Græn og blá hugvísindi ofan Ártúnsbrekkunnar

Image

Græn og blá hugvísindi ofan Ártúnsbrekkunnar

Í Árnagarði 301 laugardaginn 9. mars kl. 10:00-14:30.

Málstofan er þverfagleg og sýnir ýmsar birtingarmyndir hug- og félagsvísindalegra rannsókna á umhverfismálum og tengdum viðfangsefnum. Hnattrænar loftslagsbreytingar eru þar í fyrirrúmi en einnig verður fjallað um ýmis staðbundnari viðfangsefni samtímans svo sem hvalveiðar og ferðamennsku. Fyrirlesarar starfa allir hjá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, þeir hafa aðsetur í ólíkum hlutum landsins og mörg erindanna tengjast sérstaklega þeim byggðarlögum þar sem einstök setur eru staðsett.

Fundarstjórar verða Sæunn Stefánsdóttir og Birna Guðrún Gunnarsdóttir

Fyrirlestrar

Í erindinu verður fjallað um tilviljunakennda varðveislu fróðleiks og upplýsinga um áhrif íbúa landsins á náttúru og landslag, einkum um menningarlandslag, örnefni og þjóðsagnastaði. Hinn síbreytilegi menningararfur okkar á þessu sviði verður skoðaður í samhengi við gildandi lagaramma um minjavernd og sögustaði og rætt hvort og hvernig væri hægt að bæta regluverk og stjórnsýslu. Lagt er til atlögu við menningarpólitískar spurningar um minjalögin sjálf, en einnig verkferla og vinnubrögð við skipulagsvinnu og undirbúning framkvæmda, m.a. við fornleifaskráningu, umhverfismat, samráð við nærsamfélagið og ákvarðanatöku um framkvæmdir. Auk þess að skoða hvernig þessi menningararfur fyrri kynslóða hefur skilað sér til samtímans og hvaða gildi hann hefur fyrir fólk nú á tímum, er ætlunin að huga að því með hvaða hætti og við hvaða aðstæður slíkar upplýsingar týnast helst og tapast og sögur og sagnir gleymast.

Ef virðing fyrir sögustöðum og menningararfi í landslaginu skiptir enn þá máli, er mikilvægt að fylgja að minnsta kosti gildandi lögum um grunnskráningu minja og jafnvel að efna til átaks um frekari upplýsingasöfnun í samtímanum um samspil fólks, náttúru og landslags, auk þess að breyta aðferðum við skipulagsvinnu og verkferlum við undirbúning framkvæmda.

Seinni hluti 19. og upphaf 20. aldar marka kaflaskil í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Fyrir þennan tíma einkenndist nýting sjávarauðlinda af þorsk- og hákarlaveiðum á opnum bátum en forsendubreyting verður fyrst með tilkomu þilskipa, og síðar togara og aðstöðu til verkunar sjávarfangs í landi. Norðmenn áttu stóran þátt í þessari byltingu með uppbyggingu hvalveiðistöðva víða á Vestfjörðum og Austfjörðum í lok 19. og upphafi 20. aldar. Í þessum fyrirlestri mun ég skoða sögu stöðvanna, bæði með fornleifafræðilegri og sagnfræðilegri aðferðafræði, en líka greina umræðu um veiðarnar eins og þær birtast í bréfum og fjölmiðlum þessa tíma og hvernig sú umræða endurspeglar togstreitu efnahagslegra og tilfinningalegra raka.

Sumarið 2017 gerðust þau undur og stórmerki á Efra-Jökuldal á Austurlandi að bílaleigubílar tóku að streyma inn dalinn eftir holóttum og mjóum malarveginum  sem hingað til hafði verið fáfarinn. En nú brá svo við að það kom bíll eftir bíl og keyrt var heim í land tveggja bæja, beggja megin Jökulsár á Dal. Ferðafólk snaraðist út úr bílunum og stefndi að gili sem fyrirheit var um að væri einstakt að gerð. Staðurinn hafði þá svo lengi sem menn mundu haft sitt nafn og sess meðal heimamanna og var þekktur meðal margra á Austurlandi en við frægðina hlaut hann nýtt heiti sem festist í sessi og heitir nú Stuðlagil vegna hinna sérstæðu stuðlabergshamra sem þarna eru. Í erindinu verður litið til kenninga og rannsókna á því hvaða áhrif það hefur á náttúru og samfélag á fáförnum slóðum ef náttúrufyrirbæri verða snögglega eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og hvaða atriði í því má heimfæra upp á þróun á Efra-Jökuldal vegna vinsælda Stuðlagils.

