Geggjaðar guðsmyndir. Ögrandi guðsmyndarnýsmíði í sögu og samtíð
Í Odda 202 laugardaginn 11. mars kl. 10:00-12:00.
Flest kannast við hefðbundnar guðsmyndir kristni og kirkju þar sem Guði er gjarnan lýst sem algóðum, alvitrum, réttlátum og miskunnsömum konungi, föður og sigurvegara. Gagnrýni á hefðbundnar túlkanir af þessu tagi er ekki ný af nálinni, en hún hefur verið fyrirferðarmikil síðustu áratugina, ekki síst eftir að konur stigu inn á fræðasvið guðfræðinnar. Femínískir guðfræðingar, ásamt róttækum guðfræðingum sem m.a. kenndu sig við frelsunarguðfræði og svarta guðfræði, gagnrýndu viðteknar og rótgrónar hugmyndir um Guð og ögruðu með hugmyndum sem oft á tíðum hafa þótt algerlega út úr korti.
Í málstofunni verður fjallað um guðsmyndarsmíði frá ólíkum sjónarhólum og dæmi tekin úr bæði sögu og samtíð.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum verður fjallað um endurskoðun guðsmyndarinnar í ljósi hlýnandi veðurs og afleiðinga þess. Það er ljóst að manneskjan ber mikla ábyrgð á ástandinu sem við stöndum nú frammi fyrir og brýnt að guðfræðin geti brugðist við þeim veruleika á trúverðugan hátt. Til þess að svo megi verða þarf m.a. að endurskoða þá mannmiðlægni sem hefur einkennt guðfræðilega orðræðu fram að þessu og hefur haft afdrifarík áhrif á kristna guðsmynd, ekki síst á hugmyndina um Guð sem skapara himins og jarðar.
Í september 2020 birtist mynd á Facebook-síðu þjóðkirkjunnar sem sýndi Jesú sem hoppandi kátan einstakling með farða, brjóst og skegg. Myndbirtingin vakti mikla athygli í samfélaginu og skapaðist töluverð umræða um hana. Sýndist þar sitt hverjum, sumum fannst þetta áhugavert skref á meðan öðrum fannst það forkastanlegt. Í erindinu verður umrædd myndbirting rædd á gagnrýninn hátt og sett í samhengi við róttæka uppstokkun á hefðbundnum guðsmyndum í samtímanum sem ögra ekki síst kynjaandstæðuhyggju og gagnkynhneigðarhyggju vestrænnar menningar.
Kristin trú hefur í meðförum kirkjunnar ratað um marga myrka vegu en einnig oft dansað í ljósinu. Undir prédikun kirkjunnar hefur margur mátt gráta í hljóði, jaðarsettur hópur af konum, milljónir fólks sem er á flótta. Að boða fagnaðarerindi er að segja nei við samræðu eða orðfæri sem birtir guðsmynd valdsins, aðgreinir og boðar einsleitni í lífsflórunni. En hvernig er hægt að rífa upp rótgrónar guðsmyndir án þess að missa marks ? Hversu mikið rými er fyrir endursköpun og skilgreiningu? Í erindinu verður því velt upp hvernig hægt er að teikna upp guðsmynd með verkfærum síðnýlenduhyggju sem kallast á við bæði samtíma og fortíð, þau máttugu og þau vanmáttugu, við miðjuna og jaðranna.