Grýla og börnin

Þessi málstofa er um Grýlu og tengsl hennar við börn – bæði börn í hópi áheyrenda og hennar eigin börn – og um mótun Grýlukvæða- og Grýluþuluhefðar sem jólabókmenntir fyrir börn.

Fyrirlestrar

Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, ríður á vaðið og kynnir Grýlu frá fornu fari, bakgrunn hennar, tengsl við leikhefðir og ættingja í nágrannalöndum. Síðan ræða Katelin Parsons og Yelena Sesselja Helgadóttir, nýdoktorar í íslenskum bókmenntum, um Grýlukvæði og Grýluþulur á síðari öldum.

Katelin fjallar um Grýlukvæði á 17. öld og tengsl þeirra við eldri leikhefðir, þulur og börn, flutning og förumennsku. Hún sýnir fram á að leikhefð tengd Grýlu hafi verið mjög lifandi á fyrstu áratugum 17. aldar, en hröð útbreiðsla Grýlukvæða á seinni hluta aldarinnar er til marks um að a.m.k. eldri áhorfendur/áheyrendur hafa svipaða upplifun af Grýlu sem fyrirbæri í vestri, suðri, norðri og austri. Grýlukvæði frá 17. öld eru ort að því er virðist af þröngum en landfræðilega mjög dreifðum hópi úr efstu lögum samfélagsins og viðhorf til förumennsku sem samfélagsógn birtist mjög skýrt í þessum kvæðum. Grýlukvæði 17. aldar eiga stóran þátt í að festa hugmyndina um Grýlu sem „erki-jólaskessu“ í sessi eftir að leikhefðin deyr út.

Yelena Sesselja tekur svokallaðar Grýluþulur fyrir, en flestar snúast ekki um Grýlu heldur um börnin hennar. Grýlubörn eru, þrátt fyrir það sem segir í sumum Grýlukvæðum og öðrum heimildum, ekki alveg sama fyrirbæri og jólasveinar. Um það vitna m.a. nöfn þeirra, en flest eru þau óskyld nöfnum jólasveina og eiga rætur að rekja til trölla-, berserkja- og þrælanafna í íslenskum fornþulum sem höfðu líkast til umbreyst í langri munnlegri hefð. Grýluþulur koma annars úr mjög mismunandi áttum. Sumar tengjast sömu (jóla)skrímslahefðinni og birtist í Grýlukvæðum (þótt Grýluþulur séu annars mjög frábrugðnar kvæðunum), en aðrar koma inn á málefni letihjúa, ómagafjölda o.fl. sem var ofarlega á baugi á 17.–18. öld.