Ef mig skyldi kalla! Um sjálfsskrif og sjálfstækni á 19., 20. og 21. öld
Ef mig skyldi kalla! Um sjálfsskrif og sjálfstækni á 19., 20. og 21. öld
Í Árnagarði 303 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.
Færa má rök fyrir því að tímabilið á milli 1850 og fram til dagsins í dag í íslenskri menningarsögu hafi verið tímabil einkaskjala. Upp úr miðri 19. öld urðu dagbókarskrif æ algengari meðal venjulegra Íslendinga. Þó að þeir séu aðallega karlkyns, koma þessir dagbókarritarar frá fjölbreyttum bakgrunni, sem tákna ýmsa aldurshópa, þjóðfélagsstéttir og efnahagslega stöðu. Þessar dagbækur spanna tímabil frá nokkurra vikna skrifum upp í nokkra áratugi að lengd. Allar eiga það sammerkt að þær bjóða upp á innsýn í mismunandi lífsreynslu dagbókarritara og fólks sem þeir áttu samskipti við. Sama má segja um aðrar gerðir sjálfsbókmennta, einkum sjálfsævisögur, sem eru bæði til í útgefnu formi og handritum; hvort tveggja í umtalsverðu magni. Þessi útbreiðsla sjálfsbókmennta var hluti af víðtækari „ritbyltingu“ meðal venjulegs fólks, sem í auknum mæli leitaðist við að fást við listina að skrifa og safna textum. Þessi hreyfing endurspeglaði ekki aðeins vaxandi áhuga á sjálfstjáningu heldur einnig löngun til að varðveita persónulega og samfélagslega sögu, bregðast við félagslegum breytingum og halda fram einstaklingsbundinni hugsun um sjálfan sig með hinu ritaða orði.
Hér stíga á stokk þrír vísindamenn sem koma að þessum menningararfi frá ólíkum hliðum. Róbert fjallar um hina heimspekilegu hlið sjálfstjáningar, Sigurður Gylfi ræðir nokkra jaðarsetta einstaklinga sem tjáðu sig um líf sitt og tilveru og Davíð beinir sjónum sínum að einum einstaklingi sem sannarlega batt bagga sína öðrum hnútum en samferðamennirnir. Þessir þrír höfundar ætla að ræða um sjálfsbókmenntir út frá þeirra sérþekkingu sem er heimspeki, menningarfræði og sagnfræði.
Fyrirlestrar
Handritasafn Landsbókasafns Íslands geymir um það bil 250 dagbækur, skrifaðar af einstaklingum frá 18., 19. og 20. öld. Þó að meirihluti höfundanna sé karlkyns, koma þeir úr ýmsum áttum og endurspegla mismunandi aldur, stéttir og efnahagslega stöðu. Þar á meðal eru dagbækur Jósafats Jónassonar (1876–1966). Eftir æsku og ungdómsár á Íslandi, sem voru mótuð af mikilli fátækt, flutti hann til Kanada haustið 1903. Þar bjó hann meirihluta sinna fullorðinsára, einnig við kröpp kjör, þar til hann sneri heim til Íslands undir nafninu Steinn Dofri.
Eitt sérkenni dagbóka Jósafats er að hann notar ýmis mismunandi nöfn yfir sjálfan sig. Í erindinu er fjallað um þessar nafnabreytingar í ljósi sundrungar sjálfsmyndar, lífs og frásagnar.
Eiga heimspekingar að vinna úr eigin reynslu? Hverju breytir það fyrir sjálfsskilning og sjálfssköpun heimspekings að halda dagbók og semja sjálfsævisögu (m.a. á grundvelli dagbókaskrifa)? Í leit að svari sem hefur almennt gildi, dregur höfundur m.a. lærdóma af eigin reynslu af að hafa haldið dagbók í fjörutíu og fimm ár og hafa samið sjálfsævisögu (óbirtar æskuminningar). Niðurstaða hans er sú að sjálfsskrif af þessu tagi hafi almennt gildi því þau hjálpa manni að gera eina lifandi heild úr lífi sínu. Til að útskýra þá niðurstöðu verður meðal annars vikið að margræðni sagnarinnar „að finna“ sem getur merkt að uppgötva en líka að skynja (finna til).
Hvenær getur það talist eðlilegt að stíga fram og segja sína sögu? Samfélagið býr til slíka kvarða, meðvitað eða ómeðvitað, sem fólk fylgir langoftast. Víða í hinum vestræna heimi eru kvarðarnir svipaðir; þeir sem hafa eitthvað til málanna að leggja – fólkið í valdastöðum – fær eitt sviðið; aðrir hlusta og fylgjast með. Á Íslandi á síðari hluta 19. aldar og lengst af á þeirri 20. var þessu öðruvísi farið. Í fyrirlestrinum verður leitað eftir skýringum á því hvers vegna sjálfsbókmenntir á Íslandi geti tæplega flokkast með elítubókmenntum og af hvaða ástæðum fólki á jaðrinum fannst það vera nánast siðferðileg skylda sín að stíga fram og segja sína sögu.