Grýla og börnin
Í Árnagarði 101 föstudaginn 10. mars kl. 13:15-14:45. Smellið hér til að fylgjast með streymi.
Þessi málstofa er um Grýlu og tengsl hennar við börn – bæði börn í hópi áheyrenda og hennar eigin börn – og um mótun Grýlukvæða- og Grýluþuluhefðar sem jólabókmenntir fyrir börn.
Fyrirlestrar
Í fyrirlestrinum mun ég skoða bakgrunn Grýlu í forníslenskum bókmenntum og þjóðsiðum annarra landa. Meðal annars verður rætt um elstu lýsingar á henni í Sturlungu, tengsl hennar við Sverris sögu, og hvernig hún tengist fornum dulbúningasiðum (guising/ mumming traditions). Einnig verður rætt um ættingja Grýlu á Norðurlöndum og í germönskumælandi löndum fyrr og nú, sérstaklega um Grýlu- og grölek-siði og vísur á Hjaltlandi og í Færeyjum. Loks verður fjallað um það hvernig Grýla birtist í bókmenntum Williams Heinesens.
Katelin fjallar um Grýlukvæði á 17. öld og tengsl þeirra við eldri leikhefðir, þulur og börn, flutning og förumennsku. Hún sýnir fram á að leikhefð tengd Grýlu hafi verið mjög lifandi á fyrstu áratugum 17. aldar, en hröð útbreiðsla Grýlukvæða á seinni hluta aldarinnar er til marks um að a.m.k. eldri áhorfendur/áheyrendur hafa svipaða upplifun af Grýlu sem fyrirbæri í vestri, suðri, norðri og austri. Grýlukvæði frá 17. öld eru ort að því virðist af þröngum en landfræðilega mjög dreifðum hópi úr efstu lögum samfélagsins og viðhorf til förumennsku sem samfélagsógn birtist mjög skýrt í þessum kvæðum. Grýlukvæði 17. aldar eiga stóran þátt í að festa hugmyndina um Grýlu sem „erki-jólaskessu“ í sessi eftir að leikhefðin deyr út.
Flestar svokallaðar Grýluþulur snúast ekki um Grýlu heldur um börnin hennar; þær kýs ég að kalla Grýlubarnaþulur. Grýlubörn eru – þrátt fyrir það sem segir í sumum Grýlukvæðum og öðrum heimildum – ekki alveg sama fyrirbæri og jólasveinar. Um það vitna m.a. nöfn þeirra sem eru oftar en ekki ólík hinum lýsandi gerenda- og átvaglanöfnum jólasveina (sbr. Gluggagægir, Kertasníkir o.fl. sem Árni Björnsson hefur ritað mikið um). Nöfn Grýlubarna eiga frekar rætur að rekja til trölla-, berserkja- og þrælanafna úr nafnalistum í Rígsþulu, Allra flagða þulu og Hyndluljóðum, og jafnframt í Snorra-Eddu og fleiri fornritum.
Grýlubarnaþulur eru annars tiltölulega fáar en afar ólíkar innbyrðis og efni þeirra kemur úr mjög mismunandi áttum, þ. á m. frá meginlandi Evrópu. Sumar Grýlubarnaþulur tengjast sömu (jóla)skrímslahefð og birtist í Grýlukvæðum – þrátt fyrir það að Grýlubarnaþulur eru annars mjög frábrugðnar Grýlukvæðum. Aðrar Grýlubarnaþulur tengjast öðrum leikhefðum af svipuðum toga, enn aðrar snúast um framfærslu, hátterni leti- og leiðindahjúa (sem gömlu þrælanöfnin falla vel að) og annað það sem var uppi á baugi á 17.–18. öld, en fyrstu uppskriftir af þulum síðari alda eru einmitt frá þeim tíma.