Archaeological sites across the circumpolar north are rapidly degrading as a consequence of rising global temperatures. This short film shares the story of the Greenland RESPONSE project and the archaeologists racing to record and rescue what is left. Focusing on the sub-arctic farming landscape of Kujataa, south Greenland, the film documents the excavations of Norse (Viking) farming settlements dating between the 10th-14th centuries, while exploring the very tangible connections to present-day Inuit farming communities working the same soil.

Fátt er okkur ókunnugra og meira ógnandi en það sem býr í hafdýpinu, eins og fram kemur í smásögunni „Skepnan“ eftir Þórdísi Helgadóttur (2018). Í fyrirlestrinum verður fjallað um óhugnað og dulsæi tengt hafinu í þeirri sögu og öðrum nýlegum skáldverkum. Stuðst verður við kenningar kenndar við vatnafemínisma (e. hydrofeminism) þar sem líkaminn er skynjaður sem vatn, sjálfið er flæðandi fyrirbæri í gegnsósa heimi og fjarlægðin milli okkar og annarra verður í senn jafn ógnarmikil og frumhafið og nálægðin meiri en við okkar eigin húð, eins og Astrida Neimanis orðar það (2012, 96). Slík skynjun ögrar hefðbundinni aðgreiningu milli hins mannlega og hins ekki-mennska; milli okkar og annarra lífvera, hins ólífræna heims og jafnvel skrímsla, drauga og annarra yfirnáttúrulegra fyrirbæra.

 

Heimildir:

Astrida Neimanis, „Hydrofeminism. Or, On Becoming a Body of Water“, Undutiful Daughters. Mobilizing Future Concepts, Bodies and Subjectivities in Feminist Thought and Practice, ritstj. Henriette Gunkel, Chrysanthi Nigianni og Fanny Söderbäck, New York: Palgrave Macmillan, 2012, bls. 96–115.

Þórdís Helgadóttir, „Skepnan“, Keisaramörgæsir, Reykjavík: Bjartur, 2018.

Á meðan 21. öldin æðir áfram er mikið rætt um loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á framtíðarmöguleika mannkyns, dýrategundir og ábyrgð okkar sem yrkjum jörðina í dag. Við virðumst í sífellu standa á þröskuldinum: fyrir handan okkur heimurinn sem var og framundan gjörbreytt veröld og óvissa. Mikið er rætt um ábyrgð stjórnvalda og leiðir þeirra til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og orkuskipti auk þess sem einstaklingar finna sig knúna til að draga úr sóun og neyslu, flokka sorp og velja orkugjafa sem teljast umhverfisvænni.

Þjóðfræðin hefur áhuga á ýmsu, ekki hvað síst hversdagsmenningu og persónulegum upplifunum. Þar er samspil náttúru og manneskju engin undantekning. Í erindi þessu verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á fólk, með áherslu á upplifun þess fremur en tölur og súlurit. Einkum verður horft til breytinga í umhverfinu: hvað hefur breyst sem tekið er eftir? Hefur veðurfar á Íslandi breyst á undanförnum árum og áratugum? Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar haft á hversdagslíf fólks á Íslandi? Hverjar eru framtíðarhorfurnar?

Til að fá svör við þessum spurningum verður stuðst við netkönnun á vegum Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum, sem send var út haustið 2023. Með því móti er hægt að bera á borð hvernig fólk upplifir að standa frammi fyrir hengiflugi breytinganna.

Í árslok 1970 birti Halldór Laxness fræga grein í Morgunblaðinu undir titlinum „Hernaðurinn gegn landinu“ sem olli, að vonum, heilmiklu fjaðrafoki víða í samfélaginu. Í erindinu verður leitast við að taka stöðuna í umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi, nú ríflega hálfri öld síðar, með hliðsjón af þessari grein. Rætt verður um helstu efnisþætti hennar (sem eru innbyrðis talsvert ólíkir og jafnvel mótsagnakenndir) og hvernig þeir tengjast eldri skrifum Halldórs, en jafnframt kannað hvort milli þeirra liggi dýpri þræðir en ætla mætti í fyrstu. Því næst verður hugað að erindi greinarinnar til samtímans og leiðsagnargildi gagnvart þeim verkefnum sem við okkur blasa nú í dag og næstu áratugi. Getur „landið“ í skilningi Halldórs enn verið kjölfesta í hugsun okkar um umhverfis- og náttúruvernd eða hefur einhvers konar kúvending eða jafnvel rof átt sér stað? Þurfum við nú og héðan í frá að setja alla okkar (grænu) orku í baráttuna gegn hamfararhlýnun, jafnvel hvað sem það kostar? Eða er einfaldlega búið að „skala upp“ sömu vandamálin og áður þannig að nú er allur heimurinn undir og þá um leið allt sem honum tilheyrir? Hver – ef einhver – eru tengslin á milli „lands“ og „heims“ í umhverfis- og náttúruverndarhyggju samtímans?