Franskar bókmenntir í deiglunni

Í Árnagarði 310 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00.

Í málstofunni verður fjallað um nokkra franska rithöfunda og málefni sem eru í deiglunni í bókmenntaumræðunni. Annie Ernaux fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum 2022 og mun Irma Erlingsdóttir fjalla um viðbrögð og umræðu í Frakklandi í tengslum við verðlaunin. Toby Wikström beinir sjónum að mælskulist sjálfsævisögunnar og afneitun Montaignes í Játningum Rousseau með hliðsjón af nýrri þýðingu Péturs Gunnarssonar á verkinu. Árið 2022 voru 450 ár liðin síðan fjöldamorð voru framin á frönskum mótmælendum á degi Saint-Barthélémy. Þau komu af stað langvarandi trúarbragðastríði í landinu og áhrif þeirra á franskt samfélag voru djúpstæð og margbrotin. Í erindi sínu fjallar Guðrún Kristinsdóttir um trúarbragðastríðin í þremur samtímatextum (Marguerite de Nava! rre, Montaigne, Madame de Lafayette). Að lokum verður sjónum beint að skrifum fransk-senegalska rithöfundarins Davids Diop, einkum í skáldsögunni Á nóttunni er allt blóð svart, sem fékk hin þekktu Alþjóðlegu Booker-verðlaun árið 2021.

Fyrirlestrar

Bókmenntaverðlaun Nóbels til Annie Ernaux: Viðbrögð í Frakklandi

Í tilefni birtingar nýrrar þýðingar Péturs Gunnarssonar 2022 á Játningunum eftir Jean-Jacques Rousseau mun erindi þetta snúast um mælskulist sjálfævisögunnar og flókna samband Rousseau við eldri fyrirmynd sjálfsmyndarsköpunar, Montaigne höfund EssaisJátningarnar (17821789) Rousseau teljast eitt helsta framlag vestrænnar menningar til sjálfsævisögunnar þar sem höfundurinn segist „líta mynd af manni [...] máluð eftir fyrirmyndinni af nákvæmni“ sem er hann sjálfur. Aðspurður í spjallþættinum Rauða borðinu 4. október 2022 hvort Játningarnar væru Rousseau sjálfur svaraði Pétur Gunnarsson þýðandi „að svo miklu leyti sem texti geti verið maður“ og varpaði þar með efasemdum á þá yfirlýsingu höfundarins að textinn gæti verið nokkurs konar fullkomin sjálfsmynd hins skrifandi sjálfs. Sjálfsævisögur, eins og allar frásagnir, velja ákveðna vinkla og sleppa ýmsum upplýsingum, lögmál sem tortryggja staðhæfingar um fullkomna, sanna sjálfsævisögu.  Í tilfelli Játninganna snýst þetta val ekki bara um að sleppa upplýsingum úr lífi Rousseau heldur líka um afneitun höfundarins á augljósri 16. aldar fyrirmynd sinni Montaigne, sem Rousseau nefnir einungis einu sinni í langa verkinu sínu Játningunum, og þá bara til þess að fordæma. Með því að greina þetta samband Játninganna Rousseau við Essais Montaigne, mun erindið veita innsýn í mælskulist sjálfsævisögunnar á nýöld.

Minni úr trúarbragðastríðunum sem geisuðu í Frakklandi á 16. öld fara hljótt í frönskum gullaldarbókmenntum 17. aldar. Þó héldu trúmál áfram að vera pólitískt aðalatriði og mótmælendur sættu ofsóknum allt frá því að Hinrik 4. lögfesti trúfrelsi í landinu árið 1598 þar til trúfrelsi var afnumið í valdatíð Loðvíks 14. árið 1685. Í ljósi kenninga um áföll og bókmenntir verður í þessu erindi rýnt í nokkrar birtingarmyndir trúarbragðastríðanna í sögulegum smásögum og öðrum styttri textum frá 16. og 17. öld sem birst hafa nýverið í íslenskum þýðingum.

Fransk-senegalski rithöfundurinn og fræðimaðurinn David Diop er sérfræðingur í  ferðabókmenntum 17. og 18. aldar en hefur einnig sent frá sér þrjár skáldsögur. Í fyrirlestrinum verður fjallað um birtingarmyndir blökkumannsins í skáldsögum hans Á nóttunni er allt blóð svart (Frère d’âme), sem kom út í Frakklandi árið 2018, og verkinu, Dyrnar að ferðinni án endurkomu (La Porte du voyage sans retour) frá árinu 2021. Í báðum verkunum stillir Diop blökkumanninum eða blökkukonunni upp andspænis hvíta manninum á ólíkan hátt, annars vegar mitt í firringu skotgrafahernaðar fyrri heimsstyrjaldar þar sem vægðarlaust ofbeldið veldur sturlun, hins vegar í skáldaðri frásögn franska náttúrufræðingsins Michel Adanson af ferð sinni til Senegal um miðja 18. öld. Þangað siglir Adanson Í því skyni að kanna landið, náttúru þess og lífríki, en ferð hans tekur óvænta stefnu þegar hann kemur á áfangastað.