingi 18. aldar og tengdist víðtækri framleiðslu og hafði um tíma stórt bakland á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Hér verður dregin upp spegill af þéttbýlislífinu á Vopnafirði undir lok 18. aldarinnar og þætti kaupmanna í að skapa forsendur fyrir fólk til að setjast að og lifa af sérhæfðri spunavinnu.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um verkefni sem hófst árið 2020 í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands fyrir styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands en hófst áður fyrir styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (Rannís). Tekinn var frá tiltekinn tími til skráningar mála í dómabókum Múlasýslna á 18. og 19. öld, með það framhald í huga að nýta sem gagnagrunn fyrir dýpri sagnfræðirannsókn á málum sem réttað var í á Austurlandi á þessu tímabili. Vinnuheiti verkefnisins er: „Glæpur og refsing í Múlaþingi. Rannsókn á brotamálum sem skráð eru í dómabækur Múlasýslna á 18. og 19. öld.“ Tekin verða til umfjöllunar nokkur atriði eins og staða verkefnisins á þessum tímapunkti gefur kost á. Heildarmarkmið verkefnisins er í stuttu máli sagt að rannsaka dómsmál í Austfirðingafjórðungi á 18. og 19. öld til að varpa ljósi á hvaða sakamál komu fyrir dóm. Hverjir urðu einna helst fyrir barðinu á freistingu til afbrota og hvers vegna og hver var refsing þeirra? Átti brotafólk sér málsbætur og fékk það að njóta þess? Hvaða upplýsingar gefa brot um þjóðfélagsstöðu, í merkingunni undirmálsstöðu í samfélaginu og þá gagnvart og samanborið við þá sem teljast í samanburði hafa yfirburðastöðu? Hvernig var þeim málum háttað eftir kyni? Voru konur sem dæmdar voru verr settar en karlar í réttarkerfinu? Hvað einkennir brot kvenna samanborið við brot karla? Hvaða sögu er að finna í þessum heimildum um ofbeldi gegn vinnufólki, konum og börnum? Voru uppi síbrotamenn og hver voru þá algengustu brotin og hvaða sögu endurspegla þau um einstakling og samfélag? Er merkjanleg breyting á dómum og refsingu í átt til vægari dóma og ef svo hverju tengist það?
Vorið 2021 varði höfundur þessa erindis doktorsritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Lýðræði í mótun: félagastarf, fjölmiðlun og þátttaka almennings 1874−1915“. Meginefni hennar er vöxtur félagastarfs á Íslandi og áhrif þess á lýðræðisþróun, með sérstakri áherslu á Austurland og austfirsk félög á rannsóknartímanum. Í erindinu verður fjallað um tilurð doktorsritgerðarinnar og hlutverk austfirskra heimilda í henni, einkum frumheimilda. Rætt verður um samspil ólíkra heimilda og mikilvægi opinberra skjalasafna sem heimildabrunna fyrir rannsóknir.
Í miðjum heimfaraldri vegna Covid-19, í desember árið 2020 féll aurskriða á byggð í Seyðisfirði sem eirði engu sem í vegi hennar varð þó að ekkert mannfall yrði – 13 hús gjöreyðilögðust eða hurfu af yfirborði jarðar og yfir 50 hús urðu fyrir skemmdum. Skriðuföll og snjóflóð eru þó ekki ný af nálinni í firðinum. Veðurstofan hefur rannsakað þar stórar forsögulegar sem og sögulegar skriður. Árið 1885 féll snjóflóð úr Bjólfi sem grandaði 24 manns. Áður óþekktar skriður hafa þó fundist í yfirstandandi fornleifarannsókn Antikva í Firði, Seyðisfirði, m.a. stór aurskriða sem féll um árið 1100 yfir grafir frá 10. öld og upp að húsum frá 10.−11. öld að landnámsbænum Firði, Seyðisfirði. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um lífsskilyrði á Seyðisfirði á þúsund ára tímabili í doktorsrannsóknarverkefninu Árþúsund við Atlantshaf. Rannsóknin er þverfagleg. Aðferðir lífvísinda eru notaðar til að rannsaka forn-DNA: bakteríur og dýra- og plöntutegundir sem finnast í mold bæjarhóls í Skálanesi, Seyðisfirði frá þúsund ára tímabili (900−1900) og til samanburðar gólf- og móöskulögum frá 10. og 11. öld sem fundust undir skriðu frá 1100 í Firði, Seyðisfirði. Hvaða plöntu- og dýrategundir voru nýttar á þessum bæjum? Hvað var innflutt og hvað var til staðar fyrir landnám? Finnast sjúkdómar og pestir í jarðveginum, s.s. kynsjúkdómar eða Svarti dauði? Notaðar eru aðferðir fornleifafræðinnar við að skoða mannvistarleifar á stöðunum tveimur, sem og aðferðir sagnfræðinnar við að rýna í heimildir um lífsskilyrði, mannfall og hamfarir. Einnig verður skoðað hvaða bakteríu-, plöntu- og dýrategundir finnast fyrir landnám á sömu stöðum.
Markmið fyrirlestursins er að fjalla um feril veitinga- og verslunarkonunnar Pálínu Waage (1864–1935) á Seyðisfirði og setja hann í samhengi við kynjasögulega umræðu um athafnakonur í sagnfræðirannsóknum. En Pálína lét eftir sig persónulegar heimildir, m.a. dagbækur, sem gera það mögulegt að rannsaka starfsemi hennar til hlítar. Áhersla verður lögð á að skoða gerendahæfni Pálínu eða mátt hennar til að hafa áhrif á umhverfi sitt og móta eigið lífshlaup. Gerendahæfni hennar eða atbeini var að mörgu leyti óvenjusterkur og birtist ekki síst í mætti hennar til að móta eigið fyrirtæki. Verður fyrirtækjarekstur hennar m.a. skoðaður út frá kenningum um hin meintu skil milli opinbers sviðs og einkasviðs og þeim römmum sem sú orðræða hefur sett athafnasemi kvenna. Í fyrirlestrinum er einnig byggt á þeirri niðurstöðu Nicolu Phillips (2006: 175) að fyrirtækjarekstur margra kvenna hafi verið samtvinnaður staðbundnum samfélögum á sviði verslunar og viðskipta. Þannig verður starfsemi Pálínu skoðuð sérstaklega í samhengi við menningarlega og landfræðilega stöðu hennar á Austurlandi í lok 19. og upphafi 20. aldar. Því verður haldið fram að ekki sé hægt að rannsaka starfsemi Pálínu nema að setja hana í samhengi við það umhverfi þar sem hún bjó mest öll sín fullorðinsár, bæinn Seyðisfjörð. Sérstaklega verður skoðað það alþjóðlega yfirbragð sem verslunarumhverfi á Seyðisfirði hafði á tímum Pálínu og með hjálp dagbóka hennar verður sýnt fram á að viðskipti Pálínu voru hlekkur í þeirri hringiðu allri.