„Enn einn fáni á vegginn“: Stefnur, hugmyndafræði og framkvæmd þeirra frá sjónarhorni foreldra sem hafa íslenskt táknmál eða erlent mál að móðurmáli

Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 13:00-14:30.

Réttur málhafa íslensks táknmáls (ÍTM) og erlendra móðurmála er viðurkenndur í íslenskum lagaramma, og þá sérstaklega í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Íslandi árið 2013 með lögum nr. 17/2013. Í málstofunni verður fjallað um tvær yfirstandandi rannsóknir sem beinast að því að skoða málhugmyndafræði, stefnur er varða íslenskt táknmál (ÍTM) og móðurmál innflytjenda sem og sýn foreldra á framkvæmd þeirra í skólakerfinu og utan þess.

Málstofan verður túlkuð á íslenskt táknmál.

Branislav Bédi kynnir fyrirlesara og stýrir umræðum.

Fyrirlestrar

Íslenskt táknmál og móðurmál innflytjenda eru viðurkennd í íslenskum lagaramma og stefnumótun sem réttindi notenda sinna. Um hundrað tungumál eru notuð af börnum á Íslandi, en mun færri börn styðjast við íslenskt táknmál. Þetta erindi notar skjalagreiningu (e. document analysis) (Bowen, 2009) til þess að bera saman málréttindi þessara hópa eins og hvernig þeim er lýst í íslenskri löggjöf og stefnumótandi skjölum. Niðurstöður eru síðan settar í samhengi við hugmyndafræði skóla fyrir allra og grunnþætti menntunar. Þegar stuðst er við kenningu Krausneker (2015) um hugmyndafræði og gildi gagnvart táknmálinu og við greiningu Spolskys (2005) á tungumálastefnum, koma í ljós áhugaverðar hliðstæður en líka munur í því hvaða réttindi málhafar hafa og hvernig þau eru framkvæmd.

Á Íslandi eru töluð fjölmörg tungumál, þar á meðal íslenskt táknmál (ÍTM) og móðurmál innflytjenda. Stefnur, lög og sáttmálar taka tillit þess að íslensk börn eru fjöltyngd en lagaleg staða tungumálanna sem og félagslegt umhverfi þeirra er mismunandi. Hér verður fjallað um málhegðun í umhverfi tví/fjöltyngdra barna sem og málviðhorf sem úr þeim má lesa. Hin eiginlega málhegðun er greind út frá viðtölum við foreldra sem eiga annað móðurmál en íslensku og byggt á kenningum Spolskys (2004) sem segir málstefnu felast í þremur sjálfstæðum en tengdum þáttum, málhegðun, málhugmyndafræði og málstýringu.