Er tímabært að lesa minna og telja meira? Þrjár tilraunir til „fjarlesturs“ á íslenskri bókmenntasögu

Image

Er tímabært að lesa minna og telja meira? Þrjár tilraunir til „fjarlesturs“ á íslenskri bókmenntasögu

Í Odda 106 laugardaginn 9. mars kl. 15:00-16:30.

Fjarkönnun, fjarrýni eða fjarlestur eru dæmi um íslenskar þýðingar á enska hugtakinu distant reading en það á m.a. við um rannsóknir þar sem notast er við tölfræðilegar upplýsingar við kortlagningu bókmennta- og menningarsögu. Fjarlestur gengur með ýmsum hætti gegn hefðbundnum áherslum á lestur og túlkun stakra texta og upphafningu tiltekinna höfunda, bókmenntagreina eða hreyfinga og beinir athyglinni þess í stað að almennum eða vanræktum þáttum bókmenntakerfisins. Í þessari málstofu nýta þátttakendur gagnagrunn Landskerfis bókasafna til að varpa ljósi á hlutdeild íslenskra blaðamanna í íslenskri bókaútgáfu, fyrirferð þýddra glæpasagna í skáldsagnaflórunni og uppruna þýddra barnabókmennta á ólíkum tímum.

Fyrirlestrar

Ævisögur, sagnaþættir, viðtalsbækur og annar þjóðlegur fróðleikur, þýðingar og skáldsögur um íslenskt alþýðufólk. Þetta eru þær bókmenntagreinar sem heyra undir skrif blaðamanna tuttugustu aldarinnar. Þrátt fyrir að verk þeirra hafi verið vinsæl á sínum tíma hafa þau ekki fengið sinn sess í bókmenntasögu tímabilsins. Í þessum fyrirlestri verður rýnt í sameiginleg einkenni bókverka blaðamanna og sögu þeirra. Notast verður við tölfræðileg gögn til að varpa nýju ljósi á hve stór hlutdeild þessa rithöfundahóps var í bókaútgáfu á Íslandi á síðustu öld.

Sum segja "bang bang" og önnur "pow pow" en hvaðan komu kúrekarnir? Í þessu erindi verður greint frá möguleikum fjarkönnunar þegar kemur að skoðun íslenskrar bókmenntasögu og þá sérstaklega útgáfu þýddra barnabókmennta á íslensku. Hvað getur yfirlitsgreining á uppruna þýddra barnabóka sagt okkur um aðgengi íslenskra lesenda að fjölbreyttum menningarsögum?  Hér verður litið sérstaklega til nokkurra tímabila með það að markmiði að skoða uppruna og tíðni þýddra barnabóka á Íslandi út frá hugmyndum eftirlendufræða um þjóðerni og staðalmyndir.

Almennt er talið að glæpasögur nái ekki umtalsverðri fótfestu hér á landi fyrr en á árunum 1997–1998 þegar Arnaldur Indriðason, Árni Þórarinsson og Stella Blómkvist hefja að senda frá sér sín fyrstu verk. Fram að þeim tíma var útgáfa glæpasagna eftir íslenska höfunda vissulega mun strjálli en síðar varð en á móti kom umtalsverð og vaxandi útgáfa þýddra glæpasagna meginhluta tuttugustu aldarinnar. Í þessu erindi verður varpað ljósi á stöðu og fyrirferð þýddra glæpasagna innan íslensks bókmenntakerfis á tímabilinu 1900-1950. Athyglin beinist meðal annars að tilteknum útgáfufyrirtækjum, einkum utan Reykjavíkur, sem voru leiðandi á þessu sviði.