Breytileiki og þróun í íslenskum framburði
Breytileiki og þróun í íslenskum framburði
Í Árnagarði 201 föstudaginn 7. mars kl. 15:15-17:15.
Í málstofunni verður sagt frá völdum niðurstöðum úr rannsóknarverkefninu Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma sem styrkt er af Rannís 2023–2025.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður tæpt á markmiðum, aðferðum og völdum niðurstöðum úr SVIÐ. Í netkönnunarhluta rannsóknarinnar tóku málhafarnir (N = 960) upp lestur sinn á stuttum texta sem innihélt markorð fyrir ýmis svæðisbundin tilbrigði sem þekkt eru úr fyrri rannsóknum. Að auki tóku málhafarnir frá þremur helstu málsvæðum rannsóknarinnar, þ.e. Norðurlandi, Suður- og Suðausturlandi og Vestfjörðum, upp lestur sinn á öðrum stuttum texta sem var sérstaklega saminn með hliðsjón af framburðartilbrigðum á viðkomandi svæði. Viðtölin í seinni megináfanga gagnasöfnunarinnar (N = 160) sneru að því að kanna möguleg áhrif viðhorfa á þróun svæðisbundinna framburðartilbrigða. Sá hluti gagnanna gefur kost á greiningu á framburði við hversdagslegri talmálsaðstæður heldur en í upplestri. Í fyrirlestrinum verða bornar saman niðurstöður annars vegar úr upplestri nokkurra norðlenskra og sunnlenskra þátttakenda og hins vegar úr hljóðgreiningu á frjálsu tali sömu einstaklinga. Í ljós kemur að margir sýna vægari einkenni svæðisbundins framburðar í viðtölunum og sumir nefna beinlínis að notkun þeirra á viðkomandi framburðareinkennum aukist eftir því sem aðstæður eru formlegri, t.d. í upplestri. Þetta sýnir að fólk getur verið býsna meðvitað um eigin svæðisbundinn framburð við ólíkar málaðstæður.
Í þessu erindi verður sjónum í fyrsta lagi beint að stöðu og þróun vestfirskra framburðareinkenna, einkum einhljóðaframburðar á /a/ og /ö/ og vestfirskrar áherslu. Fjallað verður um niðurstöður hljóðgreiningar á gögnum sem safnað var í netkönnun árið 2023 og þær bornar saman við eldri gögn. Í öðru lagi verður fjallað um viðhorf málnotenda til vestfirsks framburðar. Þar er hvort tveggja unnið úr megindlegum gögnum úr fyrrnefndri netkönnun sem og eigindlegum viðtalsgögnum sem safnað var sumarið 2024, þar sem 23 Vestfirðingar voru á meðal þátttakenda. Fjallað verður um greinileika „eigin“/vestfirsks framburðar og viðhorf til hans, einkum með tilliti til sjálfsmyndar, svo og hugmyndir um vestfirsku. Niðurstöður benda til þess að vestfirsk framburðareinkenni fari dvínandi, líkt og flest önnur svæðisbundin minnihlutaeinkenni í framburði, en að þau séu þó enn vel þekkt meðal landsmanna, einkum fólks upp úr fimmtugu. Nokkrar vísbendingar eru um að sjálfsmynd gegni mikilvægu hlutverki í að viðhalda vestfirskum framburðareinkennum eða leggja þau af, en þátttakendur eru ekki alltaf meðvitaðir um breytingar í eigin framburði. Þó hafa þátttakendur nokkuð skýrar hugmyndir um áhrifaþætti í málbreytingum. Loks eru hugmyndir um vestfirskan framburð við stafsetningu áberandi, auk þess sem hann er gjarnan tengdur við þjóðþekkta einstaklinga.
Landshlutabundin framburðartilbrigði hafa verið ítarlega rannsökuð á Íslandi en viðhorf almennings til þessara tilbrigða hafa fengið minni athygli. Í þessum fyrirlestri er greint frá viðhorfum 30 Norðlendinga til eigin framburðar, þar á meðal hvort þeir telji hann fagran eða nútímalegan, hvort hann sé mikilvægur hluti af sjálfsmynd þeirra og hvort þeir telji hann hafa breyst með tímanum. Norðlendingarnir tóku allir þátt í RÍN-rannsókninni á níunda áratugnum, sem gerir það mögulegt að bera saman þróun framburðar þeirra við núverandi viðhorf þeirra. Niðurstöðurnar sýna að meirihluti Norðlendinganna telur framburð sinn fallegan og lítur á hann sem mikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni.
Í fyrirlestrinum verður veitt yfirlit um þróun harðmælis og raddaðs framburðar annars vegar og hv-framburðar og skaftfellsks einhljóðaframburðar hins vegar í máli 50 Norðlendinga og 24 Sunnlendinga sem tóku þátt í Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN) á níunda áratug 20. aldar og í rannsókninni Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma (SVIÐ). Málhafarnir eru fæddir á árunum 1965–1974 og voru því á barns- eða unglingsaldri í RÍN og á milli fimmtugs og sextugs í SVIÐ. Litið verður sérstaklega til málhafa sem sýndu á sínum tíma skýr staðbundin framburðareinkenni og hafa annað hvort lagt þau af að mestu leyti eða haldið sterkt í þau þrátt fyrir flutning á milli landshluta. Í gögnunum (netkönnun og djúpviðtölum) kemur fram að fólk hefur haldið mjög misjafnlega mikið í svæðisbundin framburðareinkenni, hvort sem það hefur flust brott eða búið áfram á heimaslóðum, en brottfluttir eru þó líklegri til að hafa dregið úr einkennunum (sbr. Margréti Láru Höskuldsdóttur 2013). Ennfremur sýna gögn SVIÐ að í sumum tilvikum hafa brottfluttir einstaklingar tekið meðvitaða ákvörðun um að halda í svæðisbundinn framburð og mælast jafnvel með sterkari einkenni nú en í RÍN.