Frönsk leikrit í íslenskum þýðingum

Image

Frönsk leikrit í íslenskum þýðingum

Í Árnagarði 310 föstudaginn 8. mars kl. 13:15-14:45.

Í málstofunni verður fjallað um nokkur frönsk leikrit og íslenskar þýðingar þeirra. Erindin eru hluti af stærri rannsókn um áhrif franskra sviðslista á íslenskt leikhúslíf og ber yfirskriftina „Franska bylgjan í íslensku leikhúsi“ (Rannís-217857-051)

Fyrirlestrar

Gamanleiki á ekki að lesa heldur leika, sagði Molière, og benti á að einungis þeir sem hefðu augu til þess að sjá leikinn í textanum gætu lesið verk af þessum toga. Gamanleikir eru ekki síður áskorun þegar kemur að þýðingu enda eru leiktextar með allra flóknustu bókmenntatextum og kalla á stöðuga innri og ytri endurskoðun. Franskir gamanleikir hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi allt frá fyrstu uppsetningum á gamanleikjum Molière á síðari hluta 19. aldar. Í pallborðinu verður fjallað um leikritaþýðingar, staðfærslu, framandleika og tryggð við textann með hliðsjón af frönskum gamanleikjum sem settir hafa verið upp í Borgarleikhúsinu (Fló á skinni eftir Georges Feydeau, Sex í sveit eftir Marc Camoletti, Bara smástund eftir Florian Zeller).

Leikhópurinn Gríma, sem starfræktur var á árunum 1961–1970, hafði að meginstefnu sinni að setja upp íslensk og erlend framúrstefnuleikrit. Fyrsta leikritið sem hópurinn setti upp var leikritið Læstar dyr (fr. Huis clos) eftir franska heimspekinginn og skáldið Jean-Paul Sartre. Rýnt verður í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur og Þuríðar Kvaran, sem talin var glötuð en kom nýlega í leitirnar á Íslandssafni, og hún borin saman við þýðingu Þórunnar Magneu Magnúsdóttur sem endurþýddi verkið fyrir Útvarpsleikhúsið árið 1988 undir heitinu Lokaðar dyr. Þýðingarnar verða bornar saman við frumtextann, sem og aðrar þýðingar á leikritum Sartres (Flekkaðar hendur, Þjóðleikhúsið, 1950 og Fangarnir í Altona, LR, 1963), með sérstakri áherslu á menningarlega og hugmyndafræðilega aðlögun.

Leikritin Antígóna og Orfeus og Evrydís eftir franska leikskáldið Jean Anouilh voru rituð á árum síðari heimsstyrjaldarinnar í hernumdu Frakklandi og fjalla á allegorískan hátt um valið sem stendur á milli þess að veita erlendu hervaldi viðnám eða sætta sig við innrásarvaldið. Þessi leikrit voru sett upp í íslenskum þýðingum á tímum kalda stríðsins; hið fyrra í Þjóðleikhúsinu árið 1955 og hið síðara hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó árið 1969. Rýnt verður í þýðingar þessara leikrita með sérstakri áherslu á pólitíska orðræðu og aðlögun grísku goðsagnanna að íslenskum veruleika.