Fyndnust
Fyndnust
Í Árnagarði 306 föstudaginn 7. mars kl. 13:15-14:45.
Rithöfundurinn Auður Haralds féll frá á síðasta ári. Fyrsta verk hennar, ævisögulega skáldsagan Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, sem kom út í lok áttunda áratugarins, vakti mikla athygli og umtal enda stíll og efnistök harla ólík því sem margir íslenskir lesendur áttu að venjast. Fleiri skáldsögur fylgdu í kjölfarið, ýmist ætlaðar börnum og unglingum eða fullorðnum. Í málstofunni verður fjallað um feril Auðar frá ýmsum hliðum; fjallað verður um ævi hennar og einstök verk en einnig auglýsingatextagerð sem hún fékkst við um árabil.
Fyrirlestrar
Rætt verður um rithöfundinn Auði Haralds sem kröftugt hreyfiafl, rödd sem var jafn framsækin og frumleg í hugsun og hún var áræðin, einlæg, leikandi, og teprulaus eins og barn niðursokkið í leik. Þannig virtist hún geta stungið sér beint í kvikuna á viðkvæmum málefnum og tabúum, eins og heimilisofbeldi, kvenfyrirlitningu og mismunun, svo eitthvað sé nefnt; oft skrefi á undan samtíðarfólki sínu. Þetta gerði hún á þann hátt að lesandinn fær á tilfinninguna að húmorinn hafi gott sem bjargað henni. Hún treysti rödd sinni, án þess að láta nokkuð slá sig út af laginu. Rödd hennar var ísbrjótur. Þessu og ýmsu fleiru mun fyrirlesari velta upp og finna stað í verkum nöfnu sinnar, þá sérstaklega Hvunndagshetjunni en líka í bókunum um Elías og bókinni Baneitrað samband á Njálsgötunni. Jafnframt verður vikið að pistlaskrifum hennar í Þjóðviljanum og víðar. En umfram allt verður spáð í höfundinn sjálfan, Auði Haralds, nærveru hennar í samfélaginu og rödd hennar sem var um svo margt einstæð og ögrandi á uppbyggilegan hátt fyrir samfélagið. Þetta var rödd sem nærði og efldi húmor annarra, bæði barna og fullorðinna. Og fékk fólk til að þora að hugsa á nýjan hátt.
Auður Haralds var í hópi ungra höfunda sem komu fram á áttunda áratug síðustu aldar og gerðu á beinskeyttan hátt um við aldagamla kúgun, rótgróna misskiptingu og trénað feðraveldi. Þessir höfundar voru kenndir við „nýtt raunsæi“ og fengu góðar viðtökur lesenda en óblíðar móttökur hjá mörgum gagnrýnendum sem töldu verk þeirra óhefluð, lágkúruleg og óskáldleg. Þetta voru ólíkir höfundar. Auður var í hópi þeirra sem notuðu húmor til að afhjúpa hlægilega siði og úrelt viðmið. Hún dró samfélagið sundur og saman í háði og þar var enginn undanskilinn, allrasíst hún sjálf. En á meðan hláturinn ískrar í lesandanum birtist honum smám saman mynd af ömurlegu hlutskipti ungrar konu sem á sér varla undankomuleið í samfélagi sem einkennist af dómhörku og grimmd. Fjallað verður um þetta í erindinu og einnig hitt hvernig það var að vera tvítugur karlmaður við það að fara út í lífið og lesa lýsingar verksins á kynbræðrum sínum og því valdakerfi sem fóstrar þá.
Flestir Íslendingar sem komnir eru af barnsaldri tengja væntanlega húmor og orðkynngi Auðar Haralds við bækur hennar, sem komu flestar út á 8. og 9. áratugnum, blaðagreinar og pistla. En færri vita sennilega að hún fann orðsnilld sinni og frumleika líka farveg í auglýsingatextagerð. Um nokkurra ára skeið, í byrjun þessarar aldar, sá hún nefnilega um að þýða og staðfæra texta í bæklinga verslanakeðjunnar Tiger. Í fyrirlestrinum verður litið á þessa hlið á höfundarverki Auðar, sagt frá leitinni að bæklingunum og valin dæmi úr þeim sýnd. Þá verður fjallað um nýyrðasmíði Auðar, sem bæði má sjá dæmi um í auglýsingunum og skáldsögunum.