Bréfaskóli Hallgríms Péturssonar - eða var það Jón Magnússon?
Bréfaskóli Hallgríms Péturssonar - eða var það Jón Magnússon?
Í Árnagarði 101 föstudaginn 8. mars kl. 15:15-16:45.
Á sautjándu öld voru prentaðar bækur til að mennta börn og ungmenni, einkum katekismar sem fjölluðu um undirstöðuatriði kristindómsins. Miðlun á fræðslu og skemmtun fór hins vegar fram í miklum mæli á annan hátt, einkum munnlega og í söng í kirkju og heimahúsum. Henni til stuðnings voru handskrifaðir textar sem gengu manna á meðal og voru afritaðir og lærðir utan að og sungnir þar sem margir voru í bundnu máli. Fátt hefur varðveist af slíkum blöðum enda nytjaefni sem eyddist og týndist. Eitt gat forðað þeim frá glatkistunni, að textarnir væru eignaðir nafnkunnum mönnum. Svo er með fræðsluljóðið KIRKJUVIT BARNA sem hefur víðast fyrirsögnina „Barnaspurningar um kirkjusiði og seremoníur ungdóminum til fróðleiks og öðrum einföldum“. Ljóðið er nytjatexti handa afmörkuðum hópi eins og segir í lokin í sumum afritum: „Sendi ég stökurnar sóknarfólki mínu.“ Þetta ljóð er víðast talið eftir Hallgrím Pétursson en í viðbæti við Postillusálma séra Jóns Magnússonar í Laufási ÍB 429 4to segir skrifarinn, Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, fullum fetum að það sé eftir Jón.
Viðfangsefni fræðsluljóðsins er kirkjan, hvaða hlutverki hún gegnir, hvað altari og kerti hafa að gera í kirkju, hvaða siðir og reglur eru viðhafðar, hvernig hvíldardagurinn kom til, hvaða hátíðisdagar eru haldnir og af hvaða ástæðu, hvaða söngvar eru sungnir í messu, hvað laglaus eiga að gera þegar sungið er og margt fleira. Formáli virðist stílaður á fullorðið fólk en eftirmálinn og meginmálið, í spurningum og svörum, er ætlað börnum.
Kvæðið er fræðsla sem ekki gerir skýlausa kröfu um bóklæsi heldur ósk um að nema bundinn texta og líklega helst í söng: „Kynntu þér utanbókar kórsönginn væna…“ Kvæðið vekur spurningar um inntak læsis, um framsetningu námsefnis, um boðskap og lýsingar í ljóðinu, um stöðu þess sem bókmennta og höfundarverk, um fyrirmyndir og hliðstæður og um samspil hins munnlega, skrifaða, prentaða og sungna.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður gefið yfirlit yfir kvæðið „Kirkjuvit barna“, efnisþættir kynntir, málfar kannað og metið hve vel það nálgast barnshugann samanborið við samsvarandi texta. Boðskapur kvæðisins er grannskoðaður, bæði menntahugsunin og guðfræðin. Miðlunarformið er athugað, handskrifaðar stökur handa „sóknarfólki mínu“, og spurningunni velt upp hvernig kvæðið hefur verið notað og hvers vegna það varðveittist.
Í kvæða- og sálmahandritum síðari alda er það ekki talið skipta höfuðmáli að höfundgreina kvæði, eins og sjá má í varðveittum handritum þess tíma, en sjaldnast er um eiginhandarrit skáldanna að ræða heldur uppskriftir annarra. Hallgrímur Pétursson verður snemma kanóna í íslenskum bókmenntum og má líklega rekja það til útgáfu Hálfdanar Einarssonar rektors á kvæðasafni skáldsins árið 1755. Það er ekki ósennilegt að honum sé eignað mun meira af kvæðum en honum ber af síðari tíma skrifurum en það er þekkt víða að víðfrægum skáldum séu eignuð verk minna þekktra skálda. Í fyrirlestrinum verða skoðuð rök með og á móti því að Hallgrímur hafi ort fræðslukvæðið Kirkjuvit barna.
Kvæði Hallgríms Péturssonar sem hann nefnir Kirkjuvit barna hefur þann tilgang að fræða um Kirkjusiði og serimoníur og kenningu kirkjunnar í ýmsum greinum. Kvæðið er hafsjór af þekkingu. Að baki hennar liggja þau rit kirkjunnar sem höfundi voru tiltæk og komu að gagni við samninguna. Viðfangsefni þessa erindis er að greina þær heimildir sem höfundur vísar til beint eða óbeint en jafnframt að kanna hvort þeim er fylgt bókstaflega eða frjálslega.