Gramsað í gömlu

Image

Gramsað í gömlu

Í Árnagarði 306 laugardaginn 8. mars kl. 15:00-16:30.

Málstofan fjallar um bréfaskriftir, varðveislu bréfa, bréf sem heimildir og útgáfu þeirra. Fyrr á árum, fyrir símann, tölvurnar og alnetið, voru sendibréf ein helsta samskiptaleiðin milli fólks sem dvaldist hvert fjarri öðru. Aðeins brot af öllum þessum bréfum er varðveitt enda var þeim ekki alltaf haldið vel til haga eða jafnvel brennd að ævilokum.  Í málstofunni verður fjallað um siðfræði rannsókna á einkaheimildum og rædd tvö dæmi um söfn einkabréfa, efni þeirra og tjáningarform.

Fyrirlestrar

Skáldsagan Elizabeth Finch eftir breska rithöfundinn Julian Barnes fjallar um háskólakennara sem nemandi hennar segir frá eftir að hún hefur arfleitt hann að bókum sínum og eftirlátnum pappírum:

Lík hennar var horfið, brennt eftir hennar tilsögn; minning hennar, geymd hjá fjölskyldunni, vinum og fyrrum nemendum, mundi hverfa smám saman. En hér, í íbúð minni, var nokkuð milli líkama og minninga. Dauðar pappírsarkir sem á einn eða annan hátt gátu andað lífi.

Spurning, sem nemandinn veltir fyrir sér, er hvort hann eigi að láta pappírsarkirnar anda lífi eða kannski láta það ógert. Í fyrirlestrinum verður rætt hvað sé siðferðilega rétt að gera við eftirlátna pappíra látinna – brenna þá, koma þeim í trygga varðveislu, jafnvel gefa þá út.

Sigríður Einarsdóttir Sæmundsen Magnússon fæddist í Reykjavík 17. mars 1831 og lést 16. nóvember 1915. Hún var áberandi í félagslífi fæðingarbæjar síns, lék á sviði á áhugamannasýningum, lék og kenndi á gítar og Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal orti til hennar tólf álna langt kvæði. Um hana var ort: Sigríður dóttir hjóna í Brekkubæ …. Hún og Soffía systir hennar giftust guðfræðinemum að austan enda keyptu þeir fæði af móður þeirra svo það voru hæg heimatökin. Hún hélt með Eiríki Magnússyni, eiginmanni sínum, til Englands 1862 og bjó síðan lengst af erlendis, ferðaðist t.d. ein til Bandaríkjanna seinna meir og hafði lifibrauð af því að halda fyrirlestra um íslensk málefni. Hún safnaði fé til stofnunar kvennaskóla og lét reisa húsið Vinaminni sem enn stendur í Grjótaþorpi. Töluvert efni, m.a. bréf til þessarar merku konu og frá, fyrirlestrar eftir hana og greinar eru í bréfasafni eigimanns hennar. Eiríkur Magnússon þýddi ýmsar Íslendingasögur auk Heimskringlu yfir á ensku með stórskáldinu og hönnuðinum William Morris. Hér er rýnt í grein sem Sigríður skrifar um kynni sín af William Morris og fjölskyldu hans, sem skrifuð er að því er virðist skömmu eftir lát Williams Morris, 1896. 

María Kristín fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal, dóttir Þorvalds Thoroddsen, kennara þar, og Halldóru Kristjánsdóttur, vinnukonu á staðnum. Nokkurra mánaða gömul var hún tekin til fósturs af hjónunum Stephani og Önnu Stephensen á Akureyri sem gengu henni í foreldrastað og hjá þeim ólst hún upp við mikið ástríki. Hún fékk góða menntun, m.a. í tungumálum og píanóleik, og var á leið til framhaldsnáms í Danmörku þegar hún veiktist af berklum. Ferðin til Danmerkur varð því önnur en hún ætlaði. Eins og fleiri íslenskir berklasjúklingar var hún send þangað til lækninga, nánar tiltekið á Vejlefjord Sanatorium á Jótlandi, þar sem hún dvaldist frá júlímánuði 1906 til dauðadags 17. janúar 1907. Á þessu tímabili skrifaði hún foreldrum sínum 45 bréf sem varðveist hafa ásamt öðru dóti í minjasafni þeirra á Þjóðminjasafni Íslands, í læstum kistli. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi bréf sem eru full af upplýsingum um aðstæður sjúklinga, aðferðir við lækningar, samskipti við lækna, vonir og vonbrigði, tilfinningar og dauðans angist.