Draumaheimar og kaldur veruleikinn: Flæðandi femínísk siðfræði

Image

Draumaheimar og kaldur veruleikinn: Flæðandi femínísk siðfræði

Í Árnagarði 311 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-12:00.

Við lifum á tímum femínískra umbrota, endurskoðunar kynjaímynda og kröfugerða um bæði aukið jafnrétti og fyrirgefningar fyrir yfirsjónir. Í þeim efnum úir og grúir af siðferðilegum álitamálum, oft verður umræðan tilfinningaþrungin og við verðum ráðvillt og óviss um eigin stöðu. Einkennist nútímasamfélag af slaufunarmenningu? Hvenær er hægt að fyrirgefa og ber okkur einhvern tímann skylda til að fyrirgefa? Væri líf okkar ekki miklu betra ef við gætum verið eins og Barbie? Í þessari málstofu sigla þátttakendur í verkefninu „Flæðandi siðfræði: Femínísk heimspeki og MeToo“ um í öldurótinu og segja frá rannsóknum sínum.

Fyrirlestrar

Síðastliðið sumar flykktust bíógestir um allan heim í kvikmyndahús til að sjá Barbie. Kvikmyndin hefur fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, ekki síst frá karlkyns áhorfendum sem þótti að sér vegið með ýmsum femínískum boðskap sem birtist í myndinni. Ekki leið á löngu þar til ungar konur í gagnkynja samböndum fóru að tilkynna á samfélagsmiðlum að þær hefðu fengið nóg af skilningslausum kærustum eftir að hafa séð myndina. Úr varð að netverjar tilnefndu myndina sem eins konar ‘sambandsþolraun’ og hvöttu konur til að segja skilið við þá menn sem vildu ekki sjá Barbie eða brugðust illa við femínískri umræðu sem þar birtist.

Myndin býður upp á einfalda hugartilraun þar sem tveir ímyndaðir heimar birtast, Barbieland, sem hefur verið lýst sem femínískri útópíu, og Kendom, sem líkir eftir kynjakerfi feðraveldisins. Í þessum fyrirlestri setjum við myndina í samhengi við aðrar femínískar og kvennaútópíur í bókmenntasögunni og skoðum heimspekilegar forsendur sem þar eru til umræðu. Við skoðum hlutverk útópía í vitundarvakningu og hvað slíkt felur í sér fyrir nýjar kynslóðir femínista.

Þegar þriðja bylgja femínisma er gagnrýnd er hún stundum kölluð Sex and the city (SATC) femínismi. Þá er bylgjan talin ganga út á valdeflingu hverrar konu fyrir sig og frelsi þeirra til þess að baða sig í neysluhyggju á meðan að femínismi eigi að fjalla um jafnrétti. Þegar þættirnir eru betur skoðaðir þá birtast  hins vegar þemu sem verða ráðandi í #MeToo: samtal vinkenna og skoðanasystra/systkina um mörk og væntingar í kynlífi. SATC þættirnir hefjast árið 1998 með frekar kaldhæðnislegum tón um hektíst líf stórborgarinnar. Þegar hins vegar tekur að líða á þáttaröðina verður neysluhyggja sem beinist að konum meira og meira áberandi og nær hámarki í samnefndri kvikmynd frá 2008 sem hefst á því að Carrie Bradshaw segir okkur frá því hvernig ungar konur komi til New York borgar í leit að ást og fatamerkjum (e. love and labels). Persóna Carrie verður einnig æ meir eins og stereótýpísk barbídúkka sem auglýsir nýja fatahönnun fyrir kvenkyns áhorfendur að máta sig við. Ef samtíminn er skoðaður þá reyna framhaldsþættir SATC, Just like that, að leiðrétta ráðandi hlut hvíts, sískynja, gagnkynhneigðs fólks með fjölbreyttari persónum og Barbie myndin frá 2023 setur fram mjög skýra gagnrýni á feðraveldi. Engu að síður er neysluhyggjan í þessu vinsæla afþreyingarefni aldrei langt undan. Í ljósi þess verður spurt í fyrirlestrinum hvort við eigum jafnvel enn eftir að lifa hápunkt nýfrjálshyggjunnar þegar kemur að neysluhyggju?

Í þessum fyrirlestri ætlum við að velta því fyrir okkur hvað sé fyrirgefning, hvað sé fyrirgefningarkrafa og af hverju hún sé skaðleg. Hugmyndir okkar um fyrirgefningu eiga rætur að rekja til kristinnar trúarhefðar þar sem fyrirgefningin spilar stórt hlutverk. Þar er hún iðulega talin af hinu góða, jafnvel talin algóð. Þó sívaxandi hópur fólks kenni sig við trúleysi er engu að síður óhætt að segja að hugmyndir okkar um fyrirgefningu byggi á kristnum hugmyndum. Því er ekki að undra að fyrirgefning sé alla jafna litin afar jákvæðum augum. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að gæði fyrirgefningarinnar eru vitaskuld ekki algild frekar en annað. Það sem meira er, þá getur hin mikla jákvæðni í garð fyrirgefningarinnar leitt til þess að ákveðin fyrirgefningarkrafa myndast í samfélaginu. Slík krafa getur lagt enn þyngri byrðar á herðar þeirra sem þegar hafa verið beitt ranglæti og því er vert að spyrja hvort fyrirgefningarkröfur geti talist siðferðilega vafasamar?

Í nokkur ár var Edda Falak áberandi í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi með hlaðvarpsþáttum sínum þar sem þolendur sögðu frá reynslu sinni. Í mars 2023 bárust fréttir af því að Edda hefði sagt ósatt í fjölmiðlaviðtali um fyrri störf sín hjá fjármálafyrirtæki. Afhjúparinn var fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason, sem eldaði við hana grátt silfur eftir að hafa verið nefndur sem gerandi kynbundins ofbeldis í einum af hlaðvarpsþáttum hennar. Í kjölfarið mynduðust tvær fylkingar: annars vegar þau sem sögðu þetta sýna að Edda og öll hennar verk væru með öllu ómarktæk og hins vegar þau sem sögðu þetta ekki skipta máli fyrir baráttu Eddu gegn kynbundnu ofbeldi og ekki rýra trúverðugleika þeirra frásagna sem borist hefðu í gegnum hana.

Í þessum fyrirlestri verða viðbrögð almennings við brotum eða yfirsjónum Eddu og Frosta borin saman, sérstaklega með tilliti til umræðu um slaufun og kröfum um fyrirgefningu annars vegar og refsingu hins vegar. Umræðan verður sett í samhengi við mikilvæga þætti jafnréttisbaráttu, átök um völd í samfélaginu og kröfur um breytt valdahlutföll. Meðal þess sem kemur við sögu eru bakslagsviðbrögð við baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, þekkingarlegt misrétti, þöggun, ómeðvitaðir fordóma og tilhneiging okkar allra til að einfalda hluti sem eru flóknir.

Nanna Hlín Halldórsdóttir og Elín Pjetursdóttir segja frá málstofunni „Draumaheimar og kaldur veruleikinn: Flæðandi femínísk siðfræði“, þar sem fjallað verður um femíníska umbrotatíma, endurskoðun kynjaímynda og kröfugerð um bæði aukið jafnrétti og fyrirgefningar fyrir yfirsjónir